Mánudagur 04.01.2016 - 20:34 - Lokað fyrir ummæli

Kjararáð á villigötum

Árið var vart byrjað þegar við heyrðum fréttir af hótunum verkalýðsfélaga um hörku í kjaramálum vegna nýlegrar ákvörðunar kjararáðs um hækkun launa embættismanna um hundruði þúsunda króna á mánuði. Það getur vart dulist neinum að þessi ákvörðun kemur illa við þjóðina og þeim sem minnst hafa að bíta og brenna í þessu samfélagi okkar. Hvers vegna fara menn svona illa að ráði sínu.

Á sama tíma og þetta er að gerast lýsa bæði fjármálaráðherra og forsætisráðherra því yfir að aldrei hafi verið gert meira fyrir öryrkja og aldraða í þessu landi. Hverja eru þeir að reyna að blekkja? Forsætisráðherra talar um það í nýársræðu sinni að þjóðin verði að vera bjartsýn og hætta að þrífast í neikvæðni. Hvaða þjóð er forsætisráðherra að ávarpa? Eru forráðamenn ríkisstjórnarinnar orðnir svona veruleikafirrtir.

Staðreyndin er jú sú að stór hluti af þjóðinni er ekki að fá útborgaða þá krónutölu fyrir fullan vinnudag sem hækkanir kjararáðs veita opinberum emættismönnum á silfurfati. Almenningur nýtur ekki þess að fá krónutöluhækkanir heldur eru honum skammtaðar launahækkanir í formi prósentu hækkana sem virka á allt annan máta. Það er í reynd ekki eðlilegt að embættismenn sem vinna í þágu almennings geti í skjóli kjararáðs skaffað sér lífskjör sem almenningi þessa lands er neitað um og að verið sé að búa til gjá milli embættismanna og almennings hvað lífskjör varða. Ríkisstjórnin segir sig úr vinskap og tengslum við þjóðina með því að viðhalda þessu kerfi. Það er kominn tími til að ráðmenn sýni gott fordæmi og endurskoði þetta kerfi í stað þess að ala á spennu og ójöfnuði.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur