Á morgun, fimmtudag, verður í stjórnlagaráði umræða um verkefni okkar í valdþáttanefnd (B), sem fjallar um löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið – þ.m.t. hlutverk og stöðu forseta. Fyrir utan stutta skýrslu frá nefnd um dómsvaldið o.fl. (C) og afgreiðslu á breyttum tillögum nefndar um mannréttindi o.fl. (A) verður þetta aðalefni fundarins:
Tillögur um eflingu löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldi lagðar fram til kynningar
Hér má sjá og heyra stutt viðtal við mig um málið á YouTube. Um kl. 17 á morgun verða svo formaður nefndarinnar, Katrín Fjeldsted, og ég í viðtali um málið á rás 2 á RÚV.
Þingkjörnir eða þjóðkjörnir handhafar framkvæmdarvalds?
Að vísu höfum við enn ekki tekið ákvörðun um hvort leggja eigi til breytingar á því hvernig handhafar framkvæmdarvalds eru valdir – þ.e. hvort hér verði áfram þingræði eða komið skuli á forsetaræði.
- Þingræði felur í sér að ríkisstjórn þarf að njóta stuðnings eða hlutleysis þjóðþingsins og sé því í raun valin af Alþingi.
- Forsetaræði – eins og í Bandaríkjum Norður-Ameríku, Frakklandi og nú í Ísrael – merkir að forseti (í Ísrael forsætisráðherra) er kjörinn af þjóðinni og hann velur svo sína ráðherra án atbeina þjóðþingsins nema í tilteknum tilvikum.
Breytt og eflt þingræði
Eftir umræður í valdþáttanefnd (B) og ráðinu sýnist mér valið standa milli milds forsetaræðis og töluvert breytts þingræðis, þar sem staða þingsins – einkum sem löggjafa og eftirlitsaðila með handhöfn framkvæmdarvalds – verði styrkt töluvert; segja má að með síðarnefnda valinu væri komið á þingræði í rýmri merkingu – þ.e. að þjóðkjörið löggjafarþing væri aðalhandhafi ríkisvalds í umboði þjóðarinnar og jafnvel sá valdamesti með þeim takmörkunum sem stjórnarskráin tilgreinir.
Hallast ég að síðarnefndu leiðinni og spái því að sú verði niðurstaðan – um leið og ég styð eindregið að djúpar og ítarlegar umræður fari fram um báðar leiðir og aðra valkosti eftir atvikum – kosti þeirra og galla – fyrir opnum tjöldum í stjórnlagaráði; það verður þó ekki á morgun.
Á morgun ræðum við hvernig styrkja megi Alþingi – sem handhafa löggjafar- og eftirlitsvalds.
Fjórða valdið – síðar
Enn á eftir að ræða betur aðalstefnumið mitt í stjórnlagaráði sem er:
Flutningur hluta af fjárstjórnarvaldi Alþingis (skattlagningar- og fjárveitingarvaldi) til héraða landsins, þ.e.a.s. til sveitarfélaga, væntanlega stærri, færri og sterkari.
Meira um það síðar.
***