Miðvikudagur 09.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Hæstiréttur Íslands (101. gr.)

Í 101. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs segir:

Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla.

Þó má ákveða með lögum að sérstakur dómstóll leysi endanlega úr ágreiningi um kjarasamninga og lögmæti vinnustöðvana, þó þannig að ákvörðunum hans um refsingu verði skotið til annarra dómstóla.

Í gildandi stjórnarskrá er hvorki kveðið á um hlutverk Hæstaréttar (1. mgr.) – nema að því leyti að heiti hans er nokkuð lýsandi – né Félagsdóms (2. mgr.); raunar er hvergi minnst á þessa dómstóla í stjórnarskránni nema óbeinlínis þar sem forseti Hæstaréttar er nefndur einu sinni og hæstaréttardómarar eru nefndir tvívegis í stjórnarskránni.

Í skýringum segir um ákvæði 101. gr.:

Ákvæði 1. mgr. er nýtt og lýsir því með skýrum hætti í frumvarpinu að Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins, sem hann er og hefur verið. Með því er tryggt að ekki sé hægt að stofna til nýrra sérdómstóla, annarra en þeirra sem stjórnarskrá heimilar sérstaklega.

Ákvæði 2. mgr. gerir ráð fyrir því að heimilt sé að viðhalda Félagsdómi í óbreyttri mynd og að ekki verði unnt að auka við verksvið hans frá því sem nú gildir. Félagsdómur er því eini sérdómstóllinn sem sérstaklega er heimilaður. Tillögur ráðsins gera ekki ráð fyrir landsdómi né öðrum sérdómstólum.

Með þessu ákvæði er því

  • annars vegar bætt inn stjórnskipulegri heimild (en ekki skyldu) til þess að viðhalda sérdómstóli í vinnumarkaðsmálum, Félagsdómi; og
  • hins vegar lagt bann við öðrum sérdómstólum – bæði nýjum og þeim sem fyrir er, þ.e. Landsdómi; samkvæmt 95. gr. dæma almennir dómstólar framvegis um ráðherraábyrgð og þá endanlega Hæstiréttur enda verður að telja að sérdómstóllinn Landsdómur mæti víða tortryggni í þjóðfélaginu. Að þessu er áður vikið í pistli um ráðherraábyrgð; þar segir m.a.:

Mál um ráðherraábyrgð er dæmt í Hæstarétti á endanum í stað þess að Landsdómur dæmi málið á einu stigi; löggjafinn hefur hins vegar í hendi sér hvort

  • slíkt mál sé rekið á einu dómstigi eins og nú – en þá fyrir Hæstarétti,
  • eða hvort það skuli rekið á fleiri dómstigum og þá hvort það skuli vera fyrir héraðsdómi og svo eftir atvikum á millidómstigi sem kann að verða komið á eða fyrir sérdómstóli um ráðherraábyrgð á fyrsta stigi.

Rök fyrir þessum nokkuð róttæku réttarbótum er að finna í skýringum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur