Eitt eigum við eftir að ræða í stjórnlagaráði; það er hvort og hvernig tekið verði á fjármálum stjórnmálaflokka í stjórnarskrá.
Þrjár ástæður – hið minnsta
Um það gildir hið sama og um kosningakerfi fyrir alþingiskosningar og þvíumlíkt að þingmenn og stjórnmálaflokkar eru ófærir til þess að sinna því brýna verkefni. Það má sjá af þrennu hið minnsta:
- Eðli málsins; málið varðar þessa aðila of miklu, sbr. vanhæfissjónarmið.
- Brýn tilefni; þ.m.t. þau sem komu fram um svipað leyti og hrunið varð og upplýstust betur eftir hrunið.
- Slælegan árangur; aðeins síðustu fimm ár hafa gilt væg lög um efnið – og það eftir áratugatilefni og áralanga baráttu umbótaafla.
Mér rennur blóðið til skyldunnar – einkum hvað hið síðarnefnda varðar – eins og ég mun væntanlega árétta betur síðar.
Þrjár leiðir – eða fleiri?
Því hef ég nefnt það óformlega við félaga mína í stjórnlagaráði að fjármál stjórnmálaflokka verðum við í ráðinu að ræða fyrr en síðar og meta hvort og hvernig unnt er að taka á þessu máli í stjórnarskránni sem svo megi útfæra nánar í lögum eftir atvikum.
Í fljótu bragði virðist mér að með þrennum hætti sé unnt að stjórnarskrárbinda takmörk um fjárframlög til stjórnmálaflokka – ef slíkt á að gera í stjórnarskrá eins og ég hallast, sem sagt, eindregið að:
- Aðeins hið opinbera (fyrst og fremst löggjafinn og e.t.v. sveitarstjórnir) megi – og eigi væntanlega að – styrkja stjórnmálahreyfingar.
- Sama og í 1. tl. – að viðbættum einstaklingum – sem nemur hóflegum (jafnvel tilteknum) fjárhæðum; lögaðilum verði því óheimilt að styrkja stjórnmálahreyfingar.
- Allt verði heimilt – svo fremi sem algert gagnsæi sé tryggt, t.d. að allir styrkir verði gefnir upp opinberlega nær samtímis – og örugglega nokkru fyrir kosningar – svo að kjósendur viti um styrkina áður en þeir ákveða (hvort og) hvernig þeir verja atkvæði sínu. Slíka leið hefur Jónas Kristjánsson talið hina réttu í nýlegri bloggfærslu.
Einnig um nýja flokka og hreyfingar um þjóðaratkvæðagreiðslur
Tel ég rétt að skoða hvort slíkar reglur eigi einnig að setja um stjórnmálahreyfingar sem eru nýjar – og því ekki enn með styrkja“kvóta“ vegna sitjandi þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa. Þá mætti velta fyrir sér hvort sambærilegar styrkjareglur eigi að setja í stjórnarskrá um málefnahreyfingar, t.d. já- og nei-hreyfingar í þjóðaratkvæðagreiðslum – sem væntanlega verða raunhæfari ef hugmyndir, sem til umræðu eru í stjórnlagaráði, ná fram að ganga.
Hvað finnst ykkur?