Laugardagur 20.08.2011 - 16:30 - FB ummæli ()

Félagafrelsi (20. gr.)

Í 20. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er félagafrelsi lítið breytt frá gildandi stjórnarskrá. Áfram er sérstaklega áréttuð tilvist hinna mikilvægu félaga – stjórnmálafélaga og stéttarfélaga – sem segja má að taki þátt í stjórn landsins og vinnumarkaðarins.

Að minni uppástungu er félagafrelsi nú aðgreint frá fundafrelsi, sem er í sama ákvæði í gildandi stjórnarskrá.

Tryggt er bæði svonefnt „jákvætt“ félagafrelsi – til þess að stofna félög og vera í þeim – og það sem kallað er „neikvætt“ félagafrelsi – rétturinn til þess að standa utan félaga.

Jákvætt félagafrelsi

Hinn jákvæði hluti félagafrelsisins virðist nú fortakslausari en áður – eftir að svohljóðandi ákvæði var fellt brott úr stjórnarskrá á eftir banni við því að leysa félag upp „með ráðstöfun stjórnvalds.“

Banna má þó um sinn starfsemi félags sem talið er hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

Þrátt fyrir brottfallið, sem ég var mótfallinn – m.a. með vísan til Hells Angels og annarra glæpasamtaka, sem ég teldi rétt að unnt væri að slíta með dómsmáli – kann að vera að gagnályktun frá 2. málslið 1. mgr. 20. gr. frumvarpsins um bann við upplausn félags af hálfu stjórnvalda leiði til þess að áfram megi slíta félagi með dómi eins og ég tel mikilvæga varúðarráðstöfun þó að henni hafi aldrei verið beitt hérlendis svo ég viti til.

Neikvætt félagafrelsi

Réttur til þess að standa utan félaga er óbreyttur; áfram verður heimilt að skylda menn til aðildar að félagi að þremur skilyrðum uppfylltum:

  1. Skylduaðild sé vegna réttinda annarra eða almannahagsmuna.
  2. Hlutverk félags sé ákveðið í lögum.
  3. Skylduaðild teljist nauðsynleg í þessu skyni.

M.ö.o. verða menn áfram skyldugir til þess að vera í húsfélögum og veiðifélögum – en ekki Rotary.

Ákvæðið hljóðar svo:

Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.

Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur