Þriðjudagur 16.11.2010 - 15:27 - FB ummæli ()

Skilmálarnir – Hugleiðing um stjórnarfar (gestapistill)

Öll samfélög byggja á reglum, ýmist helguðum af hefð, skráðum eða óskráðum.  Hjá þjóðum sem sett hafa sér stjórnarskrá er hún m.a. sá grunnur sem stjórnarfar þeirra er reistur á.

Stjórnarskrár innihalda ákvæði um hverjir skuli fara með það vald sem nauðsynlegt er til að tryggja eðlilegan viðgang þjóðfélagsins, hver umgjörð valdsins skuli vera og hvernig með það skuli farið.

Nauðsynlegt er að þessar grundvallarreglur séu það einfaldar og skýrar að allir skilji þær og geti gert sér ljóst ef út af ber með framkvæmd þeirra.

Eitt mikilvægasta verkefni væntanlegs stjórnlagaþings er að skýra betur ákvæði um skipan ríkisvaldsins.

Þar þarf að tryggja betur en nú er að ríkisstjórn sé þingbundin.  Reyndin hefur því miður verið hin að ríkistjórnir, leiddar af stjórnmálaflokkum, hafa náð ráðandi tökum á Alþingi.  Hið kjördæmakjörna Alþingi okkar Íslendinga hefur því ekki mátt sín sem skyldi fyrir ofríki sitjandi ríkisstjórna.

Forseti lýðveldisins, sem kjörinn er af þjóðinni, hefur heldur ekki verið í reynd sú stoð í valdakerfi okkar sem þurft hefði að vera og stjórnskipun okkar gerir ráð fyrir.

Þeirra, sem veljast á stjórnlagaþing, bíður því vandasamt verkefni sem felst að minni hyggju í að hefja til vegs og virðingar þann stjórnarfarsgrundvöll sem ritaður er stjórnarskrá okkar, að viðbættum ákvæðum til að styrkja stöðu minnihluta Alþingis og almennings gagnvart valdhöfum í landinu.

Stjórnarskrá okkar er skýr, hún er aðgengileg hér á netinu. Ég hvet alla til að lesa hana, íhuga texta hennar vel og, eins og segir í kvæðinu Skilmálar eftir Þorstein Erlingsson „lesa þar ekkert öfugt gegnum annarra gler“.

Ámundi Loftsson,

frambjóðandi til stjórnlagaþings nr. 4316.

http://amundiloftsson.blog.is/blog/amundiloftsson/

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur