Þriðjudagur 02.11.2010 - 21:31 - FB ummæli ()

Aðskilnaður ríkis og kirkju!

Ég býð mig vitaskuld ekki bara fram til stjórnlagaþings þar eð ég hef  fjallað um gildandi stjórnarskrá í 20 ár eða af því að ég tel þann vettvang, sem ég lagði til strax eftir hrun, henta vel til stjórnlagaumbóta.

Ástæðan er sú að ég tel að ýmsu megi – og þurfi jafnvel að – breyta í stjórnarskrá; en er þjóðkirkjan þar á meðal?

Um gildandi stjórnlög og umbótahugmyndir mínar fjalla ég daglega hér á Eyjunni. En hvað með þjóðkirkjuna?

Margt áhugafólk um lífsskoðun í framboði

Ég tek eftir því að allnokkrir guðfræðingar – bæði starfandi prestar og aðrir, svo sem háskólakennarar – eru meðal frambjóðenda til stjórnlagaþings – og er það vel; þeir eru fyrirfram líklegir til þess að vilja verja stöðu þjóðkirkjunnar í skjóli ríkisins. Einnig virðist mér að margir yfirlýstir trúleysingjar eða róttækir aðskilnaðarsinnar bjóði sig fram til stjórnlagaþings – og það er líka gott mál; væntanlega má spá því að þeir setji á oddinn að aðskilja (að fullu) ríki og þjóðkirkju.

Þetta er fyrsta ástæðan fyrir því að ég tek mér frekar hófsama stöðu í þessu máli – nánast hlutlausa – nóg er af fólki til þess að setja þetta mál sterkt á oddinn en ég hef aðrar megináherslur eins og lesa má daglega um í pistlum mínum.

Önnur ástæða – þessu tengd – er sú að ef nóg verður um róttækar skoðanir á ystu pólum er mikilvægt að hafa hófsemdarraddir til þess að sætta aðila inn á milli og ná lausn sem getur náð samþykki bæði stjórnlagaþings og þjóðarinnar sjálfrar – og svo afgreiðslu Alþingis.

Í þriðja lagi er ég sjálfur hófsamur þjóðkirkjumaður (þó að ég hafi gengið úr þjóðkirkjunni vegna afstöðu forystumanna hennar til biskupsmáls á sínum tíma); um leið er ég mikill fjölmenningarsinni og vil því helst fara bil beggja í þessu efni – eins og mörgum hefur tekist vel en öðrum verr af sögulegum ástæðum; þar held ég að við ættum að horfa til norrænna ríkja og Bandaríkja Norður-Ameríku en forðast öfgar í afhelgun (sekularisma) sem á sér sögulegar ástæður í stærri og ósamstæðari ríkjum, svo sem Frakklandi og Tyrklandi.

Meginástæður þess að ekki er þarft að fjalla um stöðu þjóðkirkjunnar á komandi stjórnlagaþingi eru þó hvorki stjórnmálalegar, lausnarmiðaðar né persónulegar. Ástæðurnar eru aðrar – af tvenns konar toga.

Þjóðkirkjan ekki meginefni stjórnlagaþings

Að mínu mati eru þetta aðalrökin fyrir því að þjóðkirkjan á ekki að vera meginefni stjórnlagaþings:

  1. Þjóðfélagslega er því ofaukið. Um þessar mundir höfum við Íslendingar um nóg að deila svo að við fjölgum ekki deiluefnum – sem vekja djúpan og harðan ágreining, eins og sjá má af nokkuð róttækum tillögum meirihluta mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar annars vegar og harkalegum viðbrögðum biskups Íslands hins vegar varðandi samband eða samstarf kirkjustarfs og skólastarfs. Um þessar mundir deilum við – óhjákvæmilega eða samkvæmt tillögum (þar sem ég er ekki saklaus af dagskrárgerð) t.d. um hrunið, orsakir þess og afleiðingar, sbr. t.d. Landsdómsmálið, Icesave, framhaldið eftir hrun og endurreisnina, stöðu forsetans, skuldavanda heimilanna, ESB, stjórnskipan landsins og vantrú á stjórnmálum, stjórnlagaþingið sjálft o.s.frv.
  2. Lögfræðilega er það óþarft, sbr. hér næst að neðan.

Ekki stjórnskipuleg þörf á umfjöllun á stjórnlagaþingi

Hins vegar virðist hafa farið fram hjá mörgum að engin þörf er á – samkvæmt stjórnarskránni – að fjalla um stöðu þjóðkirkjunnar nú á stjórnlagaþingi eða með stjórnarskrárbreytingu yfirleitt. Vissulega segir í stjórnarskránni að hin

evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Í næstu málsgrein í stjórnarskránni segir hins vegar að breyta megi „þessu“ (þ.e. að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda) með lögum.

Það er svo til marks um fremur lélega „lagatækni“ að á allt öðrum stað í stjórnarskránni, þ.e. í lok hennar, kemur fram að ef Alþingi samþykki „breytingu á kirkjuskipun ríkisins“ skuli þjóðin taka afstöðu til þeirrar breytingar í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál – en stjórnarskrárbreyting er, sem sagt, óþörf.

Finnum lausn – í betra tómi

Málið er því leyst; við tökum bara afstöðu til þjóðkirkjumálsins í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og vera ber, þegar vel stendur á. Það er ekki af því að ég er Framsóknarmaður og geti ekki tekið afstöðu enda ekki ákvarðanafælinn – bara vandvirkur, lausnarmiðaður og sáttfús.

Í málefnum sem varða trú er ég aðeins íhaldsmaður að því leyti að hefðbundin gildi mega halda sér og lifa þótt þau stangist á við nýmóðins hugmyndir ýmissa. Sem umburðarlyndur fjölmenningarsinni er ég jafn ákafur fylgismaður þess að múslimar í Austurbæjarskóla fái val um mat sem þeir geta neytt á skólatíma og að kristnir Íslendingar fái áfram notið þeirra mannréttinda að iðka trú sína og kenna börnum sínum góða siði í gíðu samstarfi við aðrar þjóðfélagsstofnanir.

Horfum til vesturs

Þarna ættum við Íslendingar – eins og við höfum stundum borið gæfu til, þótt Evrópubúar séum – að horfa til frjálslyndra feðra Bandaríkja Norður-Ameríku, sem hefur lengi tekist að aðlaga nýbúa af öllum gerðum samfélagi sínu (e. assimilation) – en þeir kjósa sér einmitt stóran hluta síns foringjahóps í kvöld – meira um það á morgun.

Svarið endilega – og málefnalega – í athugasemdum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur