Föstudagur 11.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Sjálfstæði dómara (103. gr.)

Miðað við fyrirsögnina mætti halda að um tvítekningu væri að ræða hjá okkur í stjórnlagaráði enda var nýverið fjallað um „sjálfstæði dómstóla“ hér. Svo er þó ekki því að í 99. gr. var fjallað um ytra sjálfstæði dómstóla og þar raunar í orði frekar en á borði sem tryggt er í ýmsum öðrum ákvæðum. Í 103. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er hins vegar tryggt það sem nefna mætti innra sjálfstæði dómara sem handhafa dómsvaldsins; þar segir:

Dómarar skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.

Í gildandi stjórnarskrá segir um þetta:

Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum.

„Rule of law“

Í skýringum segir um þá litlu orðalagsbreytingu sem við leggjum til á grundvallarreglu réttarríkisins (e. rule of law):

Greinin á rót sína að rekja til 1. mgr. 61. gr. núgildandi stjórnarskrár en orðalaginu er þó breytt í takt við að ekki er lengur notast við orðið dómendur annars staðar í frumvarpinu. Hugtakið dómarar túlkast rúmt og nær til allra þeirra sem lögum samkvæmt hefur verið falið dóms­ vald, hvort sem um skipaða dómendur er að ræða, sérfróða meðdómsmenn eða aðra starfs­menn dómstóla sem kunna að fara með dómsvald. Í greininni birtist ein helsta undirstaða réttarríkisins sem vísar til þess að dómarar eiga eingöngu að lúta lögum og viðurkenndum réttarheimildum þegar þeir leysa úr málum en ekki öðrum sjónarmiðum, svo sem utanað­ komandi þrýstingi eða eigin geðþótta.

Við þetta má bæta að með hugtakinu „lögu(nu)m“ í tilvitnuðum ákvæðum er átt við fleira en svonefnd sett lög frá Alþingi; undir hugtakið falla einnig aðrar settar réttarreglur, svo sem reglugerðir með stoð í lögunum og vitaskuld stjórnlögin sjálf: stjórnarskráin. Þá falla undir þessa rýmri merkingu lagahugtaksins aðrar réttarheimildir á borð við

  • fordæmi,
  • lögjöfnun,
  • gagnályktun,
  • réttarvenja og
  • eðli máls.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur