Miðvikudagur 02.09.2015 - 16:29 - Lokað fyrir ummæli

Landsbankinn og Bjarnabófarnir

Þær eru margar sögurnar sem við heyrum af samskiptum banka hér á landi við viðskiptavini sína. Oftar en ekki hafa þær verði á neikvæðum nótum eftir hrunið. Eitt sérstakasta tilvik sem ég hef komið að varðaði ósköp venjulegan einstakling sem hafði sett sparifé sitt í hlutabréf hjá Landsbanka Íslands. Í águst 2008 ætlaði hann að selja bréfin til að rétta nákomnum ættingja hjálparhönd. Þá vildi Landsbankinn alls ekki leyfa honum að selja af því hann myndi tapa svo miklu á því. Í staðinn var Landsbankinn tilbúinn að veita honum erlent lán með veði í hlutabréfunum og bankinn taldi þessa ráðstofun mikla ráðdeild. Umbjóðandi minn var aftur á móti tvístígandi yfir þessu en lét til leiðast eftir mikið tiltal af sérfræðingum bankans enda var honum talin trú um að bréfin myndu hækka í verði. Blekið var ekki þornað á þessum gerningi þegar umbjóðandi minn var beðinn um að leggja fram meiri ábyrgðir fyrir þessu erlenda láni sem hann og gerði í þeirri trú að bankinn væri að ráða honum heilt. Þetta var korter í hrun eins og maður segir. Við vitum svo öll hvað gerðist næst.

Síðar leiddi rannsóknarnefnd Alþingis það í ljós að á umræddum tíma beittu stóru bankarnir þrír alls konar vafasömum bellibrögðum til þess að búa til falska glansmynd af bönkunum og var Landsbankinn þar engin undantekning. Verð hlutabréfa í bönkunum spilaði hér stóra rullu og reyndu bankarnir að halda því eins háu og mögulegt var. Þeir keyptu bréf í sjálfum sér upp í hámark eins og lög leyfa og beittu sér fyrir því að aðrir keyptu líka bréf í bönkunum. Þar skipti engu hver kom að borðinu, öllum var ráðlagt að kaupa í sínum banka og ef einhver var tregur til þá fékk hann bara lán eins og hendi væri veifað til að fjármagna viðskiptin. Um hagsmuni hverra var verið að hugsa þegar þessari pez-kalla ráðgjöf var dælt út korteri fyrir hrun? Svarið liggur í augum uppi. En fyrir þá sem ekki vilja sjá þá kom svarið í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nú í sumar þegar þeir Kaupþingsmenn voru dæmdir fyrir umboðssvik og stórfellda markaðsmisnotkun.

Í hverju fólst þessi stórfellda markaðsmisnotkun? Jú einmitt í því að reyna að fikta í verðmyndun eigin hlutabréfa með hinum ýmsu brellum. Deild eigin viðskipta í bankanum hafi einmitt áttað sig á því að meira framboð var af bréfum bankans en eftirspurn en til að halda verðinu uppi tók deildin í stórum stíl þátt í nafnlausum tilboðum í eigin bréf í kauphöll án þess að kaupa samt, bara til að hækka verðið. Annað sem bankinn gerði og var dæmt fyrir var að selja sín eigin hlutbréf með blekkingum og sýndarmennsku sem m.a. fólst í því að láta ranglega líta út að kaupendur væru að kaupa í bankanum en í raun var bankinn að fjármagna kaupin að fullu og hann einn bar alla markaðsáhættu, bara til að hækka verðið.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur skýrt og skýlaust fram að á umræddum tíma hafi bankarnir vitað í hvað stefndi. Í skýrslunni kemur líka fram að á sama tíma voru stóru bankarnir þrír að taka stöðu gegn krónunni og þar með gegn almenningi í landinu líka, almenningi sem þeir voru búnir að taka veð í að fullu fyrir hlutabréfum sem þeir prönguðu inn á almenning eftir að hafa falsað verð þeirra með bellibrögðum.

Það er deginum ljósara, bæði af rannsóknarskýrslu Alþingis og ekki síst fyrrgreindum dómi Héraðsdóms nú í sumar, að Landsbankinn vissi upp á hár í hvað stefndi í ágúst 2008. Það að telja umbjóðanda mínum trú um að það væri honum í hag að halda í hlutabréfin í bankanum og taka myntkörfulán í ofaná lag getur ekki verið annað en lögbrot. Réttast væri að umræddir starfsmenn væru dregnir til ábyrgða með sama hætti og gert var við þá Kaupþingsmenn.

En ábyrgðin liggur víðar. Nýji Landsbankinn, sem reis með undraverðum hætti eins og Fönix upp úr ösku þess gamla, ætlar sér enn í dag að innheimta kröfur að fullu á hendur þessa manni sem þeir sjálfir ýttu út í þessi glórulausu bréfakaup með ólögmætum hætti. Þegar umbjóðandi minn reyndi svo að leita réttar síns fyrir dómi og skoraði á bankann að leggja fram hljóðupptökur af símtölum þeirra á milli þá fundust þær ekki í bankanum, sönnunargögnin höfðu óvart týnst. Þetta minnir óþægilega á afsökunina um hundinn sem át heimalærdóminn. Það mætti halda sem svo að bankinn hefði viljandi týnt þeim sönnunargögnum sem honum voru í óhag. Hvert er siðferði þessa nýja Landsbanka? Landsbanka sem kominn er í ríkiseigu. Hver er siðferði stjórnvalda, ráðherra og þingmanna, sem sitja nú með hendur í skauti og græða á svikamyllu gömlu bankanna með því að halda svona kröfu til streitu?

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur