Mánudagur 15.11.2010 - 22:49 - FB ummæli ()

Heita kartaflan

Um daginn nefndi ég heita kartöflu í tengslum við stjórnlagaþingið – raunar í þeim tilgangi að forgangsraða í þágu verkefna sem að mínu mati þyrfti að leysa á stjórnlagaþingi um leið og önnur mál, sem mættu fremur bíða, yrðu sett í lausnarmiðaðri farveg.

Þetta var þjóðkirkjumálið – sem hefur, sem sagt, sinn stjórnskipaða og lýðræðislega farveg. Aldrei hef ég fengið eins margar athugasemdir við pistil – en í sumum var reyndar litið fram hjá fimmföldum rökstuðningi mínum fyrir þessari málsmeðferð.

Á gráu svæði

Ég ætla ekki að forðast hina heitu kartöfluna – sem lýtur að því ákvæði sem vantar í stjórnarskrá okkar um málsmeðferð við framsal hluta ríkisvalds sem ég hef áður boðað umfjöllun um.

Raunar eru liðnir hátt í tveir áratugir síðan ég – sem ungur laganemi – vakti athygli á þessu í Morgunblaðsgreininni „Á gráu efnahagssvæði.“ Fyrirsögnin var sótt í ummæli eins helsta sérfræðingsins í fjórmenningahópi sem þáverandi utanríkisráðherra fékk til þess að rökstyðja að takmarkað framsal ríkisvalds vegna fyrirhugaðrar aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) stæðist stjórnarskrá; hafði hann viðurkennt í útvarpi að það væri á gráu svæði hvort framsalið stæðist. Í grein minni rökstuddi ég hins vegar að aðild Íslands að EES-samningnum að óbreytti stjórnarskrá stæðist ekki enda væri engin heimild í stjórnarskrá – þá frekar en nú – til þess framsals hluta ríkisvalds sem þá var gert ráð fyrir; sagan hefur sýnt að framsalið var alls ekki eins takmarkað og fylgjendur EES vildu vera láta. Hafa þeir sumir viðurkennt það síðar – bæði opinberlega og í mín eyru.

Fleira en Evrópumál

Því brýnni er þörfin nú að koma okkur upp ákvæði í stjórnarskrá sem heimilar sambærilegt framsal ríkisvalds, t.d. til stofnana Evrópusambandsins (ESB) – velji þjóðin þann kost að fengnum niðurstöðum aðildarviðræðna Íslands við ESB sem senn fara í hönd. Málið snýst þó ekki aðeins um ESB.

Tillaga um slíkt almennt heimildarákvæði í stjórnarskrá felur í sér skilyrði fyrir framsali hluta ríkisvalds til fleiri yfirþjóðlegra aðila – á borð við öryggisráð SÞ.

Aðeins um málsmeðferð

Ég árétta að – eins og í EES-málinu forðum, og þjóðkirkjumálinu nú – hér er ég aðeins að leggja til ákvæði um málsmeðferð sem að mínu mati þarf – og hefði fyrir löngu þurft – að vera í stjórnarskrá; þó að ég sé hlynntur ESB-aðild Íslands er ég m.ö.o. ekki að mæla fyrir því að stjórnlagaþing taki afstöðu til ESB-aðildar Íslands, hvorki til né frá, enda hefur það mál líka sinn farveg, sem löngu er hafinn.

Tillagan felur í sér

  • efnisskilyrði slíks framsals ríkisvalds,
  • takmörkun slíks framsals,
  • aukinn meirihluta til slíks samþykkis,
  • eftir atvikum atbeina þjóðarinnar og – síðast en ekki síst –
  • afturköllun slíks framsals.

Fyrirmyndir frá frændþjóðum

Slíku málsmeðferðarákvæði til stuðnings má m.a. nefna fyrirmyndir frá skyldustu nágrannaríkjum okkar hvað stjórnskipun og réttarfar varðar – en tillaga mín hér að neðan er fengin með því að nota það sem telja má best úr sambærilegum ákvæðum

Tillaga mín um ákvæði um skilyrt framsal hluta ríkisvalds

Tillaga mín, sem unnin var í tengslum við flokksþing Framsóknarflokksins í janúar í fyrra, felur í sér viðbót við eftirfarandi ákvæði stjórnarskrárinnar, sem ég hef áður skrifað um sem hið eina sem beinlínis varðar utanríkismál:

Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.

Tillagan er að við þetta bætist fjórar nýjar málsgreinar:

Heimilt er í því skyni að ná markmiðum um aukna samvinnu milli þjóða og sameiginlega réttarskipan með öðrum ríkjum eða til þess að tryggja alþjóðlegan frið og öryggi að framselja skilgreinda hluta valdheimilda, sem handhafar ríkisvalds fara með samkvæmt stjórnarskránni, í hendur yfirþjóðlegra stofnana sem Ísland á eða fær aðild að með samningi. Slíkt framsal getur þó ekki tekið til heimilda til þess að breyta stjórnarskrá þessari.
Framsal samkvæmt 1. mgr. skal ákveðið með lögum þannig að a.m.k. 3/4 þingmanna greiði slíku lagafrumvarpi atkvæði sitt. Náist slíkur aukinn meirihluti ekki en einfaldur meirihluti þingmanna greiðir slíkri tillögu þó atkvæði sitt má í kjölfarið bera tillöguna óbreytta undir bindandi þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar þar sem einfaldur meirihluti kjósenda ræður úrslitum.
Framsal slíkra valdheimilda er ávallt afturkræft eftir sömu reglum og greinir í 2. mgr.
Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við um þátttöku Íslands í alþjóðastofnunum sem taka ákvarðanir sem einungis hafa þjóðréttarlega þýðingu gagnvart Íslandi.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur