Fimmtudagur 20.10.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Starfskjör (forseta) (81. gr.)

Í 81. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Forseta Íslands er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á meðan hann gegnir embætti. Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja og opinberra stofnana þótt ólaunuð séu. Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta. Óheimilt er að lækka greiðslur þessar til forseta á meðan kjörtímabil hans stendur.

Forseti má starfa fyrir Rotary en ekki fyrir fyrirtæki

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að forseti lýðveldisins megi ekki vera alþingismaður né hafa með höndum launuð störf í þágu opinberra stofnana eða einkafyrirtækja. Breytingar á því, sem skáletrað er, fela f.o.f. í sér breytta framsetningu eins og rakið er í skýringum. Þar segir einnig:

Í 2. málsl. er kveðið á um að forseti skuli heldur ekki gegna ólaunuðum störfum í þágu einka­fyrirtækja eða opinberra stofnana enda þætti það ekki samrýmast vel þjóðhöfðingjahlutverki. Hins vegar girðir þessi regla ekki fyrir að forseti hafi með höndum ólaunuð störf í þágu félagasamtaka sem stuðla að almannaheill.

Þó má segja að árétting á því að forseti megi „heldur ekki gegna ólaunuðum störfum í þágu einka­fyrirtækja eða opinberra stofnana“ feli í sér formlega breytingu; þó að það sé fremur óraunhæft að forseti Íslands gegni formlega ólaunuðum „störfum“ í þágu einkafyrirtækja eða opinberra stofnana má segja að þessa breytingu beri að taka með í reikninginn sem nemur -1 á skalanum -5-+5 ef meta á breytingar á valdi, hlutverki eða áhrifavaldi forseta eins og í öðrum tilvikum.

Þingforseti fái ekki sérstök laun sem „varaforseti“

Þá segir í stjórnarskránni að ákveða skuli með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Skáletraða niðurlagið er fellt brott; er það efnisbreyting þess efnis að forseti Alþingis, sem samkvæmt 82. gr. frumvarpsins fer framvegis með hlutverk eins konar varaforseta eða handhafa forsetavalds í forföllum forseta Íslands, gegni því sem hluta af embættisskyldum þingforseta. Kemur hann því einn í stað 3ja handhafa forsetavalds nú – sem þiggja sérstök laun fyrir þau staðgengilsstörf.

Áfram útilokað að lækka laun forseta Íslands á kjörtímabilinu

Loks segir í stjórnarskránni:

Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.

Síðastnefnd regla er óbreytt efnislega og er mjög mikilvæg í því skyni að löggjafinn geti ekki – og hvað þá stjórnvöld, eins og ég hef áður bent á – lækkað laun forseta meðan á kjörtímabili hans stendur. Er því lagt fortakslaust bann við lækkun launa hans – óháð tilgangi og aðstæðum, eins og sýndi sig fyrir hátt í þremur árum þegar kjararáð neitaði að lækka laun forseta með vísan til þessa stjórnarskárákvæðis; í kjölfarið afsalaði forseti Íslands sér hluta af launum sínum.

Sambærilegar reglur eru til í lögum af sviði vinnumarkaðsréttar til þess að vernda trúnaðarmenn stéttarfélaga gegn ofríki atvinnurekenda, t.d. með launalækkun.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur