Í 80. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:
Forseti Íslands undirritar eiðstaf að stjórnarskránni þegar hann tekur við störfum.
Eiðstafur í stað eiðs eða drengskaparheits
Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að forsetinn vinni „eið eða drengskaparheit“ að stjórnarskránni, er hann tekur við störfum. Helst er um þetta ákvæði að segja að umræður sköpuðust um hvort eiður vísaði til guðstrúar – sem ekki er víst að allir kjörnir fulltrúar aðhyllist; það vafðist a.m.k. nokkuð fyrir mér hvort eiður eða eiðstafur væri nægilegt þannig að fella mætti valkostinn „drengskaparheit“ brott enda vísar eiður í réttarfarslögum til guðstrúar. Þessu er svarað svo i skýringum með ákvæðinu:
Hér er talað um að forseti undirriti eiðstaf sem er í samræmi við það sem tíðkast hefur í raun og í samræmi við eið ráðherra og þingmanna samkvæmt frumvarpi þessu. Skýring Íslenskrar orðabókar á orðinu eiður er svohljóðandi: „hátíðleg yfirlýsing sem maður gefur og vísar um leið til e-s sem honum er dýrmætt, t.d. guðs síns eða drengskapar síns, svardagi“. Um nánari skýringar vísast til athugasemda við 47. gr.
Formsatriði um vörslu eiga ekki heima í stjórnarskrá
Svo kemur fram í stjórnarskránni að af „eiðstaf þessum eða heiti“ skuli gera tvö samhljóða frumrit og geymi Alþingi annað en Þjóðskjalasafnið hitt. Um það segir í skýringum með 80. gr.:
Ekki þykir ástæða til að tiltaka í stjórnarskrá hvernig afrit af eiðstaf forseta skuli varðveitt enda er ekki mælt fyrir um varðveislu eiða þingmanna eða ráðherra. Því er talið rétt að fella tvo síðustu málsliðina niður. Ætla verður stjórnvöldum að fara að lögum og sjá til þess að varðveisla slíkra skjala sé tryggð.
Ljóst er að ekkert í þessu ákvæði breytir hlutverki, völdum eða áhrifavaldi forseta Íslands.