Laugardagur 20.06.2015 - 13:03 - Lokað fyrir ummæli

Réttlát málsmeðferð fyrir dómi

Það hefur gengið á mörgu í okkar litla þjóðfélagi síðustu árin og víða reynt á styrk okkar. Við höfum státað okkur af sterkum innviðum samfélags okkar, þ.á m. réttakerfi okkar þó skóinn kreppi þar á sem og annars staðar. Ég hef áður í pistlum mínum reynt að vekja athygli á því sem mér þykir mega betur fara og athuga t.d í dómskerfinu. Þegar kemur að rekstri dómsmála þá þurfa jú sumir að lúta í lægri hlut á meðan aðrir hafa betur. Slíkt er jú raunin en þegar manni finnst úrvinnsla máls af hendi t.d dómara vera með þeim hætti að það veki spurningar um ástands dómsstóla í okkar réttarríki þá fara ýmsar viðvörunarbjöllur að hringja.

Fyrir skemmstu var ég að verja aðila í sakamáli þar sem að mínum dómi voru litlar forsendur til að ætla að viðkomandi væri sekur af því sem hann var ákærður fyrir. Var veikum og óljósum sönnunargögnum til að dreifa í málinu gegn umbjóðanda mínum þótt það kunni að hafa horft öðruvísi við hjá ákæruvaldinu. Hvað sem því líður var viðkomandi sakborningur því miður sakfelldur.

Við uppkvaðningu dómsins gerðist atvik sem ég hef ekki áður lent í og ég tel alvarlegt brot á reglunni um réttláta málsmeðferð. Við uppkvaðningu tók dómarinn það fram að dómurinn væri ekki tilbúinn vegna veikinda aðstoðarmanns og því þyrfti að gefa út endurrit sem var ein blaðsíða þar sem fram kom að umbjóðandi minn væri sekur og hver þóknun lögmanns yrði. Var svo lögmanninum tjáð að hann fengi tilkynningu um þegar dómurinn væri tilbúinn. Þetta hafði þau áhrif að undirritaður gat með engu móti útskýrt fyrir hinum dæmda á hvaða forsendum hann væri dæmdur sekur. Eina sem ég gat sagt var hver þóknun mín væri fyrir málið og að hann væri sekur fundinn samkvæmt dómi sem ekki var búið að gefa út. Nú er meira en vika liðin og enn er dómurinn óbirtur.

Það sjá það allir sem vilja sjá að svona gengur ekki upp. Að ætla að það sé eðlilegt að fólk bíði í óvissu sem þessari um hvers vegna það er dæmt er ólíðandi. Það að viðkomandi fái eingöngu að vita að hann sé sekur en ekki á hvaða forsendum er með öllu í andstöðu við eina af grundvallarreglum mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð. Þrátt fyrir skýringar dómara um ástæður fyrir slíkum vinnubrögðum þá er ekki hægt að líða svona lagað í jafn íþyngjandi og alvarlegum málum sem þessum.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Sævar Þór Jónsson
Höfundur starfar sem lögmaður í Reykjavík og situr í stjórnum ýmissa samtaka og fyrirtækja. Er einn af eigendum lögmannsstofunar Lögmenn Sundagörðum.
RSS straumur: RSS straumur