Fimmtudagur 12.07.2012 - 09:08 - FB ummæli ()

Studdi Jón Sigurðsson innrás í Írak?

Hannes Hólmsteinn Gissurarson segir Jón Sigurðsson forseta hafa verið “frjálshyggjumann”, í nýlegu bloggi. Hann hefur reyndar oft áður skráð þjóðfrelsishetju Íslendinga í sértrúarsöfnuð sinn.

Jón Sigurðsson var hlyntur frjálsum viðskiptum almennt. Hann stóð í sjálfstæðisbaráttu og vildi færa viðskiptin á íslenskar hendur. Hann benti á að verslunarfrelsi væri undirstaða þjóðfrelsis og ítrekaði að einokunarverslunin hefði haft afgerandi áhrif til ills fyrir þjóðina. Barátta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.

Þýðir þetta að Jón Sigurðsson hafi verið “frjálshyggjumaður” og skrifað upp á allt sem Hannes og félagar boða?

Hefði Jón Sigurðsson stutt forréttindi og brask auðmanna eins og Hannes gerði, sem helsta klappstýra útrásarinnar? Varla

Hefði Jón barist fyrir skattalækkunum til auðmanna um leið og skattar væru hækkaðir á almenning? Varla. Hann tók almannahag fram yfir sérhagsmuni.

Hefði Jón stutt það frelsi auðmanna sem leiddi til gegndarlausrar skuldasöfnunar er ógnaði sjálfstæði þjóðarinnar? Varla.

Hefði Jón Sigurðsson viljað leggja niður opinberar eftirlitsstofnanir, jafnvel þó ófullnægjandi eftirlit í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti hefði verið ein af mikilvægum orsökum hins risavaxna fjármálahruns? Varla.

Hefði Jón stutt herferð Hannesar Hólmsteins og Péturs Blöndal um “fé-án-hirðis”, sem fól í sér að sameignir þjóðarinnar væru afhentar auðmönnum til að braska með, í eigin þágu? Varla.

Hefði Jón stutt frelsi auðmanna til að flytja auð sem til varð á Íslandi í erlend skattaskjól? Varla.

Hefði Jón Sigurðsson smjaðrað fyrir George W. Bush og stutt innrásina í Írak, fyrir hönd bandarískra olíuhagsmuna? Sjálf þjóðfrelsishetjan? Varla.

Það gerðu leiðtogar íslenskra frjálshyggjumanna hins vegar.

Við getum haldið áfram og fullyrðing Hannesar verður sífellt hlægilegri.

Það hefur enga meiningu að klína stimplun úr nútímanum á fólk fyrri alda. Það hafði allt aðra merkingu að vera frjálshyggjumaður á tíma Jóns Sigurðssonar en það gerir í dag.

Raunar hefði verið eðlilegra að kalla Jón Sigurðsson frjálslyndan mann (liberal) frekar en frjálshyggjumann, hvað þá ný-frjálshyggjumann. Nútímalegir jafnaðarmenn eru t.d. frjálslyndir, ekki síður en hægri menn.

Kommúnistar reyndu um árið að gera Jesús Krist að talsmanni kommúnisma, enda mátti finna í helgiritunum orð og setningabrot því til stuðnings. Það gekk þó aldrei vel. Fólk sá í gegnum hjómið.

Sölumennska Hannesar er af svipuðum toga.

Hann notar Jón Sigurðsson til að selja snákaolíu frjálshyggjunnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar