Sunnudagur 14.11.2010 - 22:30 - FB ummæli ()

Hvenær ætlar RÚV að virða lögin?

Nú þegar aðeins tólf dagar eru til kosninga til stjórnlagaþings – hins fyrsta í sögunni (eða í 160 ár, ef Þjóðfundurinn 1851 er talinn með) – og 18 dagar eru liðnir frá því að nöfn 523 frambjóðenda voru kynnt hefur Ríkisútvarpið lítið fjallað um stjórnlagaþing, nokkuð um þjóðfundinn 6. nóvember sl. en ekkert um frambjóðendur og stefnumál þeirra.

Slíkt tómlæti af hálfu RÚV stenst hvorki lög né almenna skynsemi.

Lögskylt hlutverk RÚV

Um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins (RÚV) varðandi útvarpsþjónustu í almannaþágu segir í lögum að hlutverk RÚV sé rekstur hvers konar útvarpsþjónustu í almannaþágu, svo sem hljóðvarps og sjónvarps.

Þá kemur fram að útvarpsþjónusta í almannaþágu feli í sér eftirfarandi:

3. Að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Efnið skal fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni.

4. Að veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega og með þeim hætti tryggja hlutlæga upplýsingagjöf um íslenskt samfélag.

5. Að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Gæta skal fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.

7. Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.

DV  og Svipan fram úr RÚV

Eftir langa baráttu í kjölfar efnahagshruns tókst almenningi og umbótasinnuðum stjórnmálaöflum að ná fram umboði til þjóðkjörins stjórnlagaþings til þess að endurskoða stjórnarskrána í heild eða að hluta – en sá mikli fjöldi sem býður sig fram til þess að taka þátt í þessu verkefni virðist einungis mæta tómlæti hjá RÚV, útvarpi í almannaþágu! Einungis kosningavefur og væntanlegur bæklingur af hálfu stjórnvalda og lofsvert framtak vefmiðla DV og Svipunnar til að spyrja frambjóðendur og birta frá þeim svör og greinar fela í sér vettvang til kynningar auk bloggs og fasbókar.

Hefðbundnar auglýsingar, dreifibréf og annað sem kallar á veruleg fjárútlát virðast hvorki njóta hylli frambjóeðnda né kjósenda. Ekki stóð þó á tilboðum til frambjóðenda frá auglýsingadeildum fjölmiðanna!

Grundvallarmáli sinnt verr en dægurmálum

Hér er þó um grundvallarmál að ræða – miklu mikilvægara og, ef vel tekst til, varanlegra en þau dægurstjórnmál sem RÚV sýnir svo mikinn áhuga dags daglega.

Það að RÚV hafi enn ekki séð ástæðu til að kynna frambjóðendur skipulega og ítarlega eins og kostur er miðað við fjölda frambjóðenda er mér mikið undrunarefni. Enn bólar ekki einu sinni á tilkynningu frá RÚV um hvort, hvenær og hvernig verði staðið að slíkri kynningu og hefur það sömuleiðis vakið undrun umræður meðal fjölmargra frambjóðenda á póstlista sem einn þeirra sýndi frumkvæði til að setja á fót. Hver dagur sem líður í viðbót af þeim 12 sem eftir eru fram að kjördegi dregur úr möguleikum RÚV á að kynna framboðin eins og vera ber samkvæmt lögum.

Málefnaleg kynning frekar en millimetrajafnræði

Að vanda vil ég leggja fram hugmynd að lausn í stað þess að gagnrýna aðeins; erfitt er að ímynda sér „millimetrajafnræði“ í kynningu 523 framboða. Því mætti hugsa sér að RÚV fyndi 10-20 málefni út frá umfjöllun þjóðfundar, fjölmiðlaumræðu, kynningu á kosningavef stjórnvalda, greinum frambjóðenda og eftir mati fræðimanna sem telja mætti áhugaverð og efst á baugi – og kynnti svo hvaða frambjóðendur hefðu skoðun – af eða á, til eða frá – á hverju málefni.

Þannig kynning á frambjóðendum í tengslum við lykilmálefni er að mínu mati beinlínis málefnalegri en persónuleg kynning á nafni, númeri, andliti og bakgrunni frambjóðenda.

Áframhaldandi tómlæti RÚV stenst hins vegar hvorki lög né kröfur almennings.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur