Fimmtudagur 11.09.2014 - 08:12 - FB ummæli ()

„Freistnivandi“ kaupmanna

Í fjárlögum eru fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar sem vakið hafa hörð viðbrögð eins og vænta mátti. Mörg viðbrögð voru fyrirséð – önnur ekki og verður áhugavert að fylgjast með hvort og þá með hvaða hætti frumvarpið breytist í meðförum Alþingis.

Verslun á Íslandi hefur í áratugi barist fyrir niðurfellingu vörugjalda sem skekkir samkeppnisstöðu þessarar atvinnugreinar verulega – enda þekkjast vörugjöld hvergi í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við. Segja má að vörugjöld séu sérstakur skattur á íslenska neytendur og sé löngu úrelt fyrirkomulag neyslustýringar. Enda hvaða vit er í því að skattleggja sérstaklega þvottavélar, kæliskápa, bílavarahluti, klósett og gólfefni sem lúxusvarning væri.

Þegar fjármálaráðherra fylgdi fjárlögum úr hlaði sagði hann að fyrirhugaðar breytingar myndu hafa jákvæð áhrif á kaupmátt heimilanna og verðlag í landinu.

Hagfræðingur ASÍ dróg þetta í efa í tíufréttum á RÚV þann 9. september s.l. og sagði að þessar breytingar væru ekki gott innlegg í komandi kjaraviðræður. Síðan bætti hagfræðingurinn við að ASÍ hefði áhyggjur að freistnivanda kaupmanna myndi skila þeim hærri álagningu.

Svo þetta sé orðað á venjulegri íslensku þá ætla kaupmennirnir – sem barist hafa fyrir vörugjaldsniðurfellingu í tæp 40 ár – að stinga öllum ágóðanum í eigin vasa og gefa skít í neytendur.

Og hvað skyldi ASÍ hafa fyrir sér í þessum málflutningi? Ekki neitt nema eigin vangaveltur!

Ef hins vegar er litið á staðreyndir gaf Samkeppniseftirlitið út skýrslu í ársbyrjun 2012 þar sem segir orðrétt: „Lækkun á virðisaukaskatti á matvælum úr 14% í 7% sem og lækkun á vörugjöldum, einkum gosdrykkjum, í mars 2007 skilaði sér í samsvarandi lækkun á verði matvöru í smásölu.“

Svo mörg voru þau orð – verslunin skilaði allri lækkun beint til neytenda!

Meiri var freistnivandi verslunarinnar nú ekki.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is