Þriðjudagur 05.01.2016 - 12:04 - Lokað fyrir ummæli

Frjálst mat skattyfirvalda

Meginreglan í skattarétti er að aðilum beri að greiða skatt af öllum tekjum sínum. Undantekningareglan er hins vegar sú að aðilar hafi heimild til að nýta frádráttarbæran rekstrarkostnað á móti tekjum og þannig lækka skattstofn sinn sem því nemur. Almanna reglan er að skattaðila ber að sýna fram á að frádráttarbær kostnaður sé tilkominn vegna tekjuöflunar í rekstri til að mynda með gögnum. Þrátt fyrir þessa reglu þá eru fordæmi fyrir því að kostnaður hafi verið metinn að álitum þegar kostnaðargögn liggja ekki fyrir. Er þetta t.a.m staðfest í dómi Hæstaréttar nr. 92/2000. Þar lágu gögn um ferða- og dvalarkostnað ekki fyrir en ljóst var að viðkomandi hafði haft kostnað vegna starfs síns og var hann því metinn að álitum.

Dæmi eru um það að skattyfirvöld fari ekki eftir þessu fordæmi Hæstaréttar og hafni kostnaði á móti tekjum. Er þetta sérstaklega bagalegt í þeim tilvikum þar sem t.d. aðilar vilja nýta kostnað vegna ferðalaga sem eru farin í þágu rekstrarins. Ljóst má vera að aðilar sem ferðast vegna rekstrar eða vinnu sinnar hafa af því kostnað sem þeir verða að hafa möguleika á að nýta í skattalegu tilliti. Aðilar verða að geta sýnt fram á að umrædd ferðalög nýtist í rekstri eða atvinnu þeirra. Tilvik eru til þar sem aðilar geta sýnt fram á að ferð sé farin vegna atvinnu eða rekstrar en hafa ekki haldið til haga öllum fylgigögnum hvað kostnað varðar. Þá á með réttu að nýta heimild til að meta þann kostnað að álitum en ekki að hafna öllum kostnaði eins og dæmi eru um.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur