Fimmtudagur 05.07.2012 - 17:36 - FB ummæli ()

Ameríski draumurinn – búinn að vera?

Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, var að gefa út nýja bók, The Price of Inequality. Þar fjallar hann um hvernig aukinn ójöfnuður í Bandaríkjunum er að grafa undan efnahagslífinu, stjórnmálunum og samfélaginu. Ójöfnuðurinn er að eyðileggja samfélagið, segir hann.

Í bókinni gerir hann grein fyrir aukningu ójafnaðar í skiptingu tekna og eigna frá um 1980, eftir að frjálshyggjuáhrifa tók að gæta í mjög auknum mæli, m.a. með ríkisstjórnum Ronalds Reagan og Bush-feðganna.

Stiglitz sýnir hvernig hagvöxturinn í Bandaríkjunum á síðustu þremur áratugum rann að mestu leyti til ríkustu aðilanna, ríkustu 5% til 10% heimilanna.

Fólk með meðaltekjur er í dag með lægri rauntekjur en það hafði fyrir um 15 árum. Lágtekjufólk í Bandaríkjunum hafði í mörgum tilvikum lægri rauntekjur fyrir kreppu en það hafði um 1980.

En Stiglitz talar líka um það sem rannsóknir hafa verið að sýna í auknum mæli, nefnilega að verulega hefur fjarað undan ameríska draumnum á sama tíma.

Ameríski draumurinn er eins konar óformleg stjórnarskrá Bandríkjanna og stendur fyrir það, að Bandaríkin eigi að vera land tækifæranna. Fólk geti komist til bjargálna og velsældar með dugnaði í vinnu og útsjónarsemi.

Þeir fátæku eigi líka möguleika á að vinna sig upp í efri stéttir samfélagsins. Um þetta eru til miklar bókmenntir í Bandaríkjunum, t.d. dæmisögur Horatio Alger af ungum drengjum sem komust áfram í lífinu af eigin rammleika. Þetta eru allt að því trúarbragðalegar dæmisögur sem hafa haft áhrif á margar kynslóðir Bandaríkjamanna – og fleiri þjóða.

Ekki má heldur gleyma að nefna ævisögu Benjamíns Franklín, uppfindingamannsins kunna og hollráð hans til ungra manna. Þetta eru eins konar helgirit ameríska draumsins.

Rannsóknir bæði í félagsfræði og hagfræði hafa nú sýnt að á síðustu þremur áratugunum hefur mikið tapast í þessu í Bandaríkjunum, einmitt vegna aukins ójafnaðar í skiptingu lífskjaranna.

Margar Evrópuþjóðanna eru nú í meiri mæli “lönd tækifæranna” en sjálf Ameríka. Þar er nú auðveldara að vinna sig upp í samfélaginu en í Bandaríkjunum. Jafnvel í „hinni gömlu Evrópu“ (þó ekki Bretland, sem fylgir að mörgu leyti svipaðri stefnu og Bandaríkin). Skandinavísku samfélögin eru á toppnum í þessu efni.

Bandaríkjamenn þurfa í reynd að flytja til hinna skandinavísku velferðarríkja, á vit  ríkisafskipta, jafnaðarstefnu og barnaheimila, til að njóta alvöru tækifæra!

Það er umhugsunarefni fyrir okkur Íslendinga að á árunum fram að hruni vorum við á bandarísku leiðinni. Við vorum hætt að leita til norrænu frændþjóðanna að fyrirmyndum – eins og Viðskiptaráð boðaði.

Óheftur fjármálakapítalismi var okkar framtíðarsýn, í boði frjálshyggjuróttæklinga og braskara. Ójöfnuður jókst sem aldrei fyrr. Og svo hrundi spilaborgin!

Nú erum við í meiri mæli á leið norrænu velferðarríkjanna. Það eru umskipti.

Stiglitz myndi segja að það væri okkur fyrir bestu, – bæði fyrir efnahagslífið, stjórnmálin og samfélagið.

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar