Fyrirsögnin er auðvitað grín; stjórnarskrá virðist mér í fljótu bragði ekkert hafa með snjó að gera.
Stjórnarskráin er hins vegar ekkert grín – og leysir ekki hvers manns vanda. Stjórnarskrá fjallar fyrst og fremst um tvennt eins og ég hef áður bent á:
- Skipan og völd æðstu handhafa ríkisvalds (löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds), val á þeim og samskipti þeirra á milli annars vegar og
- Tengsl borgaranna og ríkisins, þ.e. mannréttindi borgaranna, hins vegar.
Valdajafnvægi stuðlar að velsæld
Stjórnarskrá getur þannig stuðlað að valdajafnvægi – eins og ég legg mesta áherslu á – eða ofurvaldi fárra, ef fólk vill það heldur.
Eins og frjálslyndir miðjumenn og jafnaðarmenn benda gjarnan á sýna rannsóknir að lýðræðisleg samfélög þar sem gott jafnvægi er auk þess á milli jöfnuðar og frelsis njóta yfirleitt meiri velsældar – og geta þar með stuðlað að betri lífskjörum í rúmum skilningi.
Stjórnarskráin ein sér getur hins vegar ekki í sjálfu sér tryggt velsæld samfélagsins – fremur en hæfilegan snjó.