Í 53. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Þingsköp Alþingis skulu sett með lögum.
Í gildandi stjórnarskrá er samhljóða ákvæði að finna.
Fræðilegt – en lítt praktístkt – álitaefni
Um þetta er lítið að segja – annað en að ég hafði þá fræðilegu afstöðu, sem naut ekki fylgis í valdþáttanefnd stjórnlagaráðs, þar sem ég sat, að þingsköp Alþingis ætti ekki að setja með lögum heldur með ákvörðun eða ályktun þingsins eins og í Danmörku þar sem Folketingests forretningsorden er sett með þeim hætti – en ekki með lögum.
Sú fræðilega afstaða byggir á kenningum um aðgreiningu valdþátta ríkisvaldsins.
Á að vernda minnihluta þings í stjórnarskrá?
Á hinn bóginn er í skýringum með ákvæðinu að finna áhugaverðar vangaveltur um hvort þingskaparlög eigi að njóta æðri stöðu – svipað og stjórnskipunarlög, m.a. í því skyni að meirihlutinn beiti minnihlutann ekki ofríki. Því er til að svara að í stjórnlagaráði var leitast við að hindra slíkt með sérstökum ákvæðum til verndar minnihluta og lýðræði í stað þess að eftirláta löggjafanum algert sjálfdæmi.
- Hér má lesa ítarlegri skýringar skrifstofu stjórnlagaráðs með stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs (sjá um þetta ákvæði á bls. 119-120).
- Ensk þýðing Stjórnarskrárfélagsins á stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs; here is an English version of the Constitutional Bill.