Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, fullyrðir ansi mikið í annars ágætri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að við hrunið hafi komið í ljós að “tuttugu ára lífskjarabati reyndist froða”.
Þorsteinn er að segja að við séum komin aftur á þann stað sem við vorum á árin 1992-3.
Einn af efnahagsráðgjöfum Sjálfstæðisflokksins, spákaupmaðurinn Heiðar Már Guðjónsson í Sviss, skrifaði líka í síðustu viku að lífskjörin á Íslandi hafi færst aftur til ársins 1993.
Hann var umsvifalaust tekinn í kennslustund af hagfræðingum Seðlabankans, sem sýndu að hann hafði tvítalið gengisáhrifin á kaupmáttinn og ýkti þannig verulega afleiðingar hrunsins á lífskjörin. Heiðar Már virðist hafa meiri áhuga á draugasögum en staðreyndum.
En hvað segja staðreyndirnar um kaupmáttarsveifluna?
Gögn Hagstofu Íslands á myndinni sýna að miðað við maí sl. þá erum við nú með svipaðan kaupmátt launa og var á árinu 2005 (menn geta stikað þetta út á myndinni). Hagfræðingar Seðlabankans miðuðu við janúar og fengu út að þá hefðum við verið á svipuðu róli og 2004.
Þegar við náðum botni í kreppunni árið 2010 var kaupmáttarstigið svipað og verið hafði árin 2001-2.
Um helmingur af falli kaupmáttarins frá toppi bóluhagkerfisins árið 2007 hefur svo verið endurheimtur á árunum 2011 og 2012.
Það hlýtur að teljast nokkuð gott!
En segir þetta allt um lífskjaraskerðinguna? Nei, því miður.
Kjörin versnuðu meira en þetta bendir til, vegna minni vinnu (skemmri vinnutíma, meira atvinnuleysis, fleiri hlutastarfa) og vegna aukinnar skuldabyrði. Sjá nánar um það í skýrslu minni og Arnaldar Sölva Kristjánssonar hagfræðings, Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar.
Lífskjaraskerðingin (þ.e. rýrnun kaupmáttar, aukin skuldabyrði, og fækkun starfa) kom til vegna gengisfalls krónunnar, sem margir dásama og vilja alls ekki vera án.
Vissulega voru lífskjörin á árunum 2001 til 2007 að umtalsverðu leyti byggð á froðu (aukinni skuldsetningu fyrirtækja og heimila, of hátt skráðu gengi og algerlega misheppnaðri peningastjórnun Seðlabankans). Það var því mikil froða á bak við lífskjarabata Davíðs-tímans, eins og Þorsteinn segir.
En það er of mikið sagt hjá Þorsteini Pálssyni að tuttugu ára lífskjarabati hafi verið froða ein!
Góðæri Davíðs Oddssonar var að stórum hluta froða – en ekki eingöngu.
Sjálfstæðismenn fara augljóslega mjög frjálslega með staðreyndir.
Er það vísvitandi eða vegna kunnáttuleysis?
Fyrri pistlar