Í 24. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
Öllum þeim, sem skólaskylda nær til, skal standa til boða menntun án endurgjalds.
Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýninni hugsun og vitund um mannréttindi, lýðræðisleg réttindi og skyldur.
Alþingi útfærir áfram meginregluna
Fyrsta málsgrein 24. gr. er orðrétt sú sama og í gildandi stjórnarskrá um almennan fræðslurétt. Það ákvæði, með orðalagsbreytingu frá 1995, var látið duga fram til þessa og löggjafanum treyst til að útfæra það, svo og handhöfum fjárstjórnar- og framkvæmdarvalds – þ.e.a.s. um er að ræða svonefnda vísireglu. Í henni felst að Alþingi skilgreini í lögum hvaða menntun og fræðsla teljist almenn og Alþingi og sveitarstjórnum ber þá samkvæmt ákvæðinu að veita nægu fé til fræðslumála svo að skólar ríkis og sveitarfélaga geti sinnt því verkefni að veita slíka menntun og fræðslu „við […] hæfi.“
Nýtt bann við skólagjöldum
Auk þessarar vísireglu gildandi stjórnarskrár leggur stjórnlagaráð nú til viðbót í formi efnisreglu í 2. mgr. 24. gr. um að öllum, „sem skólaskylda nær til,“ skuli standa til boða menntun án endurgjalds; í þessu felst bann við [almennum] skólagjöldum í stjórnarskrá í tilviki grunnskóla – svo lengi sem hann er skylda. [Væntanlega er hins vegar rétt að túlka orðin „standa til boða“ þannig að ef hið opinbera býður upp ókeypis skólamenntun standi stjórnarskráin því ekki í vegi að einkaskólar taki skólagjöld.] Verði skólaskylda víkkuð út þannig að hún nái t.d. til leikskóla eða framhaldsskóla rýmkar sömuleiðis bannið við skólagjöldum. Væntanlega felst í „menntun án endurgjalds“ bann við efnisgjöldum, skráningargjöldum og hvað sem gjöld í tengslum við menntun eru nefnd; vísa ég þar til hliðsjónar til máls, sem ég vann hjá umboðsmanni Alþingis fyrir rúmlega hálfum öðrum áratug er ég kvartaði sem háskólanemi yfir því er stjórnvöld ákváðu skyndilega að taka upp eiginleg skólagjöld, þreföld á við fyrra skrásetningargjald, án lagabreytinga. Ekkert bannar hins vegar skólagjöld í frjálsu námi – t.d. háskólanámi – svo fremi sem virt sé meginreglan í 1. mgr. um að öllum sé í lögum tryggður réttur til almennrar menntunar og fræðslu.
Við mat á fjárhæð skólagjalda þarf e.t.v. að líta til jafnræðisreglu stjórnarskrárfrumvarpsins sem eins og gildandi stjórnarskrár vísar m.a. til jafnræðis án tillits til „efnahags […] og stöðu að öðru leyti.“
Á hinn bóginn felst væntanlega ekki í reglunni neitt bann við að foreldrar greiði fyrir skólamat eins og nú tíðkast.
Þessar viðbætur voru að mínu mati ekki mjög umdeildar í stjórnlagaráði og þeirri nefnd sem um þær fjallaði enda í samræmi við réttarvitund og hefð hér á Íslandi.
Efnisregla um inntak fræðslu
Heldur meiri umræða var í stjórnlagaráði um hvort og hvernig stjórnarskráin ætti að skilgreina inntak og markmið menntunar eins og gert er í 3. mgr. 24. gr., þ.e. að hún skuli miða að
alhliða þroska hvers og eins, gagnrýninni hugsun og vitund um mannréttindi, lýðræðisleg réttindi og skyldur.
Segja má að það komi ekki á óvart á þessum umbrotatímum að töluverð sátt varð um ofangreinda niðurstöðu. Ég er a.m.k. mjög ánægður með þetta og tel gott að þarna eins og í 5. gr. frumvarpsins sé rætt um skyldur – en ekki aðeins réttindi – borgaranna. Þá er gagnrýnin hugsun – sem aukin eftirspurn hlýtur að vera eftir nú – svo og lýðræðisleg vitund og mannréttindi hluti af þroska hvers borgara í réttarríki.
Aðalálitaefnið í mínum huga í þessu efni eins og fleiri atriðum var hvort það væri rétt að mæla fyrir um fræðslustefnu í meira eða minna mæli í stjórnarskrá – sem ekki er breytt í samræmi við dægurstrauma hverju sinni – eða hvort löggjafnum sé einum treystandi til þess. Um þessi markmið, sem eru nokkuð almenn og væntanlega fremur óumdeild, verður þó væntanlega víðtæk og löng sátt.