Miðvikudagur 5.11.2014 - 15:58 - FB ummæli ()

Útlendingar eignast kvóta Breta

RisaHollendingurMail Online heldur því fram að eitt hollenskt risaskip geti nýtt 23% af þeim fiskveiðikvóta sem Evrópusambandið úthlutar Bretum í eigin landhelgi. Nær helmingur, eða 43%, kvótans eru í höndum erlendra aðila.

Hollendingurinn nær í fiskinn við Bretlandsstrendur og landar honum að mestu í Hollandi. Samkvæmt opinberum upplýsingum í Bretlandi eru 23% af kvótanum bundinn við eitt sex þúsund tonna fiskveiðiskip frá Hollandi, Cornelis Vrolijk.

Breskir sjómenn eru skiljanlega óhressir með þetta og kalla eftir breytingum á reglum og lögum svo kvótinn fari ekki allur úr landi. Erlendir aðilar eiga 43% kvótans við Bretlandsstrendur. Það vekur einnig furðu að 32% kvótans eru bundin við fimm stór veiðiskip.

Reglur frá 1999 gera ráð fyrir að skip í eigu útlendinga geti eignast kvóta við Bretlandsstrendur svo lengi sem helmingur áhafnar er búsettur í Bretlandi eða helmingi aflans er landað í breskum höfnum. Breskir andófsmenn gegn kerfinu segja að allur makrílafli Hollendingsins stóra, Cornelis Vrolijk, allur síldarafli og allur kolmunni fari í land í Hollandi.

Þá kemur fram í fréttinni í Mail Online að smábátar í Bretlandi séu um 80% flotans en þeir megi aðeins veiða 4% kvótans. Þar er einnig haft eftir Kirk Stribling, sjómanni frá Aldeburgh að breska ríkisstjórnin veiti ónógum kvóta til sjómanna í Bretlandi svo stuðla megi að sjálfbærri nýtingu sjávarfangs auk uppbyggingar sjávarbyggða.

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 2.11.2014 - 23:07 - FB ummæli ()

Stórríki ESB herða stjórnina

Í gær breyttust valdahlutföllin í ESB stóru ríkjunum í hag. Atkvæðavægi minnstu ríkjanna er nánast ekkert og ef Ísland yrði aðili að ESB yrði atkvæðavægið vart teljandi. Atkvæðavægi lítilla aðildarríkja ESB minnkaði um helming en vægi Þýskalands nær tvöfaldaðist við það að ákvæði Lissabon-sáttmálans tóku gildi.

Það fékk ekkert ríki að kjósa um Lissabon-sáttmálann í þjóðaratkvæði nema Írland. Írar höfnuðu sáttmálanum en voru svo látnir kjósa aftur, sögðu Já og fá aldrei að kjósa aftur. Þeir og fleiri smáríki í ESB hafa misst áhrif sín varanlega. Þeir hafa einnig misst neitunarvald sitt í hátt í 60 málaflokkum.

Þjóðverjar hafa ráðið miklu í ESB síðustu árin en nú eykst vald þeirra að mun. Þeir fara nú með sjötta hvert atkvæði í valdastofnunum ESB og geta með Frakklandi eða öðrum stórum ríkjum, svo sem Ítalíu, Bretlandi, Spáni eða Póllandi, ásamt öðrum taglhnýtingum ráðið flestu því sem þeir kæra sig um á vettvangi ESB, en ESB stefnir sem kunnugt er að því að verða stórt sambandsríki en ekki aðeins ríkjasamband.

Þessar breytingar áttu sér stað um leið og ný framkvæmdastjórn tók við stjórnartaumunum í ESB. Nýju reglunum hefur verið líkt við það að svipta þjóðir sjálfstæði. Landlukt ríki sem eiga hverfandi hagsmuna að gæta í sjávarútvegi geta nú í krafti stærðar sinnar haft afgerandi áhrif á sjávarútvegsmál í ESB.

Sjá nánar:

Haraldur Hansson: Ísland svipt sjálfræði.

New voting rules in EU

Fullveldisvaktin

Blogg Páls Vilhjálmssonar

Blogg Gunnars Heiðarssonar

Fésbók Frosta Sigurjónssonar

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 29.7.2014 - 16:20 - FB ummæli ()

Nauðsynlegt að afturkalla umsóknina

erna_bjarnadottirÞað er nauðsynlegt að afturkalla umsóknina um aðild að ESB, segir Erna Bjarnadóttir í grein sem birt var í Morgunblaðinu föstudaginn 18. julí síðastliðinn.

Grein Ernu, sem er í stjórn Heimssýnar, er birt hér í heild sinni:

 

Síðustu vikuna hafa hver stórtíðindin eftir önnur borið að sem varða hagsmunagæslu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Allt hefur þó borið að einu með að ekkert heyrist frá forystumönnum í stjórnmálum um orð og yfirlýsingar háttsettra embættis- og stjórnmálamanna frá meginlandinu.

Fyrst má nefna ummæli Athanasios Orphanides fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Kýpur, í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 10. júlí sl. Þar segir hann m.a. að hinn pólitíski óstöðugleiki í Evrópu sé slíkur að það væru mistök fyrir hvaða ríki sem væri, þar á meðal Ísland, að fara inn á evrusvæðið undir núverandi kringumstæðum. Þá segir ennfremur: »Orphanides telur það hafa verið viðeigandi að setja gjaldeyrishöft á Íslendinga á sínum tíma til að koma í veg fyrir enn stærra gengishrun krónunnar.« Einnig hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birt mjög harða gagnrýni á efnahagsstjórn evrusvæðisins, sem beinist ekki sízt að Seðlabanka Evrópu. Gagnrýnin beinist að því að yfirvöld hafi látið evrusvæðið lokast inni í lágvaxtargildru án þess að grípa til aðgerða. Verðbólga hafi verið of lítil í of langan tíma. Þetta aðgerðaleysi hefur að mati AGS dregið úr trúverðugleika Seðlabanka Evrópu.

Staðan í ESB er í stuttu máli þannig að þar er 10,5% atvinnuleysi og 25,7 milljónir manna án vinnu. Þar af eru 5,34 milljónir undir 25 ára aldri atvinnulausar. Verst er ástandið á Grikklandi og Spáni, þar sem meira en fjórði hver maður er atvinnulaus. Þetta kemur fram í frétt Eurostat frá 2. maí sl. Á sama tíma var atvinnuleysi á Íslandi 4,6%.

Þann 15. júlí sl. sagði verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB að yfirstandandi viðræðum við umsóknarríki verði haldið áfram en ekki verði um frekari stækkun að ræða næstu fimm árin. Nú er það svo að viðræður standa ekki einu sinni yfir við umsóknarríkið Ísland. Búið er að leysa upp allar samninganefndir og samningahópa og allir opinberir embættismenn sem við þetta unnu eru farnir til annarra starfa. Einnig hafa allar greiðslur til Íslands vegna aðlögunar að stjórnsýslu ESB, svokallaðir IPA-styrkir, verið stöðvaðir.

Á hverju strandar þá að draga umsókn Íslands til baka? Verði það ekki gert munu embættismenn ESB gefa út skýrslu í haust um stöðu umsóknar okkar um aðild. Í besta falli er hægt að skemmta sér við tilhugsunina um hvaða orðaval þeir nota til að lýsa stöðunni.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 11.7.2014 - 13:13 - FB ummæli ()

Spilling og skortur á gegnsæi í ESB

Dalligate er nafn á máli tengdu John Dalli fyrrum heilbrigðisframkvæmdastjóra ESB sem varð að segja af sér fyrir tveimur árum vegna ásakana um að hann hefði hitt hagsmunagæslumenn tóbaksiðnaðar á óskipulögðum fundum. Fulltrúi hans er einnig sakaður um að hafa óskað eftir fjárframlagi frá sænskum tóbaksframleiðanda gegn því að Dalli myndi stuðla að því að tóbakslögum ESB yrði breytt þannig að almennt bann gegn notkun á munntóbaki, þ.e. svokölluðu snusi Svíanna, yrði afnumið.

Dalli er maltverskur, kristilegur demókrati og fyrrum þingmaður og ráðherra á Möltu til margra ára (1987-2004), en hann var meðal annars fjármálaráðherra lengst af á árunum 1992 til 2004. Eftir það tapaði hann kjöri sem formaður flokksins (sem reyndar er kallaður Þjóðernissinnaflokkur eða Nationalist Party) og var um það leyti sakaður um fjárglæfra og spillingu. Ekkert athugavert fannst þó gegn Dalli í lögreglurannsókn um það mál á Möltu en sá sem helst bar fram ásakanir á hendur honum fékk hins vegar þungan dóm og fangelsisvist.

Ósæmilegir fundir og meint tilraun til mútuþægni

Dalli varð framkvæmdastjóri yfir heilbrigðismálum hjá ESB í ársbyrjun 2010 og hafði því með endurskoðun á löggjöf um tóbaksmál að gera. Hann þykir hafa farið óhefðbundnar leiðir ef borið er saman við opinberlega viðurkenndar aðferðir í ESB og í nokkur skipti verið tengdur við það sem litið er á sem óeðlileg tengsl stjórnmálamanna við fjármálamenn. Þannig kom í ljós að Dalli hafði hitt  meinta hagsmunagæslumenn tveggja stórra tóbaksfyrirtækja án þess að þeir fundir væru formlega á vegum stofnunar hans í Brussel og án þess að fundirnir væru skráðir opinberlega. Það fundarhald var því brot á reglum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO, sem ESB hefur tekið upp, um gagnsæi og skráningu funda með fulltrúum hagsmunaafla. Auk þess var Dalli sakaður um að hafa vitað af tilraun aðstoðarmanns síns, fyrrum atkvæðasmala, til að koma á mútugreiðslum, án þess að bregðast við. Stofnun ESB gegn fjármálaspillingu, OLAF, gekk í að rannsaka málið, en áður en niðurstaða þeirrar rannsóknar lá opinberlega fyrir kallaði Jose Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Dalli á teppið haustið 2012, fór yfir málið með honum og sagði honum síðan að afhenda uppsagnarbeiðni innan 30 mínútna því annars yrði hann rekinn. Barroso taldi sem sagt vissuna um fundina með hagsmunapoturunum næga ástæðu til uppsagnar.

Dalli krefst himinhárra skaðabóta

Dalli var ekki skemmt við þetta og ákvað að höfða mál fyrir dómstóli ESB (Europan Court of Justice) gegn framkvæmdastjórn ESB fyrir tilhæfulausan brottrekstur. Sú málshöfðum var til umfjöllunar í dómstólnum í vikunni, en Dalli krefst skaðabóta að fjárhæð 1,9 milljónir evra (um 300 milljónir króna). Kröfur hans eru þó smáræði í samanburði við meinta tilraun til mútuþægni, en þar var um að ræða 60 milljónir evra eða sem svarar um 10 milljörðum króna. Þrátt fyrir langar vitnaleiðslur er ýmislegt óljóst í málinu og óvíst hvenær niðurstaða fæst varðandi kröfu Dalli. Barroso segist hafa verið að bregðast við sem pólitískur verkstjóri og að Dalli hafi verið látinn axla pólitíska ábyrgð með því að segja af sér eftir að upp komst um fundi hans og undirmanna hans með fulltrúum tóbaksiðnaðarins.

Fundað á skýlunni við laugarbakkann

Fram hefur komið að Dalli hitti fulltrúa tóbaksfyrirtækisins Philip Morris á sundskýlunni á sumarleyfiseyjunni Gozo. Þær kringumstæður telur Dalli til marks um hversu léttvægur sá fundur hafi verið. Enn fremur hitti atkvæðasmali Dallis  fulltrúa Swedish Match og mun hann hafa komið á framfæri hugmyndum um að Dalli væri tilbúinn að þiggja greiðslu að fjárhæð 60 milljónir evra gegn því að breyta löggjöf ESB um tóbaksmál þannig að banni gegn almennri sölu á sænsku munntóbaki annars staðar í Evrópu en í Svíþjóð yrði aflétt. Þetta er sagt koma fram í skýrslu frá áðurnefndri stofnun ESB, OLAF.

Sem kunnugt er fengu Svíar undanþágu frá banni ESB við sölu á munntóbaki þegar þeir gengu í ESB. Margir telja að það hafi riðið baggamuninn um að Svíar samþykktu aðildina. Samkvæmt OLAF var Dalli kunnugt um fund atkvæðasmalans og erindi hans, þ.e. tilraun til mútuþægni, án þess að hafa gert nokkuð í málinu. Reyndar er því einnig haldið fram að OLAF hafi komist að þeirri niðurstöðu að aðgerðirnar gegn Dalli hafi ekki að öllu leyti verið réttmætar. Því fer tvennum sögum af því hvað skýrslur OLAF segja í raun og Dalli fékk ekki að skoða þær áður en Barroso stillti honum upp við vegg og beitti valdi sínu til að fá hann til að segja af sér.

Lögreglustjóri fann ekkert athugavert  og var látinn fjúka

Þegar rannsókn hófst á vegum OLAF var óskað aðstoðar lögregluyfirvalda á Möltu. Þáverandi lögreglustjóri sem fór í að rannsaka málið á Möltu sagði ekkert ámælisvert hafa komið fram gegn Dalli í þeirri rannsókn. Reyndar var lögreglustjórinn færður til í starfi nokkru síðar eftir að fram komu ásakanir frá OLAF um að hann hefði ekki brugðist við óskum starfsmanna OLAF í þremur atriðum. Yfirvöld á Möltu hafa þó ekki viljað staðfesta að tilfærsla á lögreglustjóranum tengist rannsókn á Dalli-málinu þótt tengslin virðast vera nokkuð augljós við lestur fjölmiðla. Réttarrannsókn í málinu virðist því hafa runnið út í sandinn. Eftir stendur hin pólitíska ábyrgð bæði Dallis og Barrosos. Félagar Dallis telja ekkert athugavert við að hann hafi hitt hagsmunagæslumenn tóbaksiðnaðarins óopinberlega. Reglur WHO og ESB telja það hins vegar vítavert.

Óeðlilegt vald framkvæmdastjóra ESB og skortur á gagnsæi?

Þetta mál hlýtur að vekja upp ýmsar spurningar um stjórnsýslu í kringum framkvæmdastjórn ESB. Forseti framkvæmdastjórnarinnar tekur sér nánast alræðisvald yfir öðrum framkvæmdastjórum, er sakaður um að hafa haft óeðlileg áhrif á rannsókn meintra efnahagsbrota og tekur yfir stjórn á starfsliði burtrekinna framkvæmdastjóra. Þannig virðist Barroso hafa getað teflt ýmsu starfsliði fram til þess að hafa áhrif á gang rannsóknar í málinu. Rannsóknarniðurstöðum virðist hins vegarvera stungið að einhverju leyti undir stól. Það hlýtur að vera krafa í lýðræðissamfélagi að opinberar skýrslur sem hafa jafn afdrifaríkar afleiðingar og umrædd skýrslugerð OLAF sé birt svo fjölmiðlar og aðrir geti lagt sjálfstætt mat á atburðarásina. Barroso kýs hins vegar að líta svo á að hér sé um pólitískar skyldur og ábyrgð að ræða og því þurfi ekki að birta ítarleg gögn um málið.

Vill fangelsa Barroso og fleiri

Dalli er þó alls ekki af baki dottinn og í samtali við fjölmiðla í vikunni, eftir að málið hafði verið rætt á maltverska þinginu, sagði hann að ef Barroso kæmi í heimsókn til Möltu ætti að stinga honum í svartholið. Reyndar er hann einnig sagður hafa komið þeim boðum til yfirmanns efnahagsbrotadeildar ESB að sá yrði einnig handtekinn og fangelsaður ef hann kæmi til  Möltu. Það er út af fyrir sig áhugavert að stjórnmálamaður skuli telja sig hafa heimild til að senda frá sér skilaboð af þessu tagi.

Dalligate er stórmál á Möltu og fjalla meðal annars enskumælandi miðlarnir Times of Malta og Malta Independent ítarlega og reglulega um málið (sjá neðanmáls). Maltverjar samþykktu á sínum tíma með naumum meirihluta að gerast aðilar að ESB. Ráðandi öfl vilja helst vera tekin með sem fullgildur aðili í því samstarfi. Þær spurningar sem vofa yfir þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um málið í maltverskum fjölmiðlum er annars vegar sú hvort Brusselvaldið sé að níðast á einum valdaminnsta aðilanum með ógagnsæjum aðgerðum og hins vegar hvort Malta hafi verið tilbúin fyrir þær alþjóðlegu reglur og viðmiðanir sem óskað er eftir að aðildarlönd undirgangist. Sjálfsagt verður nokkur bið á því að öllum spurningum um málið verði svarað.

 

Samantekt: Ritstjórn Nei við ESB.

Sjá ýmsar greinar um efnið á þessum netmiðlum:

Malta Independent, m.a. hér: http://www.independent.com.mt/articles/2014-07-10/news/john-dalli-accused-bs-of-being-part-of-fraud-committed-against-him-5786828801/

Times of Malta, m.a. hér:

http://www.timesofmalta.com/articles/view/20140710/local/dalli-barroso-should-be-arrested-if-he-came-to-malta.527145

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 26.6.2014 - 13:33 - FB ummæli ()

ESB skelfur

ESB skelfur. Það er enn titringur vegna kosninga til ESB-þingsins. Stór hluti Evrópubúa er hundóánægður með Evrópusambandið og Bretar eru á útleið.

Þórarinn Hjartarson

Þórarinn Hjartarson

 

Þórarinn Hjartarson kemur inn á þetta í athyglisverðri grein sem birt var í Fréttablaðinu og á Visir.is. Hann byrjar á því að tengja umræðuna við hina pólitísku hreinstefnu sem Samfylkingin með Dag B. Eggertsson í broddi fylkingar iðkar hvað mest þessa dagana, en sú stefna er í sjálfu sér viss spegilmynd og ber í sér ákveðna þræði útilokunar sem eru meðal annars einkenni þeirrar róttæku stefnu sem ráðist er að.

 

Þórarinn skrifar meðal annars:

……….

ESB-sinnar fjandskapast við Framsóknarflokkinn og þykir gott að geta bendlað hann við þjóðrembu, helst rasisma. Fjölmenning er jú ein helsta yfirskrift Evrópusamrunans.

……

Kosningaumræðan í Reykjavík var á sinn hátt endurómur af umræðu úti í Evrópu eftir kosningar til Evrópuþingsins nokkrum dögum áður. Þar unnu hægrisinnaðir ESB-andstæðingar stórsigur í Frakklandi, Bretlandi, Danmörku og miklu víðar, en Syrisa, vinstriróttækur andstæðingur ESB, varð langstærsti flokkurinn í Grikklandi. ESB skelfur. Viðbrögðin urðu mjög þau sömu og á Íslandi. Frjálslyndir borgaraflokkar og sósíaldemókratar og jafnvel vinstrikratar semja sátt sín á milli þegar berjast skal við þennan popúlíska straum. Frjálslyndið er í húfi og fjölmenningin – og Evrópuhugsjónin.

Spyrja ekki um stéttarhagsmuni

…….

Samfylkingin hefur gengið braut markaðshyggju frá byrjun og VG komst inn á hana með hjálp AGS. Á meðan þeir bölva nýfrjálshyggjunni gleypa þeir kjarna hennar án þess að flökra við né ropa.

Aðferðir klassískrar frjálshyggju eru sjálfur grunnurinn undir ESB, reglurnar um hinn frjálsa sameiginlega markað: frjálst flæði vöru, fjármagns, vinnuafls og þjónustu milli landa, hnattvæðingarreglur auðhringanna sem Brusselskrifræðið sér um að fylgja eftir.

Gagnrýni íhaldssamra ESB-andstæðinga í Evrópuþingkosningum beinist einmitt mjög að „fjórfrelsinu“. Þeir gagnrýna það að afgerandi svið eins og stefnan í innflytjendamálum skuli dregin undan valdi þjóðþinga. Frjálst flæði vinnuafls er þó bara ein hliðin, gagnrýnin gildir um vaxandi alhliða vald markaðsafla á kostnað kjörinna þjóðþinga og fullveldis. Slík gagnrýni hefur hingað til frekar komið frá vinstri væng, en kemur nú af vaxandi styrk frá hægri. Á meðan almenningur sér reyndar að andstaða æ fleiri vinstri flokka við frjálshyggjuna er í orði en ekki alvöru.

Straumurinn fylgir ekki stórauðvaldinu

Hinn hægrisinnaði straumur ESB-andstæðinga inniheldur örugglega ýmislegt gruggugt, allt yfir í hægri öfgar. En fráleitt er að afgreiða hann allan sem rasisma og öfgahægri. Fylkingin er miklu breiðari en svo, spannar til dæmis í Frakklandi og Englandi yfir fjórðung kjósenda.

Svo mikið er víst að þessi straumur fylgir ekki stórauðvaldinu. Stórauðvald ESB stendur auðvitað á bak við hið frjálsa flæði sem þurrkar út landamæri álfunnar. Ekki síður stendur stórauðvaldið á bak við fjölmenningarstefnuna. Draumur þess er einmitt sundurleitur vinnumarkaður sundraðs farandverkalýðs. Þar sem einn hópur launafólks skilur ekki mál annars minnkar samstaðan.

„Alþýðlegt íhald“

Ný pólitísk skipting er á milli frjálslyndrar frjálshyggju og íhaldssemi. Það er nær að kenna hina breiðu hægrifylkingu ESB-andstæðinga við „alþýðlegt íhald“ en hægri öfgar. Hún snýst nefnilega gegn elítunni. Það má vísast bendla hana við andfrjálslyndi, en ekki andlýðræði. Hún hafnar því afsali lýðræðis og fullveldis sem ESB stendur fyrir, því „andlýðræðislega skrímsli“ eins og Marine Le Pen kallar það réttilega.

Svo gerist það að framið er valdarán í Úkraínu, sem kemur fasistum og nasistum í ríkisstjórn í fyrsta sinn í Evrópu frá 1945. Þeir myrða pólitíska andstæðinga sína undir kjörorðum sem sótt eru til nasistatímans í landinu. Valdaránið var stutt og beinlínis drifið áfram af Bandaríkjunum og ESB sem eru staðráðin í að keyra Úkraínu inn í NATO þótt það kosti borgarastríð og klofning landsins. Í framhaldinu er nýtt járntjald reist „í varnarskyni“ á landamærum Rússlands og mikil stríðsógn kölluð yfir Evrópu.

Þetta er prófsteinn á lýðræðis- og mannréttindaástina. En frjálslyndir og krataflokkar Evrópu fylkja sér sem einn á bak við valdaránið og stefnu Bandaríkjanna og ESB. Marine Le Pen snýst hins vegar ákveðið gegn hinni herskáu stefnu Vesturveldanna og segir hiklaust að þjónkun ESB við Bandaríkin hafi leitt til Úkraínudeilunnar.

Hvað um Ísland? Í vetur sýndi Gunnar Bragi Sveinsson vissa tilburði til sjálfstæðis í Úkraínudeilunni og gagnrýndi Evrópusambandið en síðan tók hentistefna Framsóknar sig upp og hann hefur kosið að ganga í takt við Vesturveldin. Hvað segja vinstri flokkarnir? Ekki eitt einasta orð.

 

Flokkar: Bloggar · Dægurmál · Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 26.5.2014 - 14:43 - FB ummæli ()

Svokölluð Evrópuhugsjón er lömuð

Úrslit kosninga til ESB-þingsins sýna að sú stefna sem hefur verið ríkjandi hjá flokkum sem eru fylgjandi frekari samruma hefur beðið skipbrot. Sigur Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi er einn og sér algjört reiðarslag fyrir svokallaða Evrópuhugsjón.

Í Frakklandi, Bretlandi og Danmörku náðu þeir flokkar bestum árangri sem vilja sem minnst með ESB hafa að gera.  Meira en fjórði hver kjósandi kaus þessa flokka.

Niðurstöður kosninganna eru enn merkilegri vegna þess að fólk sem er á móti ESB-hugsuninni sér oftar en ekki lítinn tilgang í því að taka þátt í ESB-kosningum vegna áhrifaleysis þingsins. Nógu margir af þessum efasemdarkjósendum mættu samt til að þeir urðu ótvíræðir sigurvegarar kosninganna.

Fabian Zuleeg, yfirmaður Evrópustefnumiðstöðvar í Brussel, segir að niðurstaða kosninga til ESB-þingsins hafi í för með sér meiri háttar erfiðleika fyrir samrunaþróunina í Evrópu.

Það sem sameinar andstöðuflokkana, sem spanna í raun mest allt litrófið frá hægri til vinstri í pólitík, er andstaða við samrunaþróunina sem verið hefur í Evrópu. Niðurstöður kosninganna sýna að almenningur vill minna af sameiginlegum ESB-lögum, og minna af frjálsri för fjármagns og fólks.

Ýmsir fræðingar gera lítið úr vilja Evrópubúa og þessum flokkum með því að kalla þá „popúlístíska“. Niðurstaða kosninganna endurspeglar í raun aðeins vilja, óskir og væntingar stórs hluta íbúa Evrópu um betra líf og öðru vísi líf en boðið hefur veirð upp á af skrifræðisbákninu í Brussel.

Fólk vill ekki lengur búa við þá gjöreyðingu efnahagslífsns sem evran og sameiginleg efnahagsstjórn ESB hefur þvingað upp á stóran hluta álfunnar.

Þetta fólk er búið að fá nóg.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 18.5.2014 - 11:03 - FB ummæli ()

Vinstri menn þjóna þýsku auðvaldi

Vinstri menn hér á landi í dag þjóna þýsku auðvaldi sem hefur síðustu öldina leitast við að auka athafnarými sitt. Þetta er ein af ályktunum sem draga má af athyglisverðri grein sem Þórarinn Hjartarson ritaði á vef Vinstrivaktarinnar fyrir nokkru.

Greinin er hér endurbirt í heild sinni. 

 

Stórauðvaldið hefur almennt ekki mjög ákveðnar pólitískar skoðanir. Það styður einfaldlega þann pólitíska valkost sem tryggir best gróðann og þenslumöguleikana á hverjum tíma. Þess vegna tekur vald auðsins á sig ólíkar birtingarmyndir.

Tökum þýskt stórauðvald sem dæmi. Þegar þýskur iðnaðarkapítalismi komst til þroska eftir sameiningu Þýskalands á 19. öld markaðist tilvera hans af þröngu olnbogarými, af því skipting stórvelda á heiminum í formi nýlendna og áhrifasvæða var þá þegar langt komin. Þýskaland hafði komið seint að „borðinu“ svo misræmi var á milli gríðarmikils efnahagsstyrks þess og lítils olnbogarýmis. Í tímans rás hefur þýskt stórauðvald brugðist við þessari stöðu á talsvert mismunandi vegu. Samt er í því veruleg samfella.

Árið 1914. Í septembermánuði það ár þegar rúmur mánuður var liðinn af fyrra stríði – mánuður sem gekk Þjóðverjum mjög í vil – lagði Bethmann Hollweg Þýskalandskanslari fram styrjaldarmarkmiðin fyrir ríkisstjórn sína og næsta valdahring íSeptemberprógramminu. Þar stóð:

„Mynda þarf Miðevrópskt efnahagssamband og tollabandalag sem nái yfir Frakkland, Belgíu, Holland, Danmörku, Austurríki-Ungverjaland, Pólland og mögulega Ítalíu, Svíþjóð og Noreg. Sambandið mun líklegast verða án sameiginlegs stjórskipunarlegs stjórnvalds og hafa yfirbragð jafnréttis meðal þátttakenda, þó það verði í reynd undir þýskri forustu, og verði að tryggja ráðandi stöðu Þýskalands í Mið-Evrópu.“

Skömmu síðar snérist stríðsgæfan á móti Þjóðverjum og stríðsmarkmiðin ýttust inn í framtíðina.

Árið 1933. Framan af höfðaði þýski Nasistaflokkurinn einkum til millistéttar en í djúpi kreppunnar 1932/33 vann hann tiltrú stórauðvaldsins. Það gerði flokkurinn einfaldlega með því setja hagsmuni þess í forgang: lofa harðri baráttu fyrir auknu landrými („lífsrými“, nokkuð sem var í stefnuskrá flokksins frá upphafi), með því að leggja fram áform um hervæðingu efnahagslífsins sem leið út úr kreppunni, ennfremur bjóða sig fram sem brjóstvörn gegn kommúnisma/sósíalisma og róttækri verkalýðshreyfingu.

Auðhringar Þýskalands mynduðu kjarnann í efnahagskerfi nasista og stuðningur þeirra var meginforsenda fyrir völdum flokksins. Það er siður að dylja þetta með því að lýsa Þýskalandi sem einræði illmennis. Stjórnarfar Nasistaflokksins var um margt sérstætt. Hugmynd nasista um „lífsrými“ var öðru vísi en Septemberprógrammið og gerði ráð fyrir opinskárri undirokun annarra (óæðri) þjóða. Samt var þetta stjórnarfar fyrst og fremst ein birtingarmynd á stéttarveldi þýsks auðvalds. Aðferðin skilaði gróða og landvinningum allt til Stalíngrað en snérist síðan í hamfarir. En hamfarirnar eru kapítalismanum hollar og lögðu grunn að nýju þýsku blómaskeiði.

Árið 2014. Þýskt auðvald – ásamt einkum því franska – hefur alla tíð verið forystuaflið í Evrópusamrunanum. Eftir því sem hnattvæðing viðskiptanna náði sér á flug, m.a. með falli Austurblokkarinnar hefur ESB orðið múrbrjótur hnattvæðingar í formi frjáls fjármagnsflæðis og flæðis vöru og vinnuafls á sameiginlegum evrópskum markaði. Djúp kreppa Rússlands á 10. áratugnum auðveldaði sókn ESB inn í Austur-Evrópu. Sambandið beitti eigin viðskiptamúrum gagnvart löndunum: Ef Austur-Evrópulönd vilja aukin viðskipti við ESB-markaðinn verða þau að ganga í ESB! Eftir það áttu svo auðhringar ESB ­- og sérstaklega Þýskalands – óhindraðan aðgang inn í þessi lönd.

ESB-svæðið er nú tvískipt, skiptist í kjarnsvæði norðan og vestanvert og jaðarsvæði í suðri og austri. Kjarninn – og Þýskaland sérstaklega – blæs út sem útflutningshagkerfi og lánveitandi en jaðarsvæðin verða undir í samkeppninni og verða hjálendur í skuldafjötrum. Fjármálaöflin í ESB setja hinum skuldugu löndum skilmálana, afsetja jafnvel ríkisstjórnir og setja sitt fólk í staðinn. „Samstarfssamningur“ sá sem ESB bauð Úkraínu í fyrra ber öll merki sömu útþenslustefnu, ekki síst sker hann mjög á hin nánu tengsl landsins við Rússland. Sjá grein mína um samstarfssamninginn:http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1382814/. Dæmið Úkraína sýnir líka að evrópskt stórauðvald styður fasista til valda ef nauðsyn krefur  til að tryggja gróða sinn og þenslumöguleika.

Það eru ekki grófar ýkjur að kalla Austur- og Suður-Evrópu efnahagslegan bakgarð Þýskalands. Það eru alls ekki grófar ýkjur að segja að þýska Septemberprógrammið frá 1914 sé orðið að veruleika.

 

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 13.5.2014 - 18:46 - FB ummæli ()

Klámhundum beitt fyrir ESB-vagninn

Íbúar Evrópu eru ekki hrifnir af evrunni. Þeir eru ekkert sérlega ánægðir með Evrópusambandið. Útlit er fyrir að þátttaka í kosningum til ESB-ráðgjafarþings verði lítil í lok þessa mánaðar. Hvað gera menn þá? Jú, Danir beita klámhundum fyrir kosningavagninn. Franskur stjórnmálamaður reyndi að telja ungum frönskum kjósendum trú um ágæti evrunnar og ESB með því að þeir geti farið óhindrað yfir landamærin til Þýskalands og keypt sig inn á klámmynd án þess að þurfa að kaupa þýsk mörk fyrst.

Hér að neðan getur að líta örstuttar fréttir af Heimssýnarvefnum um þetta með viðeigandi tilvísunum: 

 

Dóna- og ruddalegar ESB-kosningaauglýsingar

Ofbeldi og klám er notað til að lokka kjósendur á kjörstað í kosningum til ESB-ráðgjafarþingsins, en það hefur jú eins og flestir vita lítil völd. Dönum er mörgum mjög misboðið yfir ruddafenginni myndbands-auglýsingu sem birt hefur verið, en Eyjan.is greinir frá þessu.

Klámið virðist vera fleiri ESB-forkólfum hugleikið. Skammt er síðan franskur ESB-stjórnmálamaður reyndi að útskýra fyrir ungum frönskum kjósendum ágæti ESB og evru með því að nú gæti hann farið yfir til Þýskalands á klámbíó án þess að sýna vegabréf og hann gæti nú notað evrurnar sínar til að borga fyrir aðgöngumiða.

Ja, hérna!

 

Íbúar Evrópu treysta ekki ESB samkvæmt könnum

Hvernig má það vera að meirihluti íbúa ríkja Evrópusambandsins beri ekki traust til sambandsins eins og ný skoðanakönnun þess leiðir í ljós? Þannig er metið að alls 59% íbúa Evrópu treysti ekki sambandinu. Mest er vantraustið í garð ESB á Kýpur eða 74%.

 

Evrópubúar eru áhugalausir um ESB og evru

Evrópubúar eru almennt ekkert sérlega hrifnir af evrunni. Heil 43% prósent íbúanna vilja ekki hafa hana. Heil 65 prósent Pólverja vilja ekki sjá evruna en verða samt að taka hana upp fyrst þeir samþykktu aðildarsamning við ESB. 71 prósent Tékka vilja ekki taka evruna upp – en neyðast þó til þess.

Svona er ESB. Stór hluti Evrópubúa vilja ekki sjá það sem því fylgir.

 

70 prósent Norðmanna á móti aðild að ESB

Það er mikill og stöðugur meirihluti í Noregi gegn því að landið gangi í ESB. 70% vilja ekki ganga í ESB og aðeins 20% eru hlynnt því.

Mbl.is greinir frá þessu.

 

Helmingur Íslendinga á móti aðild að ESB – 57% þeirra sem taka afstöðu

Alls er um helmingur Íslendinga á móti aðild að Evrópusambandinu. Sé einungis tekið mið af þeim sem taka afstöðu eru 57% Íslendinga á móti aðild að ESB. Þetta kemur fram í nýlegri skoðanakönnun MMR. Þeim hefur fjölgað um hálft prósent sem eru á móti aðild að ESB. Óákveðnum hefur fækkað úr rúmum 17% í rúm 13% og þeim sem eru fylgjandi aðild hefur fjölgað úr rúmum 33% í rúm 37%.

Það er því stöðugur og öruggur meirihluti gegn því að Ísland gangi í ESB.

 

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 4.5.2014 - 16:31 - FB ummæli ()

Kosið um framtíð ESB

Kosið um framtíð ESB

Kosningar til ESB-þingsins snúast mest um framtíð ESB. Önnur mál fá litla athygli.

ESB-þingmenn eru vel launaðir en völd þeirra eru ekki í samræmi við það. Þeir geta ekki haft frumkvæði að lagasetningu heldur geta aðeins samþykkt það sem frá framkvæmdastjórninni og ráðherraráðinu kemur. Þetta áhrifaleysi þingsins er ein af ástæðum þess að Evrópubúar hafa fremur lítinn áhuga á kosningum til ESB-þingsins. 

Þingið býr við þær sérstöku aðstæður að þurfa að flytja starfsemi sína tvisvar í mánuði á milli Strasborgar og Brussel; 700 þingmenn, 5000 starfsmenn og gögn sem fylla átta stóra gáma en kostnaðurinn við flutningana er árlega sem svarar um 30 milljörðum króna. Það eru all margir flutningar á hverju fimm ára kjörtímabili.

Kosningaþátttakan til ESB-þingsins hefur minnkað stöðugt. Árið 1979 tóku 62% kosningabærra þátt, en þátttakan hefur minnkað stöðugt frá 1999 og var komin niður í 43% árið 2009. Kannanir benda til þess að þátttakan verði ekki meiri en 40% þegar kosningar fara fram í lok þessa mánaðar.

Það er erfitt að benda á sérstök kosningamál. Sænski íhaldsmaðurinn Christofer Fjellner sem býður sig fram í þriðja sinn segir að aðalmálið núna sé að koma í veg fyrir að ESB klofni. Í viðtali við sérútgáfu sænska blaðsins Dagens Industri í tilefni af ESB-kosningunum segir Fjellner að hann óttist afleiðingar þess að hluti ESB-landa muni taka þátt í bankabandalagi og setja á laggirnar sérstakan fjármagnsskatt á meðan annar hluti muni ekki taka þátt í slíkum aðgerðum. Fjellner óttast að frjálst flæði fjármagns geti orðið úr sögunni í Evrópu innan nokkurra ára, og svipuð gætu orðið örlög fyrir frjálsa för fólks.

Reyndar eru aðrir stjórnmálamenn, einkum á vinstri vængnum, mjög ósáttir við að ESB-reglur heimili innflutning á vinnuafli sem fær langtum lægri laun en fólk fær á heimamarkaði samkvæmt samningum. Jafnframt fylgir slíkum tilflutningum á verkafólki mikið félagslegt óréttlæti.

Hans Strandberg, blaðamaður Dagens Industri, segir í sérútgáfu blaðsins um ESB-kosningarnar að ESB hafi byrjað sem eins konar úrvalsverkefni (elitprojekt) fyrir forsætisráðherra, utanríkisráðherra og sendiráðsstarfsmenn. Starfsemin hafi þó verið takmörkuð í upphafi, en smám saman hafi hún bæði náð yfir fleiri verksvið og stærri svæði. Þátttakan í kosningunum sýni þó að þessi þróun hafi ekki haft almennan stuðning.

Vandamálið við kosningarnar til ESB-þingsins er í sumum löndum að það eru fyrst og fremst stuðningsmenn þeirra flokka sem bjóða fram sem taka þátt í kosningunum. Það fólk sem telur sig ekki neina sérstaka stuðningsmenn framboðsflokkanna situr fremur heima. Í venjulegum þingkosningum í heimalöndunum mætir þetta fólk frekar og merkir við einhvern flokkanna vegna þess að þar eru það þó frekar einhver málefni sem tekist er á um.

Í ESB-löndunum fer sem sagt fram kosningabarátta sem snýst að miklu leyti um framtíð ESB fremur en um einhver sérstök málefni. Sérstök málefni kveikja að jafnaði ekki í kjósendum í þessum kosningum. Það er kannski von til þess að stjórnmálamönnum og fjölmiðlum í álfunni takist að hífa aðeins upp þátttökuna ef hægt er að telja fólki trú um að kosningarnar snúist um framtíð ESB. Niðurstaðan kemur í ljós í lok þessa mánaðar.

(Byggt að miklu leyti á sérútgáfu Dagens Industri frá 16. Apríl 2014).

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 30.4.2014 - 19:54 - FB ummæli ()

Nei við ESB halda upp á fyrsta maí og bjóða í kaffi

esbneitakkHeimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild og Herjan, félag stúdenta gegn ESB-aðild, ganga saman 1. maí undir merkjum Nei við ESB.

Mæting er í gönguna við Hlemm kl. 13:00. Að göngu lokinni eru allir hjartanlega velkomnir í kaffi kl. 15:00-17:00 á skrifstofu Nei við ESB að Lækjartorgi 5. Gengið er inn frá Lækjartorgi og er skrifsofan á annarri hæð í lyftuhúsi.

Samtökin leggja áherslu á eftirfarandi:
  1. Við óskum launafólki til hamingju með hátíðisdag verkafólks.
  2. Á Íslandi teljum við það sjálfsagt að hafa vinnu.
  3. Í Evrópusambandinu eru yfir 27 milljónir manna án atvinnu.
  4. Við teljum hagsmunum verkafólks á Íslandi betur borgið utan Evrópusambandsins.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Nei við ESB - vefrit
Þau samtök sem standa að Nei við ESB eru Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, Ísafold, félag ungs fólks gegn ESB-aðild, Herjan, félag stúdenta í H.Í. gegn aðild að ESB, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð.

Slóðin að vefnum Nei við ESB er www.neiesb.is

Ábyrgðarmaður er Jón Bjarnason.
RSS straumur: RSS straumur