Miðvikudagur 17.11.2010 - 23:57 - FB ummæli ()

Þarf að bæta jafnræðisákvæðið?

Spurningin – hvort einhverju, og þá hverju, þurfi að bæta við jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar er áleitin – og að gefnu tilefni.

Jafnræðisákvæðið hljóðar nú svo – en það ákvæði var nýmæli við löngu tímabæra heildarendurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar 1995; fram að því hafði hann staðið lítið breyttur í yfir 120 ár:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Spurningar, ábendingar og tillögur úr þremur áttum

Fyrir utan almennan áhuga á jafnræðisreglu í stjórnarskránni og yfirlýstan feminisma eru tilefni svara minna þríþætt:

  1. Ég var í gær spurður af Samtökunum ’78 um hvort kynhneigð ætti að bætast við upptalninguna auk fleiri spurninga um viðhorf mín til hinsegin fólks.
  2. Þá beindi Baldur Kristjánsson hvatningu til okkar frambjóðenda á Eyjubloggi sínu í dag og í Fréttablaðinu varðandi stjórnarskrárbann gegn kynþáttafordómum og kynþáttamisrétti.
  3. Loks nefndi annar frambjóðandi, Íris Lind Sæmundsdóttir, góða tillögu um viðbót varðandi fötlun í spjalli 4ra frambjóðenda við kjósendur á Café Haiti í kvöld.

Kynhneigð

Um hið fyrsta vil ég birta svör mín til Samtakanna ’78 frá í gær – um leið og ég árétta hamingjuóskir þeim til handa með þann árangur sem samtökin og hinsegin fólk hafa náð á undanförnum árum:

Við hjá Samtökunum ´78 viljum minna þig á þá löngu og ströngu mannréttindabaráttu sem Samtökin ´78 hafa staðið í fyrir réttindum hinsegin fólks á Íslandi. Ísland er leiðandi í réttindum hinsegin fólks í heiminum og ættu aðrar þjóðir að taka okkur til fyrirmyndar.

Árið 1995 var stjórnarskrá íslendinga breytt og í kaflanum þar sem talað er um hverjir eiga rétt á mannréttindum var hinsegin fólki sleppt. Talað er um í þessari grein að ekki megi mismuna fólki eftir kynþætti, trúarbrögðum og fleira en orðinu kynhneigð var vísvitandi sleppt. Það er okkur mikið áhyggjuefni að hinsegin fólk gleymist í þessari vinnu en það má ekki gerast.

Hinsegin fólk á Íslandi hefur náð langt í réttindabaráttu sinni gagnvart lögvaldinu en baráttan gegn fordómum mun aldrei líða undir lok. Fordómar eru hættulegt tæki sem margir vilja nýta sér til að grafa undan stoðum minnihlutahópa.

Í svari mínu við fyrstu spurningu Samtakanna ’78 um hver viðhorf mín væru til hinsegin fólks (homma, lesbía, tvíkynhneigðra og transgender-fólks) svaraði ég að hvað viðhorf til réttarstöðu hinsegin fólks varðaði hefði ég lengi talið rétt að ná bæri – og talað fyrir – fullu jafnrétti til handa hinsegin fólki, a.m.k. síðan ég stundaði laganám snemma á 10. áratug síðustu aldar.

Hef ég haldið því áfram eftir að ég hóf störf sem löglærður hagsmunagæslumaður í þágu hópa sem eiga við sterkari aðila að etja […].

Við annarri spurningu um hvað ég myndi gera ef sú hugmynd kæmi upp að bæta orðinu kynhneigð inn eða áfram útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni sagðist ég að vísu lengi hafa talið að óskráða jafnræðisreglu stjórnskipunarréttar (fyrir 1995) og jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar (eftir 1995) bæri að skýra þannig að hún bannaði m.a. mismunun á grundvelli kynhneigðar.

Hins vegar vil ég gjarnan árétta þann skilning með því að taka af skarið með orðalagsbreytingu í stjórnarskrá þannig að ekki sé unnt að deila um jafnrétti allra hópa – óháð kynhneigð. Hef ég sýnt það í störfum mínum að ég hef beitt mér gegn hvers konar ómálefnalegri mismunun. Hvað sem því líður hef ég – eftir 20 ára umfjöllun um stjórnarskrá og 15 ára réttindabaráttu í þágu stúdenta, launafólks og neytenda – lagt til samráðsákvæði í stjórnarskrá til að gæta jafnræðis gagnvart öllum hagsmunaaðilum – ekki bara fulltrúum hinna sterku (sjá nýlegan pistil minn á http://blog.eyjan.is/gislit/wp-admin/post.php?post=1397&action=edit). Ef til upp kæmi sú hugmynd á stjórnlagaþingi að „útiloka þennan hóp samfélagsins úr stjórnarskránni“ myndi ég beita mér gegn henni enda er ég aktvíur jafnréttissinni í hvívetna.

Til að svara því þriðja – hvort ég væri jákvæður í garð réttinda hinsegin fólks svaraði ég:

Já; mjög svo – og ekki bara jákvæður – heldur lengi aktívur á þeim sviðum sem ég hef starfað, sbr. svör mín við 1. og 2. tl., og daglegt stjórnarskrárblogg á Eyjunni (http://blog.eyjan.is/gislit/).

Kynþáttamismunun

Þá rökstuddi Baldur Kristjánsson hugmynd sína um viðbót í jafnræðisákvæðið ítarlega – og skrifaði m.a.:

Allir virðast sammála um það nú að 65. greinin þurfi að vera miklu ítarlegri og koma framar í stjórnarskrána, jafnvel fremst. Og ég bið ykkur ágætu verðandi stjórnlagaþingmenn að vera óhrædd við að nota orðin kynþáttafordómar og kynþáttamismunun (sem felur í sér uppruna, litarhátt og trú), ekki hræðast þau eða telja þau óþörf. ECRI vitnar til „general Policy Recommendation No. 7″ sem ég bið ykkur að kynna ykkur á vef Evrópuráðsins […].

Undir röksemdir Baldurs – sem er meiri sérfræðingur í þessu en ég, enda hefur hann árum saman fylgt þessum málstað eftir – vil ég einfaldlega taka; svar mitt er því:

Já; skýrari vernd þarf gegn kynþáttamismunun – og já; hún þarf að vera á stjórnskipulegu stigi, þ.e. í stjórnarskrá en ekki aðeins í lögum.

Sem lögfræðingur er ég ekki eins upptekinn af því hvar í stjórnarskránni þetta – fremur en önnur ákvæði – er sett; ég hef hins vegar heyrt marga ólöglærða, frambjóðendur sem annað áhugafólk, rökstyðja það ágætlega að mannréttindakafli og ný ákvæði um mannvirðingu og mannhelgi eigi – eins og þýsku stjórnarskránni – vel heima fremst í henni.

Fötlun

Loks vil ég taka undir þriðju hugmyndina, frá Írisi Lind Sæmundsdóttur, að í stjórnarskrárákvæði um jafnrétti verði bætt banni við ómálefnalegri mismunun á grundvelli:

fötlunar.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur