Fimmtudagur 28.10.2010 - 21:35 - FB ummæli ()

Veit að ég veit ekkert

Í tilefni af því að ég gef kost á mér til stjórnlagaþings – í ykkar umboði – vil ég minna á afstöðu Sókratesar, sem sagði:

Ég veit aðeins það, að ég veit ekkert.

Það hefur líklega mótað mig töluvert að hafa lært í menntaskóla að Sókrates taldi atgervi, gáfur, hæfileika og þekkingu ekki ráða úrslitum – heldur það að þekkja takmörk sín. Ég þykist þekkja mín takmörk og hef því þegar hafið undirbúning þess að fá stóran og fjölbreyttan hóp borgara til þess að gefa mér ráð og veita mér aðhald í framboði mínu til stjórnlagaþings – og setu þar, ef ég næ kjöri.

Ég tek fram að ég hef enn ekki haft tækifæri til þess að hafa samband við nema örfáa hugsanlega ráðgjafa.

Ekki vegna – heldur þrátt fyrir

Það, sem ég leita eftir, er fjölbreytni – enda tel ég sjálfur að minn helsti kostur sé að ég veit – og viðurkenni – að ég veit ekki allt og er ófullkominn; sjálfur er ég 3ja barna faðir, á miðjum aldri, embættismaður, löglærður, gagnkynhneigður, frjálslyndur, kristinn, umburðarlyndur, karl, flokksbundinn, landsbyggðarmaður að uppruna, Kópavogsbúi, háskólamenntaður, hef búið erlendis, fráskilinn o.s.frv.

Ráðgjafar mínir eiga helst að vera sem ólíkastir mér.

Ertu með?

Þó að tugir einstaklinga séu þegar komnir á blað sem hugsanlegir ráðgjafar í mínum huga vil ég gjarnan lýsa eftir fleirum; betur sjá augu en auga.

Ég leitast við að gæta ekki einungis jafnréttis og jafnræðis heldur vil ég fá sem fjölbreyttastan hóp til liðs – helst fólk sem er mjög ólíkt mér – enda hefur það t.a.m. verið einn helsti ókostur okkar æðsta dómstóls, Hæstaréttar, hvað hann hefur löngum verið einsleitur þrátt fyrir að þar hafi lengi setið fimm dómarar og nú níu; um það mun ég væntanlega fjalla aftur og betur á þessum vettvangi síðar.

Eins og ég hef sagt í tilsvörum hafa mínir bestu ráðgjafar og starfsmenn í gegnum tíðina verið þeir sem höfðu skoðun, gjarnan rökstudda, en ekki bara þá afstöðu að vera sammála fyrirfram hugmyndum mínum.

Allir hópar í baklandinu

Á blað yfir hugsanlega ráðgjafa eru komin

  • konur og karlar,
  • listamenn,
  • atvinnuleitendur og starfandi,
  • áberandi fólk og minna þekkt,
  • íhaldsfólk og frjálslynt,
  • eldri sem yngri,
  • Íslendingar og aðfluttir,
  • öryrkjar og hraustari,
  • langskólagengnir og fólk úr lífsins skóla,
  • landsbyggðarfólk og höfuðborgarbúar,
  • hérlendis búsettir og fráfluttir,
  • flokksbundnir og óflokksbundnir,
  • reyndir og óreyndir,
  • opinberir starfsmenn og fólk á almennum vinnumarkaði,
  • atvinnurekendur og launafólk –
  • o.s.frv.

Betur sjá augu en auga

Eins og fram kemur í framboðsyfirlýsingu minni í gær og pistlum mínum hér á Eyjunni þykist ég að vísu hafa töluverða reynslu og forsendur til þess að sinna þessu verkefni – tímabundið – í ykkar þágu.

Ég vil hins vegar freista þess að breikka hóp ráðgjafa út fyrir þann hóp sem ég þekki – til að verkið verði unnið sem best – enda ber ég vitaskuld merki þess hver ég er og hvaðan ég kem; ég vil því reyna að stuðla að því að takmarkanir mínar sem frambjóðanda séu bættar upp með reynslu og viðhorfum sem flestra ólíkra frambjóðenda – því að betur sjá augu en auga eins og sjálfur Sókrates minnti svo vel á.

Hafðu samband!

Ég bið ykkur um að hafa samband – annað hvort í athugasemdakerfinu, á fasbók, með tölvuskeyti í gislit@ru.is eða GSM 897 33 14 – ef þið viljið leggja umbótum á stjórnarskránni lið.

Ef þið gerið það ekki – er ég vís til þess að hafa samband við ykkur!

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur