Þann 1. janúar n.k. mun eitt stærsta baráttumál íslenskra verslunar vera í höfn þegar vörugjöldin verða afnumin. Vörugjöldin eru mjög ógagnsæ skattheimta og fátt hefur skaðað samkeppnishæfni verslunarinnar eins og álagning þeirra.
Við afnám þeirra mun verðlag á mörgum vörum lækka um tugi prósenta og allur samanburður á verðlagi á milli landa verður mun auðveldari. Það mun veita versluninni aukið aðhald en ekki síður mun afnám vörugjaldanna setja íslenska verslun í sanngjarnari samanburð. Við sem vinnum í verslun höfum nefnilega oft lent í því að neytandi ber saman vöru sem seld er erlendis án vörugjalda við vöru hér heima með vörugjöldum og það segir sig sjálft að sá samanburður verður ekki hagstæður fyrir íslenska verslun.
Vörugjöldin hafa verið hluti af íslenska skattkerfinu síðan 1971 og alla tíð verið andstætt reglum um góða skattheimtu – enda flókin og ógagnsæ. Í rúma fjóra áratugi hefur verslunin barist gegn þessari hörmung og má segja að það hafi tekið tvær kynslóðir kaupmanna að tryggja sigur í þessu máli. Þó að óvenjumikið hafi verið rifist um fjárlagagerðina í ár – var einkar áhugavert að sjá að það virtist ríkja þverpólitísk sátt um afnám vörugjaldanna. Fyrir það ber að þakka og þetta mál sýnir að stjórnmálamennirnir okkar geta alllir sem einn tekið sömu skynsamlegu ákvörðunina.
Fyrir hönd íslenskra kaupmanna segi ég TAKK!
Fyrir áhugasama er hér tengill inn á skýrslu um ágalla vörugjalskerfisins sem Samtök verslunar og þjónustu gerðu árið 2012 í náinni samvinnu við fjármálaráðuneytið og tollstjóra.
http://www.svth.is/images/stories/vorugjaldsskyrsla_februar_2012.pdf