Miðvikudagur 11.07.2012 - 08:02 - FB ummæli ()

Kreppustjórnmálin í Evrópu

Ég hef undanfarna tvo daga setið ráðstefnu evrópskra fræðimanna sem fjalla um afleiðingar fjármálakreppunnar og viðbrögð ríkisstjórna í 34 Evrópuríkjum, í Níkósíu á Kýpur. Níkósía er viðeigandi staður fyrir slíka ráðstefnu því hér skjálfa bankar nú og kreppan herðir tökin, enda hafa Kýpverjar sótt um neyðaraðstoð frá Evrópusambandinu og AGS.

Flestir fjalla hér um afleiðingar kreppunnar fyrir lífskjör og hvaða úrræðum stjórnvöld hafa beitt til að bregðast við vandanum. Mjög misjafnt er hversu alvarleg kreppan er fyrir einstaka Evrópuþjóðir. Verst standa Grikkir, Portúgalir, Írar, Ítalir, Spánverjar og ýmsar þjóðir í Austur-Evrópu og á Balkanskaga. Þjóðverjar, Hollendingar, Lúxemborgarar, Norðmenn, Svíar, Finnar, Danir og Austurríkismenn standa ágætlega. Sumar þjóðir eru lítt snortnar af kreppunni þó þær séu í ESB og hafi Evru. Önnur atriði skipta mestu fyrir kreppuþróunina.

Þær þjóðir sem verst hafa farið eru ýmist fastar á botni kreppunnar eða enn á leiðinni niður. Ísland og Eystrasaltslöndin eru hins vegar búin að ná botni og eru nú á uppleið. Eystrasaltslöndin fóru þó mun verr út úr kreppunni en Ísland, þó hrun Íslands hafi verið stærra. Atvinnuleysi varð og er enn mun meira hjá þeim og kjaraskerðing yfirleitt meiri en á Íslandi, einkum hjá fólki í lægri og milli tekjuhópum. Velferðarkerfi þeirra eru mjög veik og þeim var almennt ekki beitt til að milda áhrif kreppunnar, heldur skorin niður.

Ísland og Írland voru með fyrstu þjóðum til að falla, er bóluhagkerfi þeirra sprungu. Mikill munur er á árangri Íslands og Írlands í að vinna bug á kreppunni. Ísland hefur verið á uppleið frá seinni hluta 2010 og var vöxturinn og kaupmáttaraukningin all kröftug 2011 og einnig nú 2012, en Írar virðast fastir á botninum eða jafnvel enn á leið niður. Írar lögðu mestar byrðar á lágtekjufólk en á Íslandi var sömu hópum mest hlíft við kreppuáhrifum.

Þegar farið er yfir það hvernig stjórnvöld hafa brugðist við kreppunni kemur þannig í ljós allmikill munur milli landa. Flestar þjóðir Evrópu eru fastar í niðurskurðarstefnu (austerity measures). Það felst öðru fremur í að draga einhliða úr opinberum útgjöldum eftir að skuldastaða hefur víða versnað umtalsvert, mest þar sem kreppuáhrifin urðu alvarlegust. Skuldastaðan versnar yfirleitt vegna minni tekna ríkisins sem leiðir af minnkandi efnahagsumsvifum og auknum útgjöldum vegna beinna kreppuáhrifa (t.d. vegna aukinna atvinnuleysisbóta) og sérstaks kostnaðar, svo sem við endurreisn banka og fyrirtækja.

Árangur Íslands vekur mikinn áhuga hjá mörgum evrópskum sérfræðingum á þessu sviði. Ísland þykir hafa náð borni fljótt og tekist vel að koma samfélaginu aftur upp úr kreppufarinu. Sérstaklega vekur áhuga að í úrræðum stjórnvalda var markvisst stefnt að því að milda kreppuáhrifin á fólk í lægri og milli tekjuhópum, en víða finnur tekjulægsta fólkið mest fyrir kreppunni, bæði í formi atvinnuleysis og kjaraskerðingar. Hér tókst vel að ná niður hallanum á fjárlögum og beita skatta- og bótakerfinu til að milda höggið, sem var auðvitað mjög mikið.

Margir staldra við að á Íslandi var endurdreifingu tekna, skatta og bóta beitt í umtalsverðum mæli, sem dró úr þörf á beinum niðurskurði útgjalda. Blönduð leið tekjuöflunar (með skattahækkunum á hærri tekjuhópa), niðurskurðar og markvissari nýtingu velferðarútgjalda skilaði árangri, sem bæði varði lægri tekjuhópa gegn kjaraskerðingunni sem gengisfellingin orsakaði og hélt fleiri störfum gangandi, með meiri einkaneyslu en ella hefði orðið.

Ísland virðist því hafa haft mikla sérstöðu í beitingu úrræða gegn kreppunni og jafnframt náð mun betri árangri en aðrar þjóðir. Gengisfelling er ekki aðalatriði í því. Eystrasaltslöndin og Írland voru t.d. öll með fastgengisstefnu en lækkuðu laun og bætur með beinum hætti, oft þó þannig að það bitnaði hlutfallslega mest á lægri tekjuhópum. Það dró svo niður neyslu sem kom svo fram í auknu atvinnuleysi. Gengisfellingin hér fjölgaði störfum í ferðaþjónustu en fækkaði þeim í mun meiri mæli í byggingariðnað,  verslun og þjónustu. Bættur hagur sjávarútvegs vegna gengisfellingar fjölgar ekki störfum þar til að vega á móti fækkunaráhrifum gengisfellingar.

Gengisfellingin á Íslandi rústaði kaupmætti heimilann, hækkaði skuldabyrðina og fækkaði störfum. Jöfnunaráhrif og markvissari beiting velferðarútgjalda skipti miklu til að milda kreppuáhrifin og leggja grunn að endurreisninni sem virðist vera komin á gott skrið.

Það sýnir sig nú að jöfnunarstefna gagnvart kreppuáhrifunum er líka góð hagfræði, eins og kennt er í klassískum kenningum John M. Keynes. Það var einnig lexían sem menn lærðu af kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Margir hafa hins vegar ekki viljað beita úrræðum Keynes og eru fastir í frjálshyggjuúrræðum sem dýpka kreppuna að óþörfu. Um það fjallar Paul Krugman á athyglisverðan hátt í nýrri bók, End This Depression Now.

Ísland er á góðri leið með að verða fyrirmynd í endurreisn eftir fjármálahrun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar