Mánudagur 21.3.2016 - 14:33 - FB ummæli ()

Óvinur nr. 1

Ríkisútvarpið hefur staðið fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og þar hafa allar reglur um hlutlægni látið undan. Hér eru nokkur dæmi:

Í Kastljósi lék lausum hala Jón Ólafsson, sem stjórnaði innra umbótastarfi Samfylkingarinnar eftir hrun og hefur verið óspar á neikvæðu lýsingarorðin um Sigmund Davíð síðan sá síðarnefndi tók af honum formennsku í siðanefnd stjórnarráðsins, bitlingnum sem hann fékk í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Í morgunútvarpið á föstudaginn voru kallaðir til að ræða mál forsætisráðherra þeir Jóhann Hauksson fyrrum upplýsingafulltrúi Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamaður á Stundinni, sem hefur skrifað ótal greinar um Sigmund og Framsókn, þar sem hatri og fyrirlitningu á flokknum hefur verið sáð. Það er ekki að ástæðulausu að jafnvel Egill Helgason segir opinberlega að Stundin sé fjölmiðill sem hati Framsóknarflokkinn. Þannig fólki þykir RÚV ástæða til að veita lausan tauminn í útvarpi allra landsmanna. Jóhann Hauksson var ekki einu sinni kynntur sem blaðamaður í upphafi þessa viðtals, hvað þá sem fyrrum spunameistari Jóhönnu Sigurðardottur og augljós pólitískur andstæðingur forsætisráðherra um árabil. Það hefði verið jafn hlutlaust að fá Hannes Hólmstein til að tala um fjölsklydumálefni Árna Páls eða Steingríms Joð í útvarpi.

Til að svara spurningum fréttamanns í kvöldfréttum sama dag um hvort Sigmundur hafi farið eftir siðareglum velur RÚV að kalla til prófessor Vilhjálm Árnason, sem á sínum tíma kallaði afstöðu Sigmundar Davíðs um að segja nei við Icesave samningum „siðferðilega óverjandi“.

Nú á mánudagsmorgni tók svo steininn úr þar sem enn á ný voru boðnir til að tjá sig tveir yfirlýstir andstæðingar Sigmundar Davíðs, þeir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar og Indriði H. Þorláksson hægri hönd Svavars Gestsonar í Iceasave samninganefndinni. Það þarf ekki lengi að lesa skrif og ræður Róberts til að átta sig á því að hann fyrirlítur Framsóknarflokkinn – „Til hvers er Framsóknarflokkurinn?“ spyr hann í blaðagrein árið 2007 – „Hann er vítið sem öllum ber að varast.“ er svarið.

RÚV virðist líka alveg hafa gleymt því að Indriði H. Þorláksson á sér sögu í pólitískri andstöðu við Sigmund Davíð, að hann samdi um og skrifaði undir Svavarssamningana árið 2009 og var hægri hönd Steingríms J. Sigfússonar þegar bankarnir voru gefnir hrægammasjóðunum, eins og Víglundur Þorsteinsson hefur upplýst með því að draga fundargerðir eins og tennur úr kjafti kerfisins. En Indriði er að sjálfsögðu aðeins kynntur sem „fyrrverandi ríkisskattstjóri“ þegar hann mætir í Ríkisútvarpið til viðtals.

Allt er þetta bullandi hlutdræga fólk er bara kynnt sem hlutlausir álitsgjafar í fréttaflutningi Ríkisútvarpsins, í spjalli um fréttir vikunnar og vangaveltum í morgunútvarpi. Ofan á þetta bætist að á meðan Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum gengur nær af göflunum í því heilaga stríði gegn Sigmundi, leiðréttingunni og Framsóknarflokknum, sem hann hefur háð frá því hann skrifaði um Óvin númer 1 fyrir kosningar 2013, sér fyrrverandi félagi hans og meðeigandi að Kjarnanum Ægir Þór Eysteinsson um helftina af fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af málinu.

Ríkisútvarpið hefur loksins fellt grímuna. Hún er ófögur ásjónan sem við blasir. Óvinur nr. 1 er fundinn í Framsóknarflokknum.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 7.3.2016 - 14:18 - FB ummæli ()

Hvar er stjórnstöðin?

Egill Helgason hefur áhyggjur af stöðu ferðamála og spyr hvar margauglýst Stjórnstöð ferðamála sé.

Mér skilst að hún hafi komið þrisvar saman til fundar. Sá síðasti var fyrir örfáum dögum.

Á meðan stefnir í algjört öngþveiti á ferðamannastöðum Ástandið í fyrra verður eins og fallegur draumur miðað við það sem framundan er. Athafnaleysið í málaflokknum mun að óbreyttu valda óbætanlegu tjóni á náttúru landsins, þar sem átroðningur og skipulagsleysi verður í öndvegi.  Egill talar um  græðgi, peningaplokk, sinnuleysi, fyrirhyggjuleysi og lélega aðstöðu á ferðamannastöðum. Því miður hefur hann rétt fyrir sér. Til viðbótar má nefna skattsvik og skakka samkeppnisstöðu af völdum þeirra.

Það er ekki bara ámælisvert að þessi mikilvægi  málaflokkur skuli ekki hafa verið tekinn fastari tökum – það er hneyksli.

Nú berast fréttir af því að setja eigi nokkur hundruð milljónir króna í að bæta öryggi á ferðamannastöðum. Hlutur sem hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Því miður þurfti dauðsföll til.

En á sama tíma hafa engar nýjar tillögur litið dagsins ljós varðandi gjaldtöku á ferðmannastöðum. Þetta er eins og leikhús fáránleikans.

Ég sé ekki hvernig Framsóknarflokkurinn getur setið hjá mikið lengur í þessu máli.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.2.2016 - 14:57 - FB ummæli ()

Tíu mál um kennitöluflakk

Undirritaður hefur ákveðið að leggja fram allt að tíu mál í þingi á næstu mánuðum, sem öll  tengjast baráttunni gegn kennitöluflakki. Um er að ræða lagafrumvörp og þingsályktunartillögur.

Nokkrir þingmenn hafa bent á að kennitöluflakk verði ekki stöðvað með frumvarpinu sem lagt var fram í síðustu viku. Það er rétt, enda var það hugsað sem fyrst skref í baráttunni gegn þeirri óværu sem kennitöluflakkið er. Það mun gera hinum seku erfiðara fyrir, en þeir munu finna aðrar glufur.

Þá hefur verið kvartað undan því að kennitölufrumvarpið sé íþyngjandi. Þannig er fullyrt að hugsanlega munum við missa af næsta Bill Gates á meðal vor, ef menn fá ekki að setja nokkur fyrirtæki á hausinn, með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðfélagið, áður en þeir slá í gegn. Rétt er að benda á og ítreka að frumvarpið gerir einungis ráð fyrir að menn taki pásu eftir tvö gjaldþrot á þremur árum.  Kannski geta þeir þá unnið betur að viðskiptaáætlunum sínum.Er það ósanngjörn krafa?

Það er undarleg hugmyndafræði að líta á kennitöluflakk, tollalagabrot eða skattsvik sem saklausan hlut. Kostnaður þjóðfélagsins nemur allt að 100 milljörðum króna á ári. Ríkið tapar, starfsmenn tapa, birgjar tapa o.sv.frv. Oft leiðir þetta til keðjuverkandi gjaldþrota.

Þingmálin 10 eru lögð fram til að koma skikki á þessa hluti. Verða þau íþyngjandi? Já, eflaust mörg þeirra. En umferðarlögin eru líka íþyngjandi, ef menn vilja taka slíka umræðu.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 22.2.2016 - 13:04 - FB ummæli ()

Í hart gegn skattsvikum

Ríkisskattstjóri hefur áætlað að skattaundanskot, m.a. vegna kennitöluflakks, geti numið um 80 milljörðum króna á ári. Þetta er ámóta upphæð nemur kostnaði við byggingu nýs Landspítala – og það á hverju ári.

Þingmenn og ráðherrar hafa haft stór orð um þá meinsemd sem kennitöluflakk er – það hefur þó verið minna um athafnir hjá þeim.

Ég legg í dag fram lagafrumvarp, ásamt þingmönnum úr fjórum flokkum,  sem kveður á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar megi ekki á síðustu þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö félög eða fleiri sem orðið hafa gjaldþrota. Þetta er fyrsta raunverulega atlagan sem gerð er gegn kennitöluflakki, þar sem hópur manna hefur stundað misnotkun á þeirri takmörkuðu ábyrgð sem felst í félagaforminu.

Samtök atvinnurekenda munu eflaust reka upp ramakvein og hafa stór orð um íþyngjandi ákvæði sem hefti frelsi manna til athafna og atvinnu. Ákvæðið er vissulega íþyngjandi, en þó nauðsynlegt með tilliti til þeirra hagsmuna sem fyrir hendi eru. Stundum er nauðsynlegt að setja skorður á frelsið, sérstaklega ef hagmunir þorra almennings eru þess eðlis.  Atvinnufrelsisákvæði  75. gr. stjórnarskrár opnar einnig fyrir þann möguleika.

Trúi ekki öðru en að þeir þingmenn sem hæst hafa haft um kennitöluflakk á Alþingi styðji málið. Eða er það ekki öruggt?

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 9.2.2016 - 09:31 - FB ummæli ()

Svona ná þeir peningum af okkur

Bankar og önnur fjármálafyrirtæki rukka almenning um tugi milljarða í formi alls kyns þjónustugjalda, sem sífellt fara hækkandi. Það er ljóst að það þarf bæði frjótt ímyndunarafl og sterkan vilja til að finna upp öll þau gjöld sem fyrir hendi eru. Gjörið svo vel, hér er listi  með um 30 aðferðum til að ná peningum af okkur. Listinn þarf ekki að vera tæmandi:

Tilkynningargjald
Seðilgjald
Úttektargjald
Úrvinnslugjald
Umsýslugjald
Umsjón
Innheimtukostnaður
Þóknun
Dráttarvextir
Hraðbankagjald
Debetkortagjald
Vörsluþóknun
Útskriftargjald
Þóknun vegna peningaúttektar innanlands
Svargjald bankaþjónustu
Greiðslugjald
Greiðsluseðlagjald
Kortagjald
Milliinnheimtuþóknun
Þjónustugjald
Innheimtuviðvörun
Greiðsluáskorun
Birting greiðsluáskorunar
Innheimtuþóknun
Vextir á verðbætur
Banka- og seðilgjald
Skuldfærð þóknun
Leigugjald beinis (ekki banki)
Línugjald (ekki banki)

Á einni áminningu var tilkynningarkostnaður 260 krónur, en ef ekki var látið vita, þá kostaði það ekki nema 160 krónur.

Er nema von að fólki blöskri og sé búið að fá nóg? Og er nema von að uppi sé krafa um nýtt og heiðarlegra bankakerfi?

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.2.2016 - 10:14 - FB ummæli ()

Á maður að trúa því….

Á maður að trúa því að árið 2016 séu enn til stjórnmálamenn sem vilja ekki stokka upp íslenskt fjármálakerfi, þannig að hagsmunir almennings verði hafðir að leiðarljósi?

Á maður að trúa því að enn séu til stjórnmálamenn sem eru tilbúnir til að láta almenning borga brúsann, fari svo að fjármálakerfið hrynji öðru sinni?

Svo virðist því miður vera. Við munum aldrei fá annað eins tækifæri og nú til að gera verulegar breytingar á fjármálakerfinu. Fyrsta tækifærið kom strax eftir hrun, það var því miður ekki nýtt. Vissulega voru gerðar ákveðnar breytingar á regluverki fjármálamarkaðarins, en þær gengu afar skammt.

Núna er meirihluti bankakerfisins kominn í fangið á ríkinu. Tækifærið er núna eða aldrei. Að búa til kerfi sem þjónar almenningi, kerfi þar sem viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi er aðskilin, þar sem almenningur er ekki mergsoginn af þjónustugjöldum og okurvöxtum. Að búa til banka sem vinna fyrir samfélagið.

Ætlum við að láta þetta tækifæri rennar okkur úr greipum? Ætlum við enn einu sinni að selja/gefa bankana til einkaaðila, án þess að breyta kerfinu?

Og láta almenning sitja uppi með reikninginn ef illa fer?

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 4.2.2016 - 10:05 - FB ummæli ()

Vandi Samfylkingar

Kröfur eru innan Samfylkingar um að bregðast við fylgistapi með því að skipta um formann. Slíkt á þá væntanlega að hleypa krafti í flokksstarfið og auka fylgið.

Maðurinn í brúnni er vissulega mikilvægur. Þegar knattspyruliðum gengur illa er þjálfarinn yfirleitt rekinn. Stundum virkar það – oft ekki.

Það hefur ekki virkað hjá Bjartri framtíð. Fylgi flokksins hefur haldið áfram að dala þrátt fyrir nýja leiðtoga. Hvernig stendur á því?

Karl Th. Birgisson hefur rétt fyrir sér þegar hann segir að ekki eigi að skipta um formann nema annar betri sé í boði. Í Samfylkingunni er enginn slíkur í sjónmáli, þar liggur vandinn. Dagur B. Eggertsson er áhugalaus, auk þess sem pólitísk staða hans hefur versnað svo um munar í borginni. Er Sigríður Ingibjörg líkleg til að hífa upp fylgið?

Eða Össur? Hann leiddi Samfylkinguna í gegnum tvennar kosningar sem formaður með fylgi upp á 31-32%. Össur er skynsamur – hann mun ekki leggja höfuð sitt og feril á þann pólitíska höggstokk að fara í formennskuslag hjá flokki sem er með um 9% fylgi.

Kannski liggur vandinn frekar í innra starfi Samfylkingar og stefnumálum hennar. Það væri kannski skynsamlegt að byrja á réttum enda – stefnunni – og fara yfir það sem aflaga hefur farið.

Þar ber hæst að Samfylkingin virðist hafa misst tengslin við umbjóðendur sína – fólkið í landinu, alþýðuna. Fólkið finnur ekki samhljóm með stefnu flokksins. Áherslan á ESB aðildina er dýrkeypt.

Kannski þarf að leita lausna innan flokksins, frekar en að horfa bara á formanninn.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 13.1.2016 - 09:50 - FB ummæli ()

Pólitísk slagsíða RÚV

Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Fram til þessa hefur ríkt samstaða um það að stjórnmálasamtök stundi ekki pólitískan áróður gegn börnum í gegnum stofnanir ríkisins. Það er einfaldlega svo að börn hafa oft ekki þroska eða getu til þess að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og enn síður til að meta það samhengi pólitískur áróður er settur fram í.

Þessi hugsanaháttur – um friðhelgi barna gegn pólitískum áróðri ríkisins, sést til að mynda glögglega í íslensku menntakerfi. Fram til þessa hefur verið talið mikilvægt að menntun sé óhlutdræg og byggi á rökhyggju og vísindalegri þekkingu og sé að sama skapi ósnert af starfsemi og hugmyndafræði stjórnmálasamtaka. Það er vel, en í því samhengi ber þó að halda því til haga að ýmsir hópar innan stjórnmálanna hafa sótt mjög að þessari friðhelgi undanfarin ár og krafist þess að sinni hugmyndafræði verði fundinn staður innan skólakerfisins.

Pólitísk slagsíða fær byr undir báða vængi

Þessi friðhelgi hefur fram til þessa gilt um starfsemi Ríkisútvarpsins – í það minnsta hvað börn snertir, enda hvílir á stofnuninni lagaskylda um hlutlægni og sanngirni. Hér er því ekki haldið fram að valdhafar hverju sinni þurfi ekki að þola neina gagnrýni, eða jafnvel háð, enda hvílir einnig á Ríkisútvarpinu skylda um að rýna störf yfirvalda á vandaðan og gagnrýnin hátt. Allir þurfa þó að fá að njóta sannmælis, en það er önnur og ólík umræða.

Í gegnum tíðina hafa loðað við Ríkisútvarpið kenningar um pólitíska slagsíðu í starfsemi þess. Það er óhætt að segja að þær hafi fengið byr undir báða vængi á gamlársdag. Í barnaþættinum Stundinni okkar gaf að sjá nokkur innslög sem lituðust mjög af pólitískum áróðri, en áttu á sama tíma á lítið sem ekkert skylt við barnaefni. Þátturinn er tilefni þessara skrifa.

Óásættanlegur áróður á barnatíma

Í barnaþættinum mátti sjá forsætisráðherra og fjármálaráðherra þeysast um á gjöreyðingarskipinu „einkavæðarinn“ og tortíma bæði Landspítalanum og Ríkisútvarpinu, á milli þess sem þeir gerðu lítið úr heilbrigðisstarfsmönnum. Á öðrum stað í þættinum mátti heyra hvað Eyþór Arnalds hefði verið „leiðinlegur“ á árinu, en þannig vildi til að hann sat í nefnd sem skilaði af sér svartri skýrslu um fjárhag Ríkisútvarpsins í fyrra. Í barnatímanum var þeim skilaboðum komið áleiðis til barna um að ríkjandi valdhöfum væri ekki treystandi og að þeir vildu eyðileggja grunnstoðir samfélagsins.

Pólitískur áróður af hálfu Ríkisútvarpsins sem beinist að börnum er með öllu óásættanlegur, óháð því hvaða stjórnmálamenn- eða flokkar eru þar gerðir að bitbeini. Börn eru móttækileg fyrir skilaboðum sem þau hafa ekki fullar forsendur til að gaumgæfa á gagnrýninn hátt. Þetta endurspeglast  til dæmis í því að ýmsar tegundir auglýsinga eru bannaðar á barnatíma, einmitt vegna þess hve móttækileg börn eru fyrir þeim.

Hlustendur verðskulda svör

Ríkisútvarpið rauf með þessu áróðursbragði sínu friðhelgi um pólitískt afskiptaleysi sitt gagnvart börnum, og brást um leið lagalegum og siðferðislegum skyldum sínum. Við köllum hér með eftir því að stjórnendur og starfsfólk Ríkisútvarpsins svari því með afgerandi hætti hvort þau telji ásættanlegt að pólitískum áróðri sé komið fyrir í barnaþáttum þess. Hlustendur Ríkisútvarpsins, og ekki síður foreldrar, verðskulda svar við því hver afstaða stofnunarinnar er til slíks áróðurs.

Grein okkar Elínar Hirst sem birtist í Fréttablaðinu í dag

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 15.12.2015 - 09:13 - FB ummæli ()

Ástin á eldri borgurum

Þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata hafa síðustu daga kynnt sig sem sérstaka baráttumenn fyrir bættum kjörum aldraðra.

Þessir flokkar fara með stjórn stærsta sveitarfélagsins, Reykjavíkur, og þar hafa verkin verið látin tala. Fyrir skömmu var skert heimaþjónusta til aldraðra í nokkrum hverfum borgarinnar. Heimaþjónustan snýst ekki bara um aðstoð heima við,  heldur hefur félagsskapurinn verið mikilvægur fyrir marga eldri borgara. Margir þeirra búa við einangrun og einmanaleika og heimsóknir til þeirra eru fátíðar. Heimaþjónustan hefur hér gegnt mikilvægu hlutverki.

Nú hafa borist fréttir af því eldri borgarar í Eirborgum í Grafarvogi fái ekki lengur heitan mat um helgar. Fokið er í flest skjól þegar farið er að skerða mat til þessa hóps.

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lét það verða eitt sitt fyrsta verk sumarið 2009 að skerða greiðslur til  ákveðinna hópa aldraðra og öryrkja. Það var afsakað með þeim orðum að hér hefði orðið hrun og að allir yrðu að taka þátt í endurreisn landsins.

Vissulega hefur fjárhagur Reykjavíkur hrunið í tíð Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata. Að láta það bitna sérstaklega á öldruðum er þó með ólíkindum.

Eldri borgarar hljóta að vera spenntir fyrir þeim möguleika að þessir flokkar taki við stjórn landsins eftir næstu kosningar.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.12.2015 - 11:21 - FB ummæli ()

Illmenni á Alþingi

Þegar rætt er um kjör aldraðra og öryrkja mætti helst halda að það séu tóm illmenni á Alþingi.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, og ítreka hana hér, að ég tel að lágmarksgreiðslur til aldraðra og öryrkja eigi að að ná 300 þúsund krónum á næstu þremur árum. Ég hefur oftar en einu sinni skýrt frá þessu viðhorfi mínu á fundum hjá mínum flokki, síðast fyrir örfáum mánuðum.

Í dag fá aldraðir útborgaðar að lágmarki um 192 þúsund krónur á mánuði, en lífeyrir þeirra nemur um 225 þúsund krónum. Um næstu áramót hækkar þessi tala um 9,7% og fer lágmarkslífeyrir þá í um 245 þúsund krónur. Miðað við spá um launavísitölu bætast síðan 8% til viðbótar við eftir ár og verða lágmarksgreiðslur til aldraðra komnar yfir 260 þúsund krónur. Ríkisstjórnin á að stíga skrefið til fulls og tryggja þessum hópum 300 þúsund króna lágmarksgreiðslur á sama tíma og aðrir fá þær.

Aldraðir og öryrkjar fengu 3% hækkun um síðustu áramót – ekki frá 1. mars – og fá 9,7% til viðbótar núna um áramótin. Það var því ekki hægt að greiða atkvæði með tillögu um afturvirkni greiðslna til þessara hópa – þeir eru ekki að fá minna en aðrir á árinu.

Hópur aldraðra og öryrkja getur ekki lifað af þeim lágmarksgreiðslum sem kerfið tryggir þeim í dag. Hin raunverulega kjarabót þeirra felst hins vegar  í 300 þúsund króna lágmarkslífeyri – engu öðru. Allra síst eingreiðslu upp á nokkrar krónur í boði stjórnarandstöðunnar.

Á umræðunni er helst að skilja að ráðamenn séu vondir menn sem vilji sjúklingum, öldruðum og öryrkjum allt hið versta. Ég þekki ekki nokkurn mann sem styður ekki þessa málaflokka – hvorki innan þings né utan. Maður gæti haldið, miðað umræðuna á samfélagsmiðlum að hér séu ekkert nema illmenni. Svo er auðvitað ekki. Málefni sem tengjast öldruðum og öryrkjum er eitt af stóru málum okkar samtíðar.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Karl Garðarsson
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins á Alþingi
RSS straumur: RSS straumur