Fimmtudagur 15.10.2015 - 15:05 - Lokað fyrir ummæli

Ekkert heilagt

Það fer enginn varhluta af því, sem á annað borð fylgist eitthvað með umræðunni á netinu, hvað hún getur verið óvægin og ómálefnaleg á köflum og hreint og beint einkennst af eineltistilburðum. Svo virðist sem fjöldi fólks finnist því leyfast að segja nánast hvað sem er á netinu og virðast litlar hömlur vera því í vegi að fólki láti hvað sem er flakka í þessum svokölluðu bloggheimum. Seint verður hægt að fallast á það að umræðan sé alltaf málefnaleg og að skoðanir fólks fái að njóta sín, hvað þá að borin sé virðing fyrir mismunandi skoðunum.

Að undanförnu hef ég fyrir hönd stjórnenda útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu fylgst með umræðunni um stöðina og forsvarsmenn hennar og má með sanni sega að sú umræða er komin út fyrir öll velsæmismörk. Eitt er að vera ósammála um málefni og hafa ólíkar skoðanir, það er eðlilegt og nauðsynlegt í lýðræðisríki og grundvöllur þess að hægt sé að eiga rökræn skoðanaskipti. En það er annað mál að úthrópa fólki fyrir skoðanir sínar, slíkt á sér engan stað í lýðræðislegri umræðu. Það á vitaskuld að bera virðingu fyrir skoðunum fólks, þótt þær kunni að vera ólíkar, og sé maður ósammála þá mætir maður þeim með málefnalegir gagnrýni og rökum. Það er ekki boðlegt í lýðræðislegri umræðu að ráðast með óvægnum og meiðandi hætti á persónu þess sem hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur, þaðan af síður að gera öðrum upp skoðanir. Hvaða tilgangi þjónar það að þagga niður í fólki með slíku ofbeldi? Er það gert í þágu almannaheill eða lýðræðis?

Það hefur tíðkast í þessu sambandi að fela sig á bak við tjáningarfrelsið eins og það feli í sér einhvern rétt til þess að segja hvað sem er án ábyrgðar. Það gleymist aftur á móti að frelsi fylgir ábyrgð. Í 73. gr. stjórnarskrá lýðveldisins segir orðrétt: Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Þetta tvennt verður ekki aðskilið. Það er nefnilega ekki hægt að ætla sér að nýta frelsið en bera enga ábyrgð, ef þú ætlar að nýta annað þá verður þú að gangast við hinu. Það er nefnilega ekki hægt að fela sig á bak við tjáningarfrelsið til að komast undan ábyrgð.

Stjórnendur útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu hafa falið mér að sækja þá til ábyrgðar sem harðast hafa gengið fram gegn persónum þeirra með óvægnum og ómálefnalegum hætti. Það á ekki að líðast í lýðræðisríki að fólk þurfi að sitja undir persónulegum árásum á opinberum vettvangi eins og internetinu og þurfa að þola særandi og ærumeiðandi ummæli ítrekað. Það er partur af eðlilegum samskiptum að hver og einn íhugi framgöngu sína og hvaða áhrif orð geta haft á fólk þegar talað er um persónu þess og ekki síst hvaða áhrif það getur haft á fjölskyldur þeirra og aðstandendur. Skiptir engu hvort um opinbera persónu sé að ræða eða ekki, aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Flokkar: Lögfræði

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur