Miðvikudagur 21.09.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Þingforseti (52. gr.)

Eitt róttækasta nýmælið í tillögum stjórnlagaráðs um stjórnskipan landsins er að finna í 52. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs enda er þar kveðið á um myndugri forseta Alþingis sem njóta á trausts aukins meirihluta þings en ekki aðeins þröngs ríkisstjórnarmeirihluta hverju sinni:

Alþingi kýs sér forseta með 2/3 hlutum atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils. Sitji forseti ekki út kjörtímabil skal sami háttur hafður á við kosningu nýs forseta.

Forseti stýrir störfum Alþingis. Hann ber ábyrgð á rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess. Með forseta starfa varaforsetar sem eru staðgenglar hans og mynda ásamt honum forsætisnefnd. Um kosningu þeirra skal mælt fyrir í lögum.

Forseti Alþingis lætur af almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Varamaður hans tekur sæti á þingi á meðan hann gegnir embættinu.

Í gildandi stjórnarskrá er rætt um forseta Íslands eða forseta lýðveldisins nær 60 sinnum en aðeins minnst þrisvar á forseta Alþingis – þar af einu sinni sem einn 3ja handhafa forsetavalds. Þessu vill stjórnlagaráð breyta.

Forseti Alþingis verður í raun varaforseti Íslands samkvæmt tillögum okkar. Aðalhlutverk forseta Alþingis (sem í Danmörku heitir raunar formaður þjóðþingsins sem kannski er betri aðgreining á embættisheitum í lýðveldi) er þó ekki að vera staðgengill forseta Íslands.

Forseti yfir flokkadrætti hafin

Megin hlutverk forseta Alþingis verður samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs að vera aðalfulltrúi og sameiningarafl æðstu stofnunar ríkisins – Alþingis, sem fer með mikilvægustu völd landsins svo sem löggjafar-, fjárstjórnar- og eftirlitsvald auk þess að velja forsætisráðherra og þar með í raun ákveða ríkisstjórn landsins. Reynt er að undirstrika að Alþingi sé sjálfstætt – en lúti ekki stjórn forsætisráðherra eða ríkisstjórnar.

Í þessu skyni leggjum við í stjórnlagaráði til að forseti sé kjörin með 2/3 atkvæða og að hún missi atkvæðisrétt og fái á meðan inn varamann þannig að hún verði fremur yfir flokkadrætti hafin.

Hvað ef…?

Um framangreind markmið vorum við nokkuð sammála í stjórnlagaráði; umdeildara var hvort skynsamlegt væri að krefjast þess í stjórnarskrá að aukinn meirihluti (2/3) – þ.e. 42 þingfulltrúar – en ekki aðeins einfaldur meirihluti (32) eins og nú – ætti að styðja kjör þingforseta.

Við sem studdum þessa tillögu héldum því fram að ef Alþingi risi ekki undir þeirri ábyrgð að sammælast með svo breiðum stuðningi við þetta mikilvæga embætti yrðu þing og þjóð að sæta því að samkvæmt útbreiddri, langri og óumdeildri stjórnskipunarvenju og lögum sæti (starfs)aldursforseti sem forseti Alþingis þar til annar yrði kjörinn. Enginn skaði væri við það skeður.

Sem dæmi má nefna að Ómar Ragnarsson, aldursforseti stjórnlagaráðs, stýrði því af myndugleika þar til við í ráðinu höfðum sammælst um málsmeðferðarreglur og kjör okkar ágæta formanns stjórnlagaráðs, Salvarar Nordal. Á einstökum fundum í  óformlegum hópum ráðsins – t.d. áður en ráðið tók formlega til starfa – var stuðst við sömu hefðarreglu.

Þess má geta að Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi forsætisráðherra, hefur frá 2009 verið bæði aldurs- og starfsaldursforseti Alþingis.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur