Þriðjudagur 03.07.2012 - 10:29 - FB ummæli ()

Sjálfstæðismenn vilja beisla forsetann

Í greiningu minni á forsetakosningunum á sunnudag (Flétta Ólafs Ragnars) benti ég undir lokin á að hann hefði þegar sagt að hann vildi blanda sér meira í þjóðmálaumræðuna og leiða deilumál til lykta með þjóðinni. Svo sagði ég þetta:

“Það gæti verið stórbrotið prógram! Gæti til dæmis fært völdin í þjóðfélaginu frá stjórnmálum og auðmönnum til almennings.

Sennilega munu hægri stjórnmálamenn nú verða æstir í að skilgreina ramma stjórnarskrárinnar um hlutverk forsetans mjög þröngt – í flýti…”

Í kvöldfréttum RÚV í gær kom svo fram að Sjálfstæðismenn vilja leggja fram frumvarp í haust til að “skýra stöðu forsetans”, eins og þeir segja.

Þetta þýðir á mannamáli að þeir vilja “þrengja stöðu forsetans” – í flýti!

Þeir reikna fastlega með að komast til valda að ári og óttast réttilega að Ólafur Ragnar verði þeim ljár í þúfu í ýmsum málum. Til dæmis auðlindamálum, sjávarútvegsmálum, velferðarmálum, stjórnsýslumálum, milliríkjamálum  og fleiru.

Stórbrotið prógram Ólafs Ragnars um að auka lýðræðið og aðkomu almennings að ákvarðanatöku um lykilmál er þannig nokkuð sem helstu valdaaðilar samfélagsins hafa ástæðu til að óttast, ef af því verður.

Hverjir eru þessir helstu valdaaðilar samfélagsins? Jú, það eru atvinnurekendur, fjármálamenn og pólitískir samherjar þeirra, þ.e. hægri menn, einkum í Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Einmitt þeir stjórnmálamenn sem börðust fyrir hagsmunum auðmanna í sjávarútvegi á síðasta þingi.

Verkalýðshreyfingin var áður alvöru mótvægisaðili í valdabaráttunni á Íslandi. Nú eru þeir nánast orðnir eins og deild í Samtökum atvinnulífsins. Þeir sitja með atvinnurekendum í stjórnum lífeyrissjóðanna og vilja almennt ekki rugga báti samráðsins.

Vinstri stjórnmálamenn hafa aldrei haft nein alvöru völd hér á landi, ólíkt því sem verið hefur í Skandinavíu. Þeir ættu hins vegar að vera hrifnir af sumum hugmyndum Ólafs Ragnars um að auka völd og áhrif almennings. Það getur varla annað en ýtt undir að markmið vinstri manna náist betur en undir valdstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, fyrirtækjaflokkanna tveggja.

Þess vegna myndi ég halda að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar ættu ekki að hafa of miklar áhyggjur af Ólafi Ragnari. Reyna frekar að vinna með honum. Ríkisstjórnin er að ná góðum árangri og ætti almennt ekki að hafa miklar áhyggjur af neinu, nema slakri áróðursstöðu sinni.

Hins vegar ætti Samfylkingin sennilega að endurskoða Evrópuferðina. Megin verkefni þeirrar vegferðar var að fá niðurstöðu um hvað aðild gæti falið í sér fyrir Ísland – svo hægt væri að taka skynsamlega afstöðu til þess valkostar. Þetta var mikilvæg ferð til upplýsingaöflunar. Það er enn afar mikilvægt að fá niðurstöðu í samningaviðræðurnar, en sennilega ætti Samfylkingin að lýsa meiri fyrirvörum um fýsileika aðildar við núverandi aðstæður. Of mikil óvissa tengist Evrópumálunum þessi misserin.

Ef Ólafur Ragnar ætlar að fara í alvöru samræður við þjóðina þarf hann að tala um það sem skiptir þjóðina máli: velferðarmál, menntamál, nýsköpun, umhverfismál, réttlætismál, erlend samskipti og skipan stjórnsýslu og valda á Íslandi. Þetta eru allt góð mál, einkum fyrir vinstri menn. Ólafur Ragnar er ekki áhugamaður um að auðmenn flytji auðlindir þjóðarinnar í erlend skattaskjól, eins og frjálshyggjumen berjast fyrir.

Sjálfstæðismenn eru hins vegar búnir að átta sig á hættunum sem fylgja of djörfum forseta, sem gæti tekið hag þjóðarinnar framfyrir hag auðmanna og atvinnurekenda.

Þeir munu því vilja þrengja að forsetanum með stjórnarskrárbreytingu. Strax í haust. Það eru umskipti.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar