Sunnudagur 01.07.2012 - 14:02 - FB ummæli ()

Flétta Ólafs Ragnars

Eftir að Ólafur Ragnar hefur nú lokið hringferð sinni um hið pólitíska litróf (sjá Forseti litrófsins) þá er fróðlegt að kryfja til mergjar hvernig hann náði hinu ómögulega.

Hann byrjaði sem forseti með stuðningi vinstri manna en hefur nú sitt fimmta kjörtímabil með mestum stuðningi sjálfstæðismanna. Hann skipti um stuðningsmannahóp!

Það sem gerðist í kosningunum núna var þetta. Ólafur hafði dregið staðfestingu framboðs síns úr hófi í þeirri von að ekki kæmu fram alvöru frambjóðendur. Það brást á endanum því framboð Þóru Arnórsdóttur var alvöru ógn fyrir Ólaf. Hann þurfti að fara í alvöru slag.

Ólafur hefur náttúrulega lesið landslagið á kjósendamarkaðinum af fagmennsku og þar sá hann að hægra fylgið var á lausu. Það var enginn sterkur hægri frambjóðandi í boði. Hann þurfti því einungis að tryggja sér stuðning hægri manna til að ná meirihluta.

Það gerði hann með því að þykjast vera í stjórnarandstöðu annars vegar og hins vegar með yfirlýsingu sinni um andstöðu við ESB aðild. Það voru sterk skilaboð til hægri manna, ekki síst í Sjálfstæðisflokki, þó efnislega ættu þau alla jafna ekki að skipta máli í forsetakosningum. Icesave atkvæðagreiðslurnar hjálpuðu honum við að raungera fléttuna.

En þessu til viðbótar króaði hann Þóru af gagnvart hægra fylginu með því að hengja kröftuglega á hana stimpil Samfylkingarinnar og tengja hana við ESB aðild, með heldur ósvífnum hætti. Þetta tókst líka og þar með var Þóra komin í vörn og átti lítil sóknarfæri gagnvart hægra fylginu. Hún nær í raun furðu miklu fylgi miðað við þetta upplegg.

Ólafur Ragnar spilaði þannig á fylgið, rak það í réttirnar og dró hægri menn í sinn dilk. Er hann þá orðinn  sjálfstæðismaður núna?

Nei, ég held ekki.

Hann mun halda sinni stefnu, ÓRG-stefnunni. Sú stefna snýst um tryggja að pólitískur ferill hans verði einstakur í sögu þjóðarinnar, óháð flokkum, stjórnum og stjórnarandstöðum. Og það hefur honum nú þegar tekist. Hversu langt hann muni ganga í að grípa inn í störf Alþingis á auðvitað eftir að koma í ljós, en hann er til alls vís.

Í sjónvarpsumræðum kvöldið fyrir kjördag minnti Ólafur Ragnar á að hann hefði vakið athygli á því í miðju góðærinu að fátækt væri alvöru vandamál fyrir hluta þjóðarinnar. Hann sagðist enn hafa áhyggjur af aðstæðum fátækra.

Það er hins vegar ekki áhugamál þeirra Sjálfstæðismanna sem fögnuðu kjöri Ólafs í Valhöll. Þeir hafa bara áhyggjur af hag auðmanna, sem þeir vilja umfram allt sem bestan. Ólafur Ragnar mun því ekki festast í vasa þeirra frekar en annarra.

Ólafur Ragnar telur sig sennilega of stóran til að vera bara hægri eða vinstri mann. Hann vill vera forseti hins pólitíska litrófs. Það hefur honum líka tekist á vissan hátt.

Í dag sagði hann á Bessastöðum að hann vildi blanda sér í þjóðmáladeilurnar í auknum mæli í framhaldinu. Taka þátt í samfélagslegu samræðunni og leiða mál til lykta með þjóðinni, sagði hann. Efla með því lýðræðið.

Það gæti verið stórbrotið prógram! Gæti til dæmis fært völdin í þjóðfélaginu frá stjórnmálum og auðmönnum til almennings.

Sennilega munu hægri stjórnmálamenn nú verða æstir í að skilgreina ramma stjórnarskrárinnar um hlutverk forsetans mjög þröngt – í flýti…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar