Sunnudagur 10.01.2016 - 20:45 - Lokað fyrir ummæli

„Við hjálpum ekki túristum,,

Nú fyrir helgi upplifði ég mjög sérstaka afstöðu bæði lögreglu og þjónustuaðila á sviði dráttarbílaþjónustu þegar erlendir túristar, sem voru með bílaleigubíl á vegum félags sem ég sit í stjórn fyrir, lentu í því að festa bifreiðina fjarri byggð. Túristarnir hringdu í lögregluna eftir aðstoð um 3 leytið að nóttu til þar sem þeir sátu fastir í bifreið sinni í snjó á sveitavegi. Lögreglan gaf þeim beint samband við bílaleiguna með þeim skilaboðum að þeir ættu að leita þangað eftir aðstoð. Þessi afstaða verður að teljast mjög sérstök sérstaklega þegar ekki lá skýrt fyrir hvar umræddir aðilar væru staðsettir og hefðu vel getað verið í aðstæðum sem væru þeim hættulegar. Starfsmaður bílaleigunnar leitaði svo aftur til lögreglu eftir aðstoð og skýringa en fékk þá það svar að þeir væru ekki í því að hjálpa túristum sem festu sig. Afstaða lögreglunnar var skýr, þeir myndu sækja fólkið ef það væri í hættu annars yrði það að finna út úr þessu sjálft eða starfsmenn bílaleigunnar. Þá var óskað eftir því að lögreglan í viðkomandi umdæmi benti á þjónustuaðila sem gæti aðstoðað því ljóst var að leita þyrfti aðstoðar í að finna ferðamennina um hánótt og um leið koma þeim til byggða. Var þá bent á dráttarbílafyrirtæki sem haft var samband við. Þegar haft var samband við viðkomandi þjónustuaðila þá var því svarað til að þeir hjálpuðu ekki túristum sem festu sig, það hefði verið svo mikið að gera hjá þeim í því að þeir væru hættir þessu. Sem sagt lögreglan vildi ekki hjálpa til né einkaaðili sem sérhæfði sig í að draga og sækja ökutæki því það hefði verið svo mikið að gera í því.

Ég spyr mig hvort þessi afstaða beri keim af hroka, allir vilja græða á túristunum en þegar þeir þurfa á aðstoð að halda þá mega þeir eiga sig af því þeir eru svo vitlausir og kunna ekki að keyra við íslenskar aðstæður. Væri ekki nær að hlúa að erlendu ferðafólki sem færir okkur gríðarlegar tekjur og erlendan gjaldeyrir, og gerði það í efnahagshruninu þegar fáar aðrar atvinnugreinar gátu skilað hagnaði. Við erum að opna landið fyrir ferðaþjónustu allt árið og því fylgir ábyrgð sem bæði einkaaðilar og opinberir aðilar verða að bera. Það liggur í hlutarins eðli að aðilar sem keyra við aðstæður sem þeir eru ekki vanir eru útsettari fyrir óhöppum fyrir vikið. Höfum í huga að ferðaþjónustan er atvinnugrein sem stækkar og stækkar með hverju árinu og stefnir hraðbyr í að verða jafnoki sjávarútvegsins ef ekki stærri. Hér skal ítrekað að umrædd bílaleiga ætlaðist ekki til að fólkinu yrði liðsinnt að kostnaðarlausu né voru ferðamennirnir utanvegar né á vanbúnu ökutæki. Niðurstaðan var sú að hóa þurfti saman mannskap á vegum bílaleigunnar til þess að finna fólkið og koma því til byggða. Í reynd voru þetta starfsmenn leigunnar sem tóku þetta að sér og kannski bara sjálfsagt en á móti kom að fólkið þurfti að hírast í bylmingskulda og svartamyrkri í meira en fjóra klukkutíma. Eflaust hefði það tekið ofangreinda fagaðila mun skemmri tíma til koma fólkinu til bjargar. Við megum ekki leyfa okkur svona vinnubrögð né afstöðu því allt svona spyrst út og hefur neikvæð áhrif á atvinnugrein sem er í eðli sínu mjög viðkvæm. Við verðum að sýna gestrisni og virðingu fyrir hinum erlendu gestum og ekki síst fyrir greininni í heild sinni.

Flokkar: Dægurmál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur