Sunnudagur 21.08.2011 - 21:21 - FB ummæli ()

Fundafrelsi (21. gr.)

Í 21. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er ákvæðið um fundafrelsi skilið frá félagafrelsisákvæðinu – eins og ég lagði til. Auk þess eru gerðar á því töluverðar orðalags- og líklega efnisbreytingar frá gildandi stjórnarskrá – sem ég var ekki að öllu leyti ánægður með enda e.t.v. sem lögfræðingur íhaldssamari að þessu leyti gagnvart breytingum á sígildum stjórnarskrárákvæðum en flestir í stjórnlagaráði.

Ákvæðið hljóðar svo:

Öllum skal tryggður réttur til að safnast saman án sérstaks leyfis, svo sem til fundahalda og mótmæla. Réttur þessi skal ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Helstu breytingar frá gildandi stjórnarskrá eru þessar:

  1. Tekinn er út fyrirvari um að menn eigi (aðeins) rétt á að safnast saman vopnlausir; fyrirvarinn hefur að vísu ekki mjög mikla lagalega merkingu – þar sem áfram er hægt að mæla fyrir um takmarkanir við fundafrelsi í lögum ef „nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.“ Í gidandi vopnalögum er þannig m.a. lagt bann við að bera skotvopn á almannafæri svo og vopnaburði almennt á almannafæri – nema bitvopn þar sem „eðlilegt og sjálfsagt getur talist, svo sem við vinnu eða veiðar eða í öðrum tilvikum þegar engin hætta er því samfara.“ Þetta er auðvitað engin frágangssök en það þýðir að lögreglan þarf að hafa sérstaka lagaheimild til þess að banna vopnaða mannfundi – sem ég hefði gjarnan viljað hafa sjálfkrafa í stjórnarskránni eins og hingað til. Þá var ég svolítið hrifinn af vopnleysisfyrirvaranum í ljósi hlutleysis okkar fyrstu þrjá áratugi Íslands sem fullvalda ríkis og vegna almennrar friðarstefnu okkar sem þjóðar þar sem aðild okkar að Norður-Atlantshafsbandalaginu, NATO, var frá upphafi og lengi eftir það mjög umdeild auk þess sem bandalagið er fyrst og fremst varnarbandalag. Loks hefði fyrirvarinn frá 1874 verið fín söguleg tenging og sýnt skörp skil milli okkar og stórþjóðarinnar í Bandaríkjum Norður-Ameríku þar sem réttur til vopnaburðar er þvert á móti stjórnarskrárvarinn.
  2. Þá er fellt brott ákvæði um heimild lögreglu til þess að vera við „almennar samkomur“ – sem að vísu gekk e.t.v. full langt í orði en hefur ekki verið vandamál á borði svo að ég viti; ég hefði viljað hafa slíka heimild áfram í stjórnarskrá – með smá þrengingu e.t.v. – þó að slík regla sé væntanlega undirskilin í almennu hlutverki lögreglu í réttar- og lýðræðisríki.
  3. Einnig er ekki lengur að finna sérstaka heimild til að banna mannfundi „ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir“ – sem var e.t.v. full rúmt ákvæði en ég hefði ekkert haft á móti að halda í að einhverju leyti.
  4. Ágætri áréttingu er bætt við – sem undirskilið er í gildandi stjórnarskrá – um að fundafrelsi er óháð sérstöku leyfi.
  5. Enn fremur er bætt við dæmum um að réttur til að „safnast saman“ – eins og það er orðað í stjórnarskránni og stjórnarskrárfrumvarpinu – tekur m.a. til eiginlegra „funda[r]halda“ og til mótmæla; það tel ég líka ágæta viðbót í dæmaskyni fyrir ein mikilvægustu lýðræðistilefnin til þess að fólk kemur saman.
  6. Loks leysir almennur fyrirvari, sem áður segir – um að löggjafinn geti takmarkað fundafrelsi með vísan til meðalhófsreglu – af hólmi hina sértæku fyrirvara, sem áður var getið.

Í fyrstu þremur tilvikunum var meirihluti stjórnlagaráðs frjálslyndari en ég og sætti ég mig vel við það og greiddi því ákvæði þessu – eins og öllum hinum 114 greinunum – atkvæði mitt við lokaatkvæðagreiðslu. Rétt er að hafa í huga að stjórnskipunarrétturinn er sveigjanlegra og að nokkru leyti „pólitískara“ fag en flestar aðrar lögfræðigreinar svo að aðstæður hafa áhrif á túlkun, athafnir og úrlausnir til þess bærra aðila.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur