Föstudagur 01.01.2016 - 14:30 - Lokað fyrir ummæli

Ísland, flóttamenn og verndun kynstofnsins

Eins og svo margir nú um jólin þá fékk ég bækur í jólagjöf. Ein þeirra bóka var bókin Stríðsárin 1938-1945 eftir Pál Baldvin Baldvinsson. Hér er um mjög vandað verk að ræða og höfundi til mikils sóma. Í bókinni er að finna mikinn fróðleik um aðstæður á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni.

Það sem ég hjó eftir í bókinni er umfjöllun um umsókn flóttamanna frá Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni af gyðingaættum. Virðist sem að flestum flóttamönnum sem hingað vildu koma í seinna stríði og flýja ofsókn nasista hafi verið hafnað um landvistarleyfi hér á landi af íslenskum stjórnvöldum. Virðist sem ótti við blöndun hins hreinræktaða íslenska kynstofns hafi valdið ráðamönnum þjóðarinnar miklum áhyggjum. Er til dæmis vitnað í íslenskan vísindamann um að jafnvel blöndum við ekki fleiri en 50 gyðinga gæti valdið miklum skaða á íslenska kynstofninum á ekki lengri tíma en 2-3 mannsöldrum. Á sama tíma voru börn íslenskra ráðamanna þáttakendur og samverkamenn nasista í Evrópu í voðaverkum þeirra.

Frá örófi alda hefur mikil fóbía verið í íslenskri þjóðarsál fyrir blöndun hins svokallaða íslenska kynstofns við erlend þjóðerni og mikill áróður fyrir því að koma í veg fyrir allt sem geti stuðlað að óæskilegum tengslum við allt sem erlent er. Jafnvel í dag má heyra slíkar raddir og tala sumir ráðamenn gegn öllu sem erlent er hvort sem það er í formi samvinnu við erlend stjórnmálabandalög eða hælisleitenda sem eru að reyna að komast undan stríðsógn. Þrátt fyrir það að Íslendingar hafi frá fornu fari átt allt sitt undir samvinnu við þjóðir heimsins. Öll sú menntun og uppbygging sem hefur orðið á Íslandi hefur í reynd að miklu leiti verið samvinnu við erlend ríki að þakka. Hvar væri þessi þjóð án þeirra samvinnu? Hvar væri heimurinn án friðsamlegrar samvinnu þjóðanna?

Nú á tímum sjáum við sama mynstur, hatursumræða gegn flóttamönnum og því fólki sem leitar á náðir okkar til að flýja hörmungar, ekkert megi gefa eftir í viðleitni til að vernda þennan kynstofn, hinn íslenska kynstofn, landnámsstofninn. Umræðan í dag er á þá leið að allt muni hér hrynja ef við leyfum okkur hleypa flóttafólki inn í landið. Umræðan er í reynd ekkert ólík því sem átti sér stað hér í seinni heimsstyrjöldinni. Rétt eins og þá taka ýmsir ráðamenn þátt í þeirri umfjöllun og því miður virðist þröngsýni og fáfræði stundum ráða þar för.  Íslendingar verða líkt og aðrar þjóðir álfunnar, nú síðast Frakkar, að gera upp sína þátttöku í ofsóknum gegn gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Synjun íslenskra ráðamanna þá um að veita gyðingum landvistarleyfi kann að hafa skilið á milli lífs og dauða í einhverjum tilvikum. Getur verið að hið sama eigi við í dag í tilvikum þeirra sem nú sækja hér um hæli. Við sem þjóð og þátttakendur í samfélagi þjóða verðum að axla ábyrgð og leggja okkar af mörkum. Liður í því er að gera upp fortíðina og hætta að endurtaka sömu mistökin.

Flokkar: Dægurmál

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur