Þriðjudagur 08.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Lögsaga dómstóla (100. gr.)

Í 101. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og sök um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við henni.

Dómstólar skera úr um hvort lög samrýmist stjórnarskrá.

Dómstólar skera úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum. Hjá ákvörðun stjórnvalds verður ekki komist í bráð með því að bera lögmæti hennar undir dóm.

Ákvæði 3. mgr. efnislega óbreytt

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta að dómendur skeri

úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þó getur enginn, sem um þau leitar úrskurðar, komið sér hjá að hlýða yfirvaldsboði í bráð með því að skjóta málinu til dóms.

Tilvitnað stjórnarskrárákvæði er sama efnis og 3. mgr. 100. gr. frumvarpsins; orðalag er aðeins fært nær nútímamáli.

Hvað fyrri málsliðinn varðar er sammæli um það í stjórnskipunarrétti (þeirri fræðigrein sem fjallar um stjórnarskrána) og réttarfari (þeirri grein lögfræðinnar sem snýr að málsmeðferð fyrir dómstólum) að ákvæðið feli í sér að dómstólar skeri úr um lögmæti allra athafna stjórnvalda sem undir þá eru réttilega bornar af aðila sem hefur aðild máls, sem kallað er; oftast byggist aðild á því að aðili hafi svokallaða lögvarða hagsmuni (meira en hver annar borgari) en undantekningar eru gerðar frá því þegar hver á sök sem vill (l. actio popularis), t.d. í kosningakærumálum. Takmarkanir hafa þó lengi verið taldar vera á því að bera undir dómstóla svokallað frjálst mat stjórnvalda en þær takmarkanir hafa minnkað í framkvæmd alla 20. öldina.

Varðandi síðari málsliðinn, sem var nokkuð ræddur í stjórnlagaráði, má vísa til eftirfarandi ummæla í skýringum með ákvæðinu:

Stjórnlagaráð tók til sérstakrar skoðunar síðari málslið ákvæðisins um gildistöku stjórnvalds­ ákvarðana. Rætt var í ráðinu um hvort ákvæðið gæfi stjórnvöldum of víðtækar heimildir í tengslum við töku stjórnvaldsákvarðana sem væru íþyngjandi fyrir borgara. Var þá einkum til skoðunar hvort sérstaklega ætti að taka fram að gildistöku íþyngjandi ákvörðunar skyldi frestað kæmi til þess að borgari höfðaði mál til endurskoðunar eða ógildingar hennar. Að vel athuguðu máli er ákveðið að halda óbreyttu orðalagi, einkum með hliðsjón af þeirri megin­reglu sem talin er gildandi innan stjórnsýsluréttarins hvað varðar frestun gildistöku íþyngj­ andi stjórnvaldsákvarðana, sbr. m.a. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3299/2001.

Formleg – en ekki efnisleg – nýmæli um stjórnskipulegt hlutverk dómstóla

Í 1. og 2. mgr. 100. gr. er aðeins fólgið það formlega nýmæli að taka upp óumdeildar reglur í stjórnarskrá:

1. Annars vegar er það sú regla að dómstólar – en ekki stjórnvöld t.a.m. – skeri „endanlega“ úr um

  • einkaréttarleg ágreiningsefni og
  • sekt eða sakleysi og viðurlög við refsiverði háttsemi.

Þessi regla felst öðrum þræði í stjórnarskránni – en einkum fjölda dóma og óumdeildra fræðikenninga; í orðinu „endanlega“ felst að ekki hefur verið amast við því ef stjórnvöldum er í hófi og með takmörkunum falið úrskurðarvald í tilteknum stjórnsýslumálum enda sé ávallt unnt að bera úrskurðinn undir dómstól, eftir atvikum að uppfylltum skilyrðum – svo sem um að mál sé borið undir dómstóla innan tiltekins frests.

Þessi regla er víða við lýði.

2. Hins vegar er það sú merkilega regla – sem hér gildir, svipað og í Bandaríkjum Norður-Ameríku og Noregi en ólíkt mörgum öðrum ríkjum – að dómstólar skera með bindandi hætti úr um stjórnskipulegt gildi laga, þ.e.

hvort lög samrýmist stjórnarskrá.

Þó að reglan sé óumdeild hérlendis er hún ekki sjálfsögð; hún er talin stjórnarskrárvarin samkvæmt stjórnskipunarvenju í íslenskum rétti en myndaðist þó einungis með dómvenju sem stundum er rakin til dóms meirihluta Hæstaréttar frá 1943 í svonefndu Hrafnkötlu-máli þar sem meirihlutinn (2:1) taldi lög brjóta í bága við prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar þar sem lögin fyrirskipuðu leyfi til útgáfu fornrita og að það teldist „fyrirfarandi“ tálmun á prentfrelsi. Voru lögin því að engu hafandi að því leyti og hinir ákærðu, annar þeirra, Halldór Kiljan Laxness, sýknaðir. Um dóminn má m.a. lesa hér í samtímaheimild: Þjóðviljanum.

Síðan hafa tugir dóma – einkum Hæstaréttar – fallið um að lög fari í bága við stjórnarskrá; í slíkum tilvikum er lögunum ekki beitt.

Fallið frá að rýmka hlutverk Hæstaréttar í stjórnlagamálum

Rétt er að greina frá því hér að á síðustu stundu var fallið frá því í stjórnlagaráði að fela Hæstarétti víðtækara hlutverk í þessu efni en nú er við lýði, þ.e. að Hæstarétti yrði með stjórnarskrá falið hlutverk eiginlegs stjórnlagadómstóls; það felur í sér að hann gæti með e.k. forúrskurðum einnig leyst úr ágreiningi um tiltekin ágreiningsefni sem tilteknir, fáir, aðilar bæru undir hann.

Tillagan var frá mér og var samþykkt í upphafi en tekin út af ástæðum sem ekki verða raktar frekar hér að sinni.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur