Laugardagur 12.11.2011 - 23:59 - FB ummæli ()

Ákæruvald og ríkissaksóknari (104. gr.)

Í 104. gr. stjórnarskrárfrumvarps stjórnlagaráðs er mikilvægt nýmæli að finna:

Skipan ákæruvaldsins skal ákveðin með lögum.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvaldsins. Hann skal í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum.

Ráðherra skipar ríkissaksóknara og veitir honum lausn. Ríkissaksóknari er sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar.

Í gildandi stjórnarskrá er ekkert kveðið á um handhafa hins almenna ákæruvalds; þar er aðeins vikið að

Sjálfstæði og vernd æðsta handhafa ákæruvalds svipuð og handhafa dómsvalds

Rökin fyrir breytingunni er þessi í skýringum – en þess má geta að í ár eru einmitt 50 ár liðin frá stofnun embættis ríkissaksóknara í því skyni að færa ákæruvald almennt úr höndum flokkspólitískra ráðherra í hendur hlutlausra embættismanna:

Lagt er til að nýtt ákvæði komi inn í stjórnarskrá um skipan ákæruvalds og jafnframt að sjálf­stæði og vernd ríkissaksóknara, sem æðsta handhafa ákæruvaldsins, verði tryggð með sama hætti og á við um dómara. Það samræmist nútímaviðhorfum í réttarríki að ríkissaksóknari njóti verndar í starfi sem æðsti handhafi ákæruvalds og sé eingöngu háður lögum við meðferð þess valds. Ákvæðið er efnislega fengið úr tillögum stjórnlaganefndar.

Vegna réttmætrar samlíkingar ríkissaksóknara við dómara skal áréttað að stjórnlagaráð leggur til að „lögkjör“ ríkissaksóknara breytist með því að sérréttindi hæstaréttardómara til fullra launa til æviloka verði afnumin.

Ákæruvald ráðherra alveg úr sögunni

Sem endranær íhugaði stjórnlagaráð og nefndir þess í þessu tilviki hvort og þá hvaða lögum þyrfti nauðsynlega að breyta í kjölfar þess að frumvarp stjórnlagaráðs yrði samþykkt sem stjórnarskrá. Að því er sérstaklega vikið í skýringum með þessu ákvæði:

Með því að ríkissaksóknari verður skv. frumvarpi þessu stjórnarskrárvarinn sem æðsti hand­ hafi ákæruvalds er ljóst að breyta þarf ákvæðum hegningarlaga þar sem kveðið er á um að ekki skuli höfða sakamál fyrir tiltekin brot nema ráðherra mæli fyrir um það. Hér er nánar tiltekið um að ræða 97. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (alm. hgl.) um saksókn vegna brota gegn X. kafla alm. hgl. um landráð, svo og 105. gr. alm. hgl. um árásir gegn forseta eða persónu hans og friðhelgi.

Í báðum þessum ákvæðum almennra hegningarlaga segir orðrétt:

Mál út af brotum, sem í [tilgreindum ákvæðum] getur, skal því aðeins höfða, að ráðherra hafi lagt svo fyrir, og sæta þau öll meðferð sakamála.

Með þessu yrði öll handhöfn ákæruvalds úr höndum ráðherra – jafnvel um þessi brot sem varða svo mjög fullveldi og sjálfstæði landsins. Eina pólitíska ákæruvaldið yrði þá vegna ráðherraábyrgðar.

Lagaáskilnaður (1. mgr.)

Um 1. mgr. 104. gr. frumvarpsins um að skipan ákæruvalds skuli „ákveðin með lögum“ má finna samlíkingu í 71. gr. frumvarpsins þar sem segir m.a. að skattamálum skuli „skipað með lögum.“ Í báðum tilvikum er um að ræða sérstaklega mikilsverð mál þar sem grunnreglan um réttarríkið (e. rule of law) er bæði mikilvægari en endranær og einnig sögulega séð meiri hætta á pólitískum afskiptum í einstökum málum. Sem glænýtt dæmi um hvort tveggja má nefna að háttsettir embættismenn skattamála í Danmörku liggja nú undir grun um óheimil afskipti af skattamáli þáverandi forsætisráðherraefni jafnaðarmanna og núverandi forsætisráðherra Dana, Helle Thorning-Schmidt, í aðdraganda þingkosninga þarlendis nú í haust.

Handhöfn ákæruvalds (2. mgr.) og sjálfstæði ríkissaksóknara (3. mgr.)

Ákvæði 2. mgr. 104. gr. frumvarpsins um að ríkissaksóknari skuli „í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum“ og sé „sjálfstæður í störfum sínum og nýtur sömu verndar í starfi og dómarar“ er mikilvæg í ljósi sögunnar og grunnreglna réttarríksins; vísast um það til fyrri pistla um sjálfstæði dómstóla og “ sjálfstæði dómara. Sem sögulegt íslenskt dæmi má nefna að þáverandi dómsmálaráðherra Framsóknarflokksins, Jónas Jónsson frá Hriflu, ákærði andstæðing sinn í stjórnmálum, Magnús Guðmundsson, þingmann sjálfstæðisflokksins, fyrir tiltekið hegningarlagabrot. Dæmdi verðandi forsætisráðherra Framsóknarflokksins, Hermann Jónasson, Magnús í fangelsi fyrir réttum 79 árum – en þá var Magnús orðinn dómsmálaráðherra! Sagði hann af sér embætti þar til Hæstiréttur sýknaði hann nokkru síðar og tók þá aftur við embætti. Hvað sem réttmæti þessara dóma líður er augljóst að persónur þessar og leikendur eru óheppilegir aðilar að handhöfn ákæruvalds og dómsvalds.

Skipun ríkissaksóknara (3. mgr.)

Varðandi skipun ríkissaksóknara skal áréttað að þó að í 3. mgr. 104. gr. frumvarpsins segi að ráðherra skipi ríkissaksóknara og veiti honum lausn gildir um undirbúning þeirrar skipunar – eins og í tilviki dómara – sérstök regla í 96. gr. frumvarpsins:

Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skal skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 hlutum atkvæða til að hún taki gildi.

Að þessu er nánar vikið í skýringum þar sem m.a. segir, um röksemdir fyrir þessu fyrirkomulagi:

Ráðherra situr í skjóli meirihluta á þingi og því er ekki nægilegt að einfaldur meirihluti veiti samþykki sitt til að tryggja að sátt sé um að víkja frá meginreglunni. Því er lagt til að aukinn meirihluta, þ.e. 2⁄3 alþingismanna, þurfi til að samþykkja skipun ríkissaksóknara með afbrigðum.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , , , , , , , , , , , , ,

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Gísli Tryggvason
Sat í stjórnlagaráði 2011 og er í framkvæmdaráði umbótaflokksins Dögunar, stjórnmálasamtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði. Löglærður (hdl.) og með meistaragráðu (MBA) í mannauðsstjórnun. Hef sótt og varið hagsmuni og réttindi neytenda og launafólks í 15 ár.

GSM 897 33 14; gt@vestnord.is
RSS straumur: RSS straumur