Föstudagur 26.07.2013 - 16:30 - FB ummæli ()

Í gegnum skráargatið

Ríkisstjórn Íslands hefur sett aðildarviðræður Íslands við ESB á ís og erfitt er að ráða í hver næstu skref verða. Mun ríkisstjórnin slíta viðræðum eða mun þjóðin fá að kjósa um næstu skref og þannig koma sér í stöðu til að legga sjálf mat á kosti og galla aðildar. Er það t.d. rétt eða rangt sem Dr. Magnús Bjarnason stjórnmálahagfræðingur heldur fram að kostir aðildar séu fleiri en ókostir fyrir um 90% landsmanna? Um þetta verður aldrei hægt að fullyrða nema klára aðildarferlið – sjá samninginn og kjósa.

En hver sem niðurstaðan verður heldur heimurinn áfram að þróast. Í byrjun mánaðarins hófu stærstu viðskiptablokkir heims – ESB og Bandaríkin viðræður um fríverslunarsamning og mun samningurinn – ef af verður – hafa gríðarleg áhrif á viðskipti um heim allan. Er talið að öll aðildarríki ESB muni hagnast á þessum samningi – en lönd utan ESB tapa og hefur m.a. verið lagt mat á það að tekjur á hvern Íslending muni dragast saman um tæp 4% og að störf hér á landi verði þúsund færri en ella.

Í núverandi stöðu var því hárrétt hjá utanríkisráðherra Íslands að stofna samráðsvettvang um hagsmunagreiningu vegna þessara fríverslunarviðræðna ESB og Bandaríkjanna. Var utanríkisráðherra spurður nánar út i þetta í kvöldfréttum RÚV nýverið og sagði hann að þetta væri m.a. gert til að fylgjast með – gæta hagsmuna okkar og „láta ekki taka okkur í bólinu“ eins og hann orðaði það.

Hér greinir utanríkisráðherra stöðuna hins vegar rangt. Við Íslendingar erum ekkert í bólinu – við erum ekki einu sinni í svefnherberginu. Við stöndum einfaldlega fyrir utan herbergið þar sem ákvarðanirnar verða teknar.

Við höfum verið sett í þá stöðu að fylgjast áhrifalaus með þróun mála í gegnum skráargatið á læstri hurð.

Sannarlega dapurleg staðreynd fyrir alla sem aðhyllast frelsi í viðskiptum og telja það eina af forsendunum fyrir bættum lífskjörum hér á landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Margrét Kristmannsdóttir
Framkvæmdastjóri Pfaff.
RSS straumur: RSS straumur