Sunnudagur 08.07.2012 - 09:36 - FB ummæli ()

Styrmir stýrir Samfylkingunni

Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason skrifa reglulega á vefsíðu sem kallast Evrópuvaktin. Meginverkefni þeirra virðist vera að segja eitthvað niðrandi og hrollvekjandi um Evrópusambandið, minnst tvisvar á dag.

Styrmir og Björn skrifa þó líka um innlend stjórnmál. Einkum er þar að finna alls konar skrif um ríkisstjórnina og er það allt á einn veg – úrtölur, hrakspár og svartagallsraus. Þeir félagar þrá völdin aftur…

Það allra skondnasta í þessum skrifum er herferð sem Styrmir hefur staðið í gegn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hann hefur í marga mánuði klifað á því að Jóhanna eigi að hætta sem formaður Samfylkingarinnar. Undanfarið hefur þetta komið með vaxandi þunga, mörgum sinnum í viku. Hann virðist liggja andvaka yfir þessu…

Hann hefur sagt að hún hljóti að hætta. Ef hún haldi áfram muni Samfylkingin bíða afhroð í kosningum að ári. Hann hefur ávarpað þingmenn Samfylkingarinnar og sagt við þá að fæstir þeirra muni komast aftur á þing ef Jóhanna leiði Samfylkinguna áfram. Hann reifar hverjir eigi að taka við af henni o.s.frv. Svona gengur þetta í síbylju, eins og rispuð hljómplata. Til að hafa áhrif.

um daginn sagði hann svo að þrjú mál yrðu efst á dagskrá stjórnmálanna á næstu mánuðum: ESB málið (stöðvun aðildarviðræðna); stjórnarskrármálið (að ná samkomulagi um að þrengja að stöðu forsetans); og leiðtogaskipti í Samfylkingunni!

Styrmir virðist telja að kreppuviðfangsefnin séu öll leyst, eða hvað?!

Ég held reyndar að mörg önnur mál séu efst á baugi og mikilvægari fyrir þjóðina. Eigum við að nefna nýja stjórnarskrá með lýðræðis- og auðlindaumbótum, framkvæmd hinnar snjöllu og mikilvægu fjárfestingaráætlunar 2013-2016 til að draga úr atvinnuleysi, fiskveiðistjórnunarmálið, kjarabætur til eldri borgara og barnafjölskyldna, jafnvel álver í Helguvík, o.s.frv…

Forgangsröðun Styrmis er því skondin, svo ekki sé meira sagt! Skoðum þó nánar þriðja „stórmálið“ í landsmálapólitíkinni á lista Styrmis, framtíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Hvers vegna er það svo mikilvægt fyrir Styrmi að Samfylkingin fái nýjan leiðtoga?

Er það vegna þess að Styrmir vilji veg Samfylkingarinnar svo mikinn? Vill hann umfram allt að Samfylkingin fá gott fylgi?

Nei, ég held ekki…

Styrmir er einn þeirra sem telja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi náttúruborinn rétt til að eiga og stjórna Íslandi – alltaf. Réttkjörin vinstri stjórn er eins konar valdarán í huga hans og félaga í hirð Davíðs.

Hann vill veg Samfylkingarinnar sem verstan, því hann og félagar hans telja Samfylkinguna helstu ógnina við ævarandi stjórn Sjálfstæðisflokksins.

Hann er einfaldlega að grafa undan pólitískum andstæðingum, eins og hann gerði iðuglega sem ritstjóri Morgunblaðsins í áratugi.

Styrmir og félagar vita að Jóhanna hefur unnið þrekvirki í starfi forsætisráðherra. Hún, Steingrímur og félagar þeirra í ríkisstjórninni tóku við samfélaginu í rústum frjálshyggjuhrunsins. Engin stjórn í sögu lýðveldisins hefur fengið erfiðari verkefni að glíma við. Leiðtogar ríkisstjórnarinnar þurftu í ofanálag að glíma við sundrungu í liði VG, sem Styrmir og félagar ýttu mjög undir.

Nú er sífellt að koma betur í ljós að árangur ríkisstjórnarinnar er mikill og til hans horft sem fyrirmyndar í öðrum löndum. Það tókst að milda áhrif kreppunnar á milli og lægri tekjuhópa og halda atvinnuleysi í skefjum. Hagur þjóðarinnar er nú batnandi – þrátt fyrir allt. Engin ríkisstjórn hefur verið athafnameiri né árangursríkari.

Jóhanna, Steingrímur og ríkisstjórnin munu að öllum líkindum njóta þess í vaxandi mæli á komandi vetri. Það liggur einfaldlega í kortunum.

Styrmir er því að reyna að stýra Samfylkingunni í ógöngur – veikja hana. Hann vill ekki að Samfylkingin njóti þess að þjóðin muni smám saman sjá að Jóhanna hefur staðið sig ótrúlega vel.

Skilaboðin til Samfylkingarfólks hljóta að vera þau, að leggja hart að Jóhönnu að leiða flokkinn áfram í gegnum næstu kosningar. Þau ættu líka að hvetja hana til að hafa það opið hvort eða hvenær hún dragi sig í hlé á næsta kjörtímabili – eða þarnæsta.

Enginn stjórnmálaflokkur hefur efni á að setja pólitíska afreksmenn sína til hliðar – síst af öllu ef það er einlæg ósk pólitískra andstæðinga hans!

 

PS! Ég tek það fram að ég hef enga hugmynd um hver áform Jóhönnu eru eða hvort hún yfir höfuð getur hugsað sér að halda áfram eftir næstu kosningar. Ég er einungis að lesa á spilin hjá Styrmi Gunnarssyni!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar