Sunnudagur 27.09.2015 - 17:27 - Lokað fyrir ummæli

Ólöf og séra Ólöf

Í liðinni viku var fjallað um svokallað samviskufrelsi presta þegar kemur að hjónavígslu para af sama kyni með kirkjulegri athöfn. Eins komið hefur fram gilda engar reglur um samviskufrelsi presta innan þjóðkirjunnar sem heimila þeim að neita fólki um þjónustu á grundvelli kynhneigðar. Innan kirkjunnar hafa aðilar aftur á móti talað fyrir því að prestar eigi slíkan rétt til að neita að gifta samkynhneigða ef trúarleg sannfæring þeirra leyfir þeim það ekki. Þetta er að mínu mati alveg ótækt enda gengur það ekki upp að kirkjan sé að mismuna fólki með þessum hætti. Líta verður jú til þess að kirkjan hefur verið að taka til í sínum ranni á ýmsum vígstöðvum, þ.m.t. afstöðu til samkynhneigðra. En betur má ef duga skal.

Mismunun á grundvelli kynhneigðar stenst ekki í dag hvorki af trúarlegum ástæðum eða lagalegum. Stjórnarskráin tekur á slíku og er rétthærri en starfsreglur þjóðkirkjunnar. Kirkjan er jú opinber stofnun sem þjónar þjóðinni og er henni skipaður slíkur formlegur sess í lögum. Hún er rekinn fyrri almanna fé og starfsmenn hennar eru opinberir starfsmenn lögum samkvæmt og hafa sem slíkir skyldum að gegna. Opinberum starfsmönnum er lögum samkvæmt ekki heimilt að mismuna einstaklingum með þessum hætti þó svo að slík mismunum finnist í hjúskaparlögum en hér er misræmi sem verður að lagfæra.

Á sínum tíma talaði Ólöf Nordal, núverandi innanríkisráðherra, fyrir því að tryggja ætti rétt presta til að neita að gefa tvo einstaklinga af sama kyni saman ef það færi gegn trúarlegri sannfæringu þeirra. Þetta er ahyglisvert í ljósi nýlegra frétta þar sem ráðherran lætur hafa eftir sér að tilefni sé til að endurskoða reglur um skipan dómara hér á landi. Var ráðherran að vísa til umfjöllunar hæfisnefndar sem metur hæfi umsækjenda til að gegna stöðu hæstaréttardómara. Gagnrýndi ráðherran að nefndin tæki ekki tillit til jafnréttissjónarmiða og taldi Ólöf mikilvægt að tekið væri tillit til þess sjónarmiðs að Hæstiréttur endurspeglaði samfélagið. Hér er virðulegum ráðherra umhugað um jafnrétti og að opinberar stofnanir endurspegli samfélagið. Manni er spurn hversu langt nær þessi afstaða ráðherrans til jafréttis og mannréttinda þegar hún hefur t.d. talað fyrir mismunun innan þjóðkirkjunnar gagnvart minnihlutahópum innan samfélagsins. Er í lagi að mismuna samkynhneigðum en ekki konum?

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur