Þriðjudagur 9.12.2014 - 16:41 - FB ummæli ()

Skattahækkunin þolir enga bið

Frumvarp um nýjan náttúrupassaskatt er fyrirtaks dæmi um hvernig ríkið þenst meira og meira út svo í óefni stefnir. Ráðherra segir að náttúran þoli enga bið, það verði að láta ferðamennina borga fyrir viðhald hennar vegna þess að Íslendingar hafi hingað til þurft að greiða þann kostnað. Þetta er satt ef ekki er tekið með í reikninginn að ferðamenn komu með meiri gjaldeyri inn í landið í fyrra en álið og fiskurinn. Drjúgur hluti hans rennur til ríkisins, beint og óbeint. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði ráðherra einfaldlega hlúð að gæsinni sem verpir gulleggjunum í stað þess að fara þessa óheillaleið sem er ávísun á mismunun, sóun og spillingu og kemur auk þess til með að skaða samkeppnisstöðu Íslands.

Það er frekar dapurlegt að verða vitni að því að Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í þessari trylltu útþennslustefnu sem smám saman er að lama hagkerfið. Ef kjósendur eiga ekki skjól þar, þá hvar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 7.12.2014 - 17:21 - FB ummæli ()

Hvað hefði Alfreð gert?

AlfredEliasson55-59VissiHvadHannSong

Stefna Alfreðs Elíassonar skilaði góðum árangri.

Alfreð Elíasson stofnandi og forstjóri Loftleiða áttaði sig snemma á því að með lágu fargjaldi og betri sætanýtingu væri hægt að skapa jafn mikil eða meiri verðmæti en með háu fargjaldi og verri sætanýtingu. Sú stefna gerði Loftleiðir m.a. að stærsta fyrirtæki landsins á sínum tíma. Loftleiðir „aflaði“ t.d. meira en íslenski togaraflotinn samanlagður 1968.

Ímyndum okkur í gamni að Ísland væri ferðaþjónustufyrirtæki og Alfreð Elíasson forstjóri þess. Hver væri líkleg stefna hans?

Vafalaust myndi Alfreð sjá til þess að aðgengi að landinu væri eins gott og frekast er kostur. Það er að segja flug, gisting, náttúrurperlur og annað ekki skattlagt sérstaklega (enda samkeppnin hörð). Hann myndi bjóða alla ferðamenn velkomna til landsins, ekki bara þá sem eru ríkir, rétt eins og Loftleiðamenn buðu ungt fólk og fátækt velkomið um borð með lágum fargjöldum. Röksemdafærsla Alfreðs væri sú að lægri þröskuldar skiluðu betri „sætanýtingu“ á hótelum, gistiheimilum, veitingastöðum, í leigubílum, rútum og ráðstefnusölum og þar af leiðandi meiri tekjum en hærri þröskuldar og verri sætanýting. Góð sætanýting skapar auk þess skemmtilega stemmningu og spyrst hraðar út. Það var einatt frábær andi um borð í Loftleiðavélunum; leikið á gítar og sungið, sagðar sögur og farið með gamanmál. Slagorðið gæti verið: Ísland fyrir alla!

Hvar sem ferðamaður drepur niður fæti á Íslandi greiðir hann skatta og gjöld, bæði beint og óbeint. Í stað þess að brydda upp á nýjum og nýjum sköttum (eins og umsvif ríkisins séu ekki orðin næg nú þegar) ætti ferðamálaráðherra fyrir hönd íslensku þjóðarinnar að þakka erlendum gestum kærlega fyrir komuna og tekjurnar með því að bæta aðstöðu (fjölga „sætum“) við náttúruperlur eins og Þingvelli og Gullfoss.

Miðað við hvað stefna Alfreðs Elíassonar hjá Loftleiðum skilaði góðum árangri eru talsverðar líkur á að frekari útfærsla á henni í ferðaþjónustu myndi gefa góða raun. Hann var jú einn af frumkvöðlum Íslands í ferðaþjónustu; kom ásamt sínum samhenta Loftleiðahópi Íslandi „á kortið“ eins og sagt er.

1918Only1Lagfargjald

Loftleiðir auglýstu svo ekki fór á milli mála að þeir buðu lægri verð. Ísland gæti gert það sama. Auglýsingatextinn gæti verið: Komið til Íslands. Það er ódýrt og skemmtilegt!

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.11.2014 - 17:49 - FB ummæli ()

Konan í vagninum. Aftur!

Áður en ég áttaði mig var sama gamla kerlingin sem móðgaði mig um daginn sest við hliðina á mér. Ég bölvaði mér í hljóði fyrir að hafa ekki einhvern veginn tekist að koma í veg fyrir það.

„Ertu í yfirstétt, millistétt eða lágstétt?“ spurði konan.

Hún var greinilega búin að gleyma að hún hafði spurt mig að þessu sama fyrir nokkrum vikum og benti henni á það. Komin með alsheimer, greyið, hugsaði ég.

„Ég veit það, Kalli,“ sagði hún.

„Ég heiti ekki Kalli,“ sagði ég.

„Svaraðu nú spurningunni,“ sagði hún.

„Hvaða spurningu?“ spurði ég.

„Nú, um hvort þú ert í yfirstétt, millistétt eða lágstétt.“

Hún ætlaði greinilega ekki að gefast upp á þessu stéttarkjaftæði. Ég ákvað að þagga niður í henni í eitt skipti fyrir öll. „Ég er af verkafólki kominn í báðar ættir. Pabbi minn var vörubílstjóri og mamma vann í fiski. Föðurafi minn var einn af stofnendum Kommúnistaflokksins. Sjálfur er ég menntaður húsasmiður. Þetta ætti að úrskýra fyrir þér hvaða stétt ég tilheyri.“

Konan horfði þögul framfyrir sig meðan ég hló sigri hrósandi í huganum.

„Hvað finnst þér um Mannanafnanefnd og lög um mannanöfn?“ sagði konan þegar hún fékk málið aftur.

Ég virti hana fyrir mér. Hvað er hún að fara með þessu? Er hún að reyna að plata mig eða er þetta heiðarleg spurning? Ég ákvað að svara henni heiðarlega óháð því hvað bjó að baki ef það bjó þá eitthvað að baki. 

„Ég er sáttur við þau vegna þess að ég tel að okkur sem samfélagi beri skylda til að vernda börnin gegn – ég vona að þú fyrigefir mér orðbragðið – klikkuðum eða heimskum foreldrum. Ég held að það þurfi að vera einhverjar reglur um þetta vegna þess að annars myndu margir nefna börnin sín nöfnum sem verða þeim fjötur um fót þegar þau vaxa úr grasi. Þau gætu til dæmis orðið fyrir einelti og ekki viljum við það.“

„Þekkir þú einhverja foreldra sem myndu gefa börnum sínum óviðeigandi nöfn ef það væri leyft?“ sagði hún.

„Að vísu ekki,“ sagði ég sem satt var. „En það er örugglega fólk vítt og breitt um samfélagið sem myndi gera slíkar gloríur ef það fengi fullt frelsi til.“

„En hvað um ættarnöfnin?“ spurði hún. „Finnst þér að það eigi að leyfa þau aftur?“

„Það er gott að þú nefnir ættarnöfnin vegna þess að þau eru hin ástæðan fyrir því að ég tel að við eigum að hafa lög um mannanöfn í landinu. Fornafnasiðurinn er bara til staðar á Íslandi og í einhverjum Afríkuríkjum sem ég man ekki hver eru í svipinn. Við verðum að verja málið okkar fagra og siði okkar og venjur fyrir tískusveiflum frá útlöndum. Ef lögin hefðu ekki verið sett á sínum tíma væri fornafnasiðurinn útdauður í landinu.“

„Nú hefurðu staðfest í annað skipti hvaða stétt þú tilheyrir,“ sagði konan.

„Hversvegna ertu að tönnlast á þessu?“ sagði ég. „Ég hélt að ég hefði útskýrt fyrir þér á einföldu og skiljanlegu máli hvaða stétt ég tilheyri.“

„Það má vel vera að þú teljir þig tilheyra lágstéttinni eða millistéttinni,“ sagði kerlingin, „en viðhorf þín sýna svo ekki verður um villst að þú ert í yfirstéttinni, aðlinum.“

„Aðlinum!“ Hváði ég.

„Af skoðunum þínum um mannanafnalögin að dæma telurðu þig yfir aðra hafna og vilt takmarka frelsi samlanda þinna til orðs og æðis. Þetta eru dæmigerð sjónarmið yfirstéttarfólks.“

„Þú misskilur mig hrapallega,“ sagði ég. „Ég er einungis að hugsa um málið og börnin.“

„Sú vernd má ekki vera á kostnað jafnréttisákvæða stjórnarskrárinnar,“ sagði konan.

„Ég tek börnin fram yfir stjórnarskrána,“ sagði ég.

„Þú styður mannréttindabrot,“ sagði hún.

„Hvernig get ég stutt mannréttindabrot ef ég er félagi í Amnesty International?“ sagði ég.

„Þá þarftu að athuga þinn gang,“ sagði hún.

Og þú ert bara klikkuð kerling í ljótri kápu, hugsaði ég.

„Við verðum seint sammála um þetta,“ sagði konan. „En nú ætti þér að vera ljóst að stéttskipting hefur ekkert með það að gera hvort þú ert ólærður starfskraftur eða lærður starfskraftur eða af kommúnistum kominn. Hún er hugarástand. Ef þú treystir ekki samlöndum þínum til að hafa vit fyrir sjálfum sér ertu sjálfkrafa að hafa þig yfir þá.“

„Og þér er alveg sama um menningararf íslensku þjóðarinnar,“ sagði ég.

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 19.11.2014 - 20:07 - FB ummæli ()

Ekki þá – ekki nú

Jónas Sveinsson læknir (1895-1967) kom við í Basel í Sviss 1950 á ferðalagi til Austurríkis. Um Sviss skrifar Jónas:

„Þar er allt frjálst, jafnvel gjaldreyririnn. Þar fást keyptar og þar eru seldar myntir allra landa. Við gerðum það að gamni okkar að fara inn í einn bankann og rétta fram einn hundrað krónu seðil íslenskan. Tekið var við seðlinum með mikilli kurteisi, og látbragð mannsins var þannig að við bjuggumst við að það ótrúlega myndi ske að seðillinn yrði keyptur. Sást nú til mannsins að flett var upp í mikilli bók og blaðað lengi. Datt mér í hug frásögnin um prestinn á Bunuvöllum. „Skrattinn leitaði og leitaði að Bunuvallafólkinu, en fann hvergi og var það innritað.“ Og eins fór hér. Manngreyið afsakaði sig á allar lundir og botnaði ekki neitt í neinu. Fórum við að einu leyti sigri hrósandi af hans fundi: Hann hélt sem sé að þetta væri einhver feill hjá bankanum.“

Flokkar: Óflokkað · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 10.11.2014 - 17:02 - FB ummæli ()

Gamla konan í vagninum

„Ertu í yfirstétt, millistétt eða lágstétt?“ spurði gömul kona sem sat við hliðina á mér í strætisvagninum.

„Ertu að tala við mig?“ spurði ég.

„Já, ég er að tala við þig,“ sagði hún og endurtók spurninguna.

„Ég veit það ekki,“ sagði ég. „Er stéttskiptingarhugtakið ekki bara gamall misskilningur sem hefur enga raunverulega merkingu?“

„Öðru nær,“ sagði konan. „Stéttskipting er mjög áberandi í samfélaginu, en hún er ef til vill ekki eftir sömu línum og flestir telja.“

„Hvernig þá?“ spurði ég.

„Ég get til dæmis ekki farið út í næstu kjörbúð og keypt mér rauðvín, bjór eða viskí,“ sagði konan. „Það er dæmigerð yfirstéttakúgun. Hversvegna má ég ekki ákveða sjálf hvar og hvenær ég kaupi áfengi?“

„Þú misskilur,“ sagði ég. „Það er ekki kúgun. Það er verið að vernda æskuna með þessum reglum. Æskuna sem kann ekki fótum sínum forráð.“

„Hefur þú farið í áfengismeðferð?“ sagði hún.

Ég játti því með stolti, enda verið án áfengis í fimmtán ár og 245 daga.

„Lést þú eitthvað stoppa þig þegar þig langaði að detta í það?“ sagði hún.

„Nei, en það var öðruvísi,“ sagði ég. „Það var þegar bjórinn var bannaður og eina sem var í boði var rauðvín, hvítvín, vodka og íslenskt brennivín.“

„Hvernig stóð á því að bjórinn var bannaður?“ spurði hún.

„Nú auðvitað til að vernda æskuna,“ svaraði ég, „æskuna sem kunni fótum sínum ekki forráð og svo auðvitað öllum hinum sem kunna ekki með vín að fara.“

„Ert þú fylgjandi því að ríkiseinkasala á áfengi verði lögð niður?“ spurði hún.

„Áfengi er böl og til að stemma stigu við þessu böli verður að hafa sölu á einni hendi og skatta duglega. Háir skattar, takmarkað framboð og slæmt aðgengi draga úr drykkju. Rannsóknir sýna það.“

„Lést þú háa skatta og takmarkað framboð stoppa þig þegar þú varst virkur?“ spurði hún.

„Að vísu ekki,“ svaraði ég, „en ég var alkóhólisti og þeir láta ekkert stoppa sig.“

„Þakka þér fyrir,“ sagði hún. „Nú veit ég í hvaða stétt þú ert.“

„Og hvaða stétt er það?“ sagði ég.

„Þú ert í yfirstéttinni.“

„Hvernig geturðu sagt þetta?“ sagði ég hneykslaður. „Ferðast yfirstéttin kannski með strætó?“

„Þeir sem vilja ráðskast með fullorðið og sjálfráða fólk með boðum og bönnum hljóta að teljast til yfirstéttarinnar,“ sagði konan. „Er það ekki annars fyrirtaks skilgreining á yfirstétt að hún sé sá þjóðfélagshópur sem kúgar aðra til að falla að sinni heimsmynd og hugmyndum um réttlæti og misnotar lagavaldið til að framfylgja því?“

Það fauk í mig. „Það ætti að banna skilningslausum kerlingum eins og þér að ferðast með strætó,“ sagði ég – en þó ekki fyrr en ég var á leið út úr vagninum.

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 31.10.2014 - 22:47 - FB ummæli ()

Lukkunnar velstand

Nú heyri ég talað um að allt sé í lukkunnar velstandi í efnahagsmálum, atvinnuleysi á niðurleið, skuldir á niðurleið, tekjur á uppleið, verðbólga á niðurleið, skuldir ríkissjóðs uppgreiddar með þessu áframhaldi um það bil árið 5650 osfrv. Þetta tal minnir mig á vísu Steins Steinarrs: Að sigra heiminn er eins og að spila á spil með spekingslegum svip og taka í nefið. (Og allt með glöðu geði er gjarna sett að veði.) Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til, því það er nefnilega vitlaust gefið.

Á meðan það eru gjaldeyrishöft er vitlaust gefið. Uppgangurinn er volgt hland í skónum. Lokaðu sjoppunni og það verður engin rýrnun – og heldur engin verðmætasköpun. „Fjármagnshöftin eru eitt best útfærða og best heppnaða þjóðhagsvarúðartæki sem um getur,“ segir Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri Seðlabankans (ritstjóri?). Hvernig er hægt að fullyrða svona? Hann hefur ekki hugmynd um hvernig væri um að litast ef búið væri að aflétta höftunum. Annars lýsir þetta orðskrípi ágætlega ástandinu. Þjóðhagsvarúðin gengur út á að hindra eðlilegan framgang markaðslögmálanna, hindra þjóðina í að skapa verðmæti, varna erlendu fjármagni að koma inn í landið og varna íslenskum fyrirtækjum að fjárfesta erlendis. Rétt er að minna á að EES samningurinn kveður á um frjálst flæði fjármagns: samningsákvæði sem Ísland svínar á og hefur nú gert í mörg ár. Halda sjálfskipaðir umsjónarmenn krónunnar og stuðningsmenn þeirra að þetta ákvæði hafi verið sett í samninginn fyrir tilviljun, eða bara mistök?

Nú var að berast sú frétt að bandarískt fyrirtæki hafi keypt fyrirtækið DataMarket. Í því tilefni skrifar Hjálmar Gíslason stofnandi og framkvæmdastjóri DataMarket:

  • Gjaldeyrishöftin verða að fara: Þetta er búið að vera langt og snúið ferli, og stærsti flækju- og áhættuþátturinn í ferlinu öllu var íslenskt efnahagsumhverfi. Gjaldeyrishöft, “gulir miðar”, undanþágur og lagabreytingar sem höfðu bein áhrif á fyrirhugaða útfærslu viðskiptanna kölluðu á mikla yfirlegu, ráðgjöf, kostnað, áhættu og óvissu sem hvorki kaupandinn né seljendur hefðu þurft að glíma við annars staðar. Það er þó rétt að taka fram að starfsmenn Seðlabanka reyndust okkur vel og á endanum fannst viðunandi lausn á öllum málum. Þeir sem eiga pirringinn skilinn eru þeir sem ollu því að setja þurfti höftin á til að byrja með, og svo stjórnvöld (núverandi og fyrrverandi) sem ekki hafa fundið leið út úr þeim.

Og Jón Sigurðsson forstjóri Össuar sagði höftin afleit í viðtali nýlega. Fyrirtækið er þvingað í skráningu á Íslandi og starfar á undanþágu frá hötunum. Hve lengi á það að vara?

Það þarf hvorki sérfræðing í efnahagsmálum eða ritstjóra banka að til að skilja hvað Hjálmar og Jón eru að segja.

Nú eru liðnir 528 dagar síðan ríkissjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks tók við völdum án þess að höftunum hafi verið aflétt. Það er AFLEITT.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

Sunnudagur 22.6.2014 - 00:04 - FB ummæli ()

Casey Kasem

Nú er Casey Kasem fallinn frá. Það var bandamönnum okkar og vinum í herstöðinni á Miðnesheiði að þakka að það var hægt að hlusta á topp 40 vinsældarlistaþátt hans í útvarpinu. Þátturinn var hugmynd Casey sjálfs og er mér ógleymanlegur. Casey hafði þýða og uppörvandi rödd og endaði þátt sinn á einkunnarorðunum: „Keep your feet on the ground and keep reaching for the stars“.

Vinsældarlistinn hóf göngu sína 1970 en 8 árum síðar bætti hann liðnum „Long distance dedication“ við. Hlustendur sendu honum bréf með kveðju til fjarlægra ástvina eða ættingja og ósk um lag. Það hljómar enn í huga mér Casey segja: „Debbie, here is your long distance dedication.“ Og svo kom lagið. Yndislegt.

Útvarpsþáttur Casey Kasem var það sem andstæðingar fjölmiðlareksturs varnarliðsins kölluðu „innrás í menningarhelgina“. Uss hvað þetta fólk var úti að aka. Jæja.

Blessuð sé minning Casey Kasem.

Hér má hlusta á AT40 með þessum einstaka útvarpsmanni.

Casey Kasem

Casey Kasem

Flokkar: Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 30.5.2014 - 17:13 - FB ummæli ()

Bensínlaust Ísland 2020!

Hún er mjög falleg framtíarsýn þeirra sem vilja auka veg hjólreiða og almenningssamgangna í borginni. Hún er falleg og fín nema framkvæmdin er skrýtin. Skrýtin á þann hátt að það er eins og það eigi að þröngva borgarbúum til þess að tileinka sér hana. Hvað er annað hægt að álykta út frá hugmyndum um þrengri götur og engri uppbyggingu stofnæða?

Ein röksemdin fyrir því að nauðsynlegt er að draga úr akstri bifreiða er sú að þeir menga. Það er eins og þetta fólk hafi ekki fylgst nægilega vel með. Röksemdin er fallin vegna þess að rafmagnsbíllinn hefur haldið innreið sína og síðast þegar ég vissi var hann mengunarlaus. Þess verður ekki langt að bíða að rafmagnsbílar aki um götur borgarinnar í stórum stíl án útblásturs og drifnir áfram af íslensku, mengunarlausu rafmagni. Um þessar mundir er verið að reisa stærstu rafhlöðuverksmiðju í heimi af fyrirtæki Elan Musk sem er maðurinn á bak við Tesla rafmagnsbílinn. En rafgeymarnir hafa verið stærsti kostnaðarliður rafmagnsbílsins til þessa og gert það að verkum að slíkir bílar hafa ekki verið á færi alls almennings að eignast. Með nýju verksmiðjunni hyggst Elan framleiða rafhlöður á hagkvæmari hátt en áður og gera þannig rafmagnsbílinn að raunhæfari kosti fyrir almenning. Innflutningur rafmagnsbíla til Íslands er hagkvæmari en innflutningur annarra bíla vegna þess að ekki eru lögð eins mikil gjöld á þá. Það er ágæt stefna því Íslendingar framleiða allt sitt rafmagn mengunarlaust. Ef framtíðarsýn mín Bensínlaust Ísland 2020! verður að veruleika þarf ekki að kaupa jarðefnaeldsneyti að utan. Það þarf engan sérfræðing til að reikna út sparnaðinn af því.

Það er útbreiddur misskilningur þeirra sem laðast að stjórnmálum að þeir eigi að stjórna fólki með boðum og bönnum. Þeir eru kosnir til þess að þjóna borgurunum, gera líf þeirra auðveldara og skemmtilegra. Ef Reykvíkingar til dæmis kjósa að fara ferða sinna í eigin bíl verða borgarfulltrúar og embættismenn að virða það. Valið á einkabílnum er ekki á misskilningi byggt vegna þess að nægar ástæður eru til að hafna blikkbeljunni alfarið. Innflutt hefðbundin bifreið hækkar 100% við tollafgreiðslu. Það gera skattarnir. Ennfremur er reksturinn skattlagður mjög duglega eins og allir sem kaupa eldsneyti vita. Engu að síður velur meginþorri almennings að kaupa hana. Eru það ekki nægilega skýr skilaboð til stjórnmálamanna? Eru það skilaboð um að nú eigi að þrengja göturnar og hætta að greiða fyrir umferð?

Borgarbúar eiga að hafa val um hvaða lífsstíl þeir kjósa. Ef borgarfulltrúm er svona ummunað um að borgarbúar eigi kost á að fara allra sinna ferða gangandi, hjólandi eða í strætó eiga þeir að skipuleggja slík hverfi en þröngva þeim ekki í hverfi sem fyrir eru. Geldinganesið er tilvalinn staður fyrir bílalaust hverfi. Það má skipuleggja það þannig að að hafi sinn eigin miðbæ þar sem alla þjónustu er að fá. Íbúarnir geta þá dvalið allan ársins hring þar við leik og störf. Aðrir borgarbúar sem áfram kjósa að nota bifreiðar til að koma sér á milli staða hafa þá val um það. Því má ekki gleyma að fjölmargir eiga frístundahús og þangað verður ekki farið á hjóli eða með strætó.

Setja ætti upp kerfi í borgaskipulaginu sem væri þannig að við hverja fasteign væri sett tala frá 1 og upp í 10. Ef talan 1 stendur við eignina þýðir það að þaðan má fara flestra sinna ferða og erinda fótgangandi, hjólandi eða með strætó. Ef talan 10 er fyrir framan hana þýðir það að nauðsynlegt er að eiga bíl til að búa þar. 5 þýðir að margt er í göngufæri, en ekki allt og svo framvegis. Væntanlegir fasteignakaupendur gætu þá metið sjálfir hvar á kvarðanum þeir kjósa að vera. Þannig borg er miklu geðþekkari en borgin sem nú er boðuð.

Stefna borgaryfirvalda eins og hún blasir við mér er eins og ógeðsdrykkur sem réttur er að mér með þeim skilaboðum að hann geri mér gott. Sama og þegið segi ég og býð nýja sýn:

Bensínlaust Ísland 2020!

Flokkar: Dægurmál · Stjórnmál og samfélag
Efnisorð: , , , ,

Þriðjudagur 15.4.2014 - 01:58 - FB ummæli ()

Deyr króna – deyr þjóð? 2

Getur áskorun sextíumenninganna (60 skora á 60) fyrir hálfri öld útskýrt hvers vegna margir fjölmiðlar eru leyfðir í landinu en ekki nema einn gjaldmiðill?

Það er sérstaklega tekið fram í inngangi áskorunninni að þeir sem „undir skjalið rituðu, [hafi gert] það sem einstaklingar, en ekki í embættisnafni né fyrir hönd stofnana þeirra eða samtaka, sem þeir starfa fyrir.“ Engu að síður er  vandlega haldið til haga hvaða starfstitill hver og einn ber.

Út frá starfstitlum hópsins eru áhyggjur sumra í hópnum af erlendum áhrifum á íslenska menningu skiljanlegar. Margir höfðu eflaust raunverulegar áhyggjur (en ástæðulausar eins og nú er komið í ljós) af menningarlegu sjálfstæði hins unga lýðveldis. Brynjólfur Jóhannesson og Haraldur Björnsson leikarar og Guðlaugur Rósinkranz og Sveinn Einarsson leikhússtjórar höfðu augljósra hagsmuna að gæta. Skáldin og rithöfundarnir Guðmundur Daníelsson, Guðmundur Hagalín, Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxness, Indriði G. Þorsteinsson, Kristján Karlsson, Sigurður A. Magnússon, Stefán Júlíusson og Tómas Guðmundsson störfuðu allir við miðilinn sem bókfellið er. Ragnar Jónsson bókaútgefandi og Gunnar Einarsson formaður bóksalafélags Íslands sýndu fádæma dómgreindarleysi að ljá nöfn sín á listann. Hagsmunaáreksturinn blasir við. Hlægilegt er að sjá nafn Sigurjóns Björnssonar sálfræðings og forstöðumanns Geðverndardeildar barna á listanum. Er verið að gefa í skyn að mér hafi staðið andleg hætta af kettinum Felix? Eða táningum af Bonanza?

Heilt yfir má segja að hópurinn hafi talið sig vera umsjónarmenn (nokkurs konar eigendur) íslenskrar menningar og litið á alla samkeppni sem ógnun við sig. Engu skipti þótt yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem náðu útsendingunum hafi verið ánægður með Keflavíkursjónvarpið. Þjóðin vissi greinilega ekkert hvað var henni fyrir bestu að þeirra mati, jafnvel ekki þótt hún hafi greitt Keflavíkursjónvarpinu atkvæði með dýru atkvæði; buddunni. Sjónvörp seldust afar vel á þessum árum (Keflavíkursjónvarpið fjármagnaði raunar stofnun Ríkissjónvarpsins vegna þess að sérstakur skattur var lagður á sjónvarpstæki).

Hugtakið menningarhelgi, sem varð til í andúð á fjölmiðlum varnarliðsins, lýsir ef til vill hugsunarhættinum best, en það er náskylt landhelgi sem hart var barist um á þessum árum. Venjulegir Íslendingar voru „þorskar“ í menningarhelginni og sjálfskipuðum eigendum „þorskstofnsins“ var ósýnt um að erlendir aðilar hefðu aðgang að honum. Eða eins og Þórhallur Vilmundarson prófessor orðaði það í útvarpsþætti 1961: „Yfir [menningarhelginni] eigum við einir lögsögu, og okkur má aldrei henda að leyfa öðrum þjóðum að ráðast inn í hana og fremja þar helgispjöll.“

Hugtakið menningarhelgi varð til í andúðinni á fjölmiðlum varnarliðsins. Áskorandi og einn eigenda „þorskstofnsins“ gaf erindi þar sem hugtakið kom fyrst fyrir út í bæklingi.

Það má ef til vill segja að við séum í svipuðum sporum varðandi gjaldmiðilinn og þegar aðeins ein útvarpsrás var leyfð í landinu. Menningarhelgin er hagkerfið og hópur manna hefur tekið að sér að sjá um „þorskstofninn“ og verja fyrir „helgispjöllunum“ sem erlendir gjaldmiðlar í höndum Íslendinga eru. Og eins og sýndi sig þegar farið var fram á þann sjálfsagða hlut (og sjálfsögðu mannréttindi í vestrænu lýðræðisríki) að einokun ríkisins á útvarps- og sjónvarpsrekstri væri afnumin var það meiriháttar mál. Það fór í gang einhvers konar tregðulögmál. Sama tregðulögmálið herjar núna á viðleitni við að auka frelsi í gjaldmiðilsmálum.

„Segðu mér… hver sér um að til séu nægar birgðir af brauði fyrir íbúa Lundúna?“ spurði sovéskur embættismaður hagfræðinginn Paul Seabright í heimsókn þar á níunda áratugnum. Svar Pauls var: „Enginn“. Spurning Rússans afhjúpaði skilningsleysi hans á markaðslögmálunum. Á einhvern undursamlegan hátt, án stýringar að ofan, geta allir á útsendingarsvæði Stöðvar tvö, svo dæmi sé tekið, nálgast brauðhleif út í næstu búð. Spurning rússans varpar ef til vill einnig ljósi á við hvað er að etja varðandi krónuna. Það er varla að maður þori að spyrja spurningarinnar. Það er vitaskuld tragíkómískt að hugsanlega – jafnvel nokkuð örugglega – að mennirnir sem telja sig gegna afar mikilvægu hlutverki við að sjá til þess að nægar birgðir séu til af krónum fyrir íbúa Íslands séu með öllu óþarfir. Það virðist að minnsta kosti engu skipta hvað aðhafst er í „hagstýringunni“, hagkerfið á Íslandi dansar undantekningalaust í takt við markaðslögmálin á heimsvísu. Ef eitthvað er hefur „hagstýringin“ gert illt verra eins og afleiðingar vaxtastýringarinnar (sem tekur mið af vaxtastýringarkerfi bandaríska seðlabankans) er gott dæmi um.

Við hlæjum að þeirri skrítnu skoðun í gamla daga að menningunni hafi stafað hætta af fjölmiðlafrelsi. Getur verið að við eftir ekki svo mörg ár, eigum eftir að hlæja að þeirri skrýtnu skoðun að nauðsynlegt hafi verið að halda úti sérstökum lögeyri á Íslandi?

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 11.4.2014 - 00:01 - FB ummæli ()

Deyr króna – deyr þjóð?

Í gær fékk ég skyndilega áhyggjur af því að ef Íslendingum yrði leyft að nota hvaða gjaldmiðil sem er og eiga með honum viðskipti við hvern sem er, án afskipta ríkisstofnunar, myndi menningu minnar kæru þjóðar vera stórkostleg hætta búin.

Er fótur fyrir þessum áhyggjum eða eru þær ef til vill óþarfar? Eru til dæmi í Íslandssögunni um sambærilegar áhyggjur sem reyndust ástæðulausar? Mér datt eitt mál í hug sem gæti hugsanlega létt af mér áhyggjunum.

Þegar herstöð varnarliðsins á Miðnesheiði var og hét var starfrækt þar útvarps- og sjónvarpsstöð. Útvarpið fór í loftið um 1950 en sjónvarpsstöðin nokkrum árum síðar. Keflavíkursjónvarpið, eins og það var kallað, sendi út afþreyingarefni fyrir hermennina en það náðist vel á höfuðborgarsvæðinu. Margir voru ósáttir við það, herstöðvarandstæðingar sem aðrir. Dagskráin var svipuð dagskrá Ríkissjónvarpsins eins og hún er í dag, bíómyndir, framhaldsþættir, fréttir og barnaefni.

Um miðjan sjöunda áratuginn birtist áskorun til Alþingis í blöðum, undirrituð af sextíu manns, um að lokað yrði fyrir aðgang Íslendinga að Keflavíkursjónvarpinu. Röksemdir sextíumenninganna voru mjög skiljanlegar: „Vér undirritaðir alþingiskjósendur teljum á ýmsan hátt varhugavert, auk þess sem það er vansæmandi fyrir íslendinga sem sjálfstæða menningarþjóð, að heimila einni erlendri þjóð að reka hér á landi sjónvarpsstöð, er nái til meiri hluta landsmanna.“ Tíu árum síðar varð draumur þeirra að veruleika. 1974 var ég of ungur til að skilja hvers vegna ég gat ekki lengur horft á köttinn Felix í svart-hvíta sjónvarpinu heima í Kópavogi.

Áskorunin eins og hún birtist í Tímanum 14. mars 1964.

Áskorunin eins og hún birtist í Tímanum 14. mars 1964.

Í ljósi sögunar er það vitaskuld hlægilegt að einhverjir skuli hafa talið menningu þjóðarinnar í hættu ef erlend sjónvarpsstöð næðist á höfuðborgarsvæðinu. Þjóðin hefur í mörg ár haft aðgang að flestum heimsins miðlum og ekki beðið skaða af. Öðru nær. Stóraukið frelsi í þessum efnum hefur aukið víðsýni hennar, styrkt sjálfsvitundina og kennt  að meta og dá eigin menningu.

Dómur sögunnar hefur fallið: Áhyggjur sextíumenninganna voru ástæðulausar. Sjálfur anda ég nú léttar.

Afar líklegt verður að teljast að það myndi hafa sömu ánægjulegu áhrifin á menningu okkar ef fleiri en einn gjaldmiðill væri leyfður í landinu rétt eins og það hafði að leyfa fleiri en einn fjölmiðil í landinu.

Það er með krónuna eins og suma hluti. Þegar þeir hafa verið lengi til þá taka þeir á sig stofnanablæ og virðast ómissandi (ekki síst ef reist er um þá virðuleg graníthöll). Þegar öllu er á botninn hvolft hefur þjóðin ekki notast við sérstakan lögeyri nema brot af sögu sinni. Fjölnismenn lifðu til dæmis aldrei þann dag að kaupa sér blekbyttu fyrir íslenska krónu. Krónan er ekki eitt af því sem skilgreinir okkur sem þjóð eins og til dæmis tungumálið og sögurnar. Hafi hún einhvern tíma verið sjálfstæðistákn, er hún það ekki lengur. Hún er miklu frekar ósjálfstæðistákn. Myndi það ekki annars vera merki um ósjálfstæði þjóðar ef gjaldmiðill hennar er hvergi gjaldgengur á tímum gríðarlega aukinna heimsviðskipta?

Þótt furðulegt megi teljast leggja margir traust sitt á krónuna þrátt fyrir að ævisaga hennar sé einn samfelldur hrakfallabálkur. Það hlýtur eitthvað annað að hanga á spýtunni en góð rök, umhyggja fyrir þjóðinni (eða bara almenn skynsemi) þegar kemur að gjaldmiðilsmálum á Íslandi.

Ef til vill getur sagan af áskorun sextíumenninganna 1964 gefið vísbendingar í þeim efnum líka.

Framhald…

(Fyrir áhugasama um þann anga Íslandssögunnar sem fjölmiðlarekstur varnarliðsins var, er rétt að benda á hina frábæru ritgerð „Hernám hugans“ eftir Hörð Vilberg Lárusson sem birtist í Nýrri sögu 1998. Í hana eru heimildir í þessari færslu m. a. sóttar.)

Flokkar: Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
sögumaður. Sagði söguna af Alfreð Elíassyni og Loftleiðum í samnefndri heimildarmynd og Árna Sam. í SAM-bíóunum í bókinni Á fullu í 40 ár.
RSS straumur: RSS straumur