Í 22. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir
Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.
Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, svo sem vegna atvinnuleysis, barneigna, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.
Skynsamlegar viðbætur
Í gildandi stjórnarskrá er sambærilegt ákvæði að finna og í síðari málsgreininni – en tveimur aðstæðum er bætt við dæmatalninguna, þ.e.:
- barneignum og
- fötlun.
Það tel ég hið besta mál. Annars er aðeins um orðalagsbreytingar í nútímaátt að ræða þar sem hugtakið „veikindi“ kemur í stað „sjúkleika“ og hugtakið „fátækt“ leysir „örbirgð“ af hólmi.
„Jákvæð“ mannréttindi
Í þessu felast svonefnd „jákvæð“ mannréttindi – réttur til einhvers af ríkinu – en ekki „neikvæður“ réttur til frelsis frá afskiptum af hálfu handhafa ríkisvalds eins og elstu mannréttindin fela í sér.
Um fyrri málsgreinina hafði ég meiri efasemdir enda spurning hverju hún bætir við síðari málsgreinina og álitamál hvernig ákvæði um að tryggja rétt til lífsviðurværis og félagslegs öryggis verður útfært; þær efasemdir eru þó ekki frágangssök enda er útfærslan lögð á fjölskipaðan og lýðræðislega valinn löggjafa, Alþingi, eins og í fleiri tilvikum.
Dómstólar fara varlega með endurskoðunarheimildir
Ólíklegt er að dómstólar án lýðræðislegs umboðs hnekki skynsamlegu mati löggjafarþingsins í þessu efni; í grófari tilvikum getur það þó gerst eins og árið 2000 í svonefndu öryrkjamáli. Styðst það einnig við norræna stjórnskipunarhefð þar sem dómstólar virða yfirleitt að útfærsla, sem kostar opinbert fé, sé að meginstefnu til í höndum handhafa fjárstjórnarvaldsins, sem hér eru Alþingi og sveitarstjórnir.