Miðvikudagur 04.07.2012 - 11:44 - FB ummæli ()

Mykjudreifari hlýtur frelsisverðlaun!

Um helgina voru veitt í Valhöll svokölluð “Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar”, fv. framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins til áratuga og bankaráðsmanns í Landsbankanum fram að hruni.

Það vakti mikla hneykslun árið 2010 þegar verðlaun þessi voru veitt InDefence hópnum “fyrir að verja þjóðina gegn Icesave-byrðunum”, vegna þess að Kjartan Gunnarsson átti sjálfur mikinn þátt í að færa þjóðinni Icesave, því hann var varaformaður bankaráðsins þegar sú ferð hófst. Samhengið þótti vægast sagt óviðeigandi.

AMX-vefurinn og Hannes Hólmsteinn Gissurarson fá verðlaunin að þessu sinni.

AMX vefurinn er helst þekktur fyrir miðlun ófræginga og persónuníðs í bland við áróður fyrir öfgafrjálshyggju, í skjóli nafnleyndar. Sagt er að Hannes skrifi reglulega á vefinn.

Þeir kalla skrif sín “fuglahvísl” en gárungarnir kalla þau “fugladrit”. Í samræmi við það er vefurinn oft kallaður “mykjudreifari”. Markmiðið virðist einmitt oft vera að ata auri á fólk og málefni sem vefurunum líkar ekki við.

Hannes Hólmsteinn fær verðlaunin fyrir ævistarf sitt við að halda frjálshyggjuróttækni að flokksmönnum í Sjálfstæðisflokknum, með miklum árangri. Flokkurinn varð einn róttækasti frjálshyggjuflokkur Vesturlanda í tíð Davíðs og Hannesar.

Árangurinn var reyndar svo mikill, að Íslandi var í vaxandi mæli stýrt eftir forskrift frjálshyggjunnar, sem gat af sér stærsta bóluhagkerfi sögunnar og mesta fjármálahrunið í kjölfarið.

Þeir keyrðu þjóðarbúið í þrot með græðgi sinni, en auðmenn græddu þó vel á öllu saman. Það skiptir þá “frelsismenn” mestu máli.

Hannes Hólmsteinn hefur auðvitað verið helsti talsmaður og hagsmunagæslumaður auðmanna hér á landi, enda snýst frjálshyggjan fyrst og fremst um það að auka frelsi og eignir auðmanna – oftast á kostnað almennings.

Frægt varð þegar Hannes lýsti sjálfstæðismönnum þannig, að “þeir vildu græða á daginn og grilla á kvöldin”. Fyrir það fékk hann sæmdarheitið “Grillmeistari græðginnar”. Ætli það sé ekki örugglega skráð á verðlaunaskjöldinn?

Það fer þannig vel á því, frá sjónarhóli Valhallar, að Hannes Hólmsteinn fái verðlaun sem kennd eru við auðmanninn Kjartan Gunnarsson, fyrir frjálshyggjutrúboð sitt. Þannig hrökkva líka molar af veisluborði Kjartans til Hannesar, sem er bara starfsmaður á plani.

Fyrir aðra er það umhugsunarefni, að frjálshyggjuróttæklingar ætla hvergi að slá af í herferð sinni, þrátt fyrir að stefna þeirra hafi leitt til hrunsins og lagt kjaraskerðingu kreppunnar á herðar almennings í landinu. Þeir mæla með enn stærri skammti af frjálshyggju í framhaldinu!

Meira frelsi fyrir auðmenn, meira brask, meiri skuldasöfnun, meira streymi fjár í erlend skattaskjól, minna hlutverk ríkisins og lýðræðisins, minna velferðarríki, meiri skattalækkanir til auðmanna og meiri einkaeign á auðlindum landsins o.s.frv.

Verðlaunaveitingin er til marks um það, að ef þessir aðilar komast til valda þá verði allt fært í sama farveg og var fyrir hrun, en jafnvel með enn meiri krafti.

Það er auðvitað sérkennilegt að það skuli talið fýsilegt að bjóða þjóðinni upp á slíka endurtekningu á hrunadansi í kringum gullkálfinn, í skjóli afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar.

Sennilega treysta þessir aðilar því að þeir hafi nægilega mikið fjölmiðlavald til að heilaþvo þjóðina svo hún taki þessum boðskap fagnandi á ný.

Á myndinni má sjá AMX-dreifarann á fullu. Hannes situr glaðbeittur við stjórnvölinn…

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar