Mánudagur 16.07.2012 - 17:16 - FB ummæli ()

Hvert fóru lífskjörin?

Andri Geir Arinbjarnarson skrifar pistil á Eyjuna í dag um hrun lífskjaranna. Hann styður að hluta þá ályktun Þorsteins Pálssonar, að lífskjarabati síðustu 20 ára hafi verið froða ein. Við séum nú á sama stað og við vorum um 1993.

Í gær stökk ég til varnar Davíð Oddssyni og sagði Þorstein ýkja þegar hann sagði að allur lífskjarabati Davíðs-tímans hafi verið froða.

Þó froða hafi verið vaxandi einkenni á þróun fjármála, efnahagsmála og kjaramála á árunum frá um 1998 til 2007, þá er of mikið sagt að öll lífskjaraþróun frá 1993 hafi verið froða.

Það er líka of mikið sagt að lífskjörin hafi hrokkið alla leið aftur til 1993.

Það sem Andri Geir gerir er að bera saman þróun vergrar landsframleiðslu í Bandaríkjadölum frá 1990. Slíkar tölur eru mjög háðar miklum sveiflum á gengi krónunnar. Það þarf því að draga varlega ályktanir af öllum rauntölusamanburði á erlendu gengi.

Fyrir hrun var gengi krónunnar of hátt skráð en í dag er það of lágt skráð. Ef skilyrði batna með áframhaldandi hagvexti og gengi krónunnar hækkar um 15-20% þá hækkar þjóðarframleiðslan sömuleiðis í takti við það, í dollurum talið. Þar með myndu forsendur fyrir ályktunum Andra Geirs gjörbreytast.

Stærsti hluti útgjalda íslenskra heimila er fyrir vöru og þjónustu sem verður til hér innanlands á íslenskum launum. Kaupmáttur gagnvart innflutningi er annað en kaupmáttur gagnvart innlendri framleiðslu, eins og Andri Geir bendir raunar á.

Til að meta hversu langt til baka lífskjörin hrukku er nærtækara að byggja á innlendum magntölum um mikilvæga lífskjaraþætti. Til dæmis getum við tekið magnþróun vergrar landsframleiðslu, einkaneyslu og kaupmátt ráðstöfunartekna heimilageirans.

Það er sýnt á eftirfarandi myndum, sem koma úr skýrslu minni og Arnaldar Sölva Kristjánssonar hagfræðings, Áhrif hrunsins á lífskjör þjóðarinnar (apríl 2012).

Öllum þessum tölum ber saman um að lífskjörin hafi að jafnaði hrokkið aftur til ársins 2004, eða þar um bil. Það sama kom í ljós þegar skoðaður var kaupmáttur launavísitölunnar, sem ég sýndi í síðasta pistli. Fleira mætti tína til.

Mynd 1: Kreppan í sögulegu samhengi. Hagvöxtur frá 1945 til 2011. Raunveruleg magnbreyting vergrar landsframleiðslu á mann frá fyrra ári, í %. (Heimild: Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands).

Á mynd 1 má sjá að verg landsframleiðsla dróst saman um 10% alls, en það er lítilega minna en samanlagður vöxtur VLF sem hafði orðið frá 2005 til 2007. Við fórum nokkurn veginn til 2004. Tapið er hins vegar meira ef við gefum okkur að kreppuárin hefðu ella haft meðalvöxt vestrænna þjóða í kreppunni.

Síðan má sjá að tæpur þriðjungur þess sem tapaðist hafði verið endurheimtur árið 2011. Ef vöxturinn verður áfram svipaður 2012 þá verður meira en helmingurinn af tapi landsframleiðslunnar endurheimtur nú í árslok.

Mynd 2: Þróun einkaneyslu heimilanna frá 1945 til 2011. Magnvísitölur Hagstofunnar; % breyting frá fyrra ári. (Heimild: Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands).

Einkaneyslan fór samkvæmt þessum magnvísitölum Hagstofunnar niður um tæp 23%, en það er svipað og samanlagður vöxtur hennar hafði verið frá 2005. Einkaneyslan fór nokkurn veginn aftur til 2004, að magni til.

Mynd 3: Kjaraskerðingin í sögulegu samhengi: Breyting kaupmáttar ráðstöfunartekna heimilanna frá 1955 til 2010. (Heimild: Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands).

Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna (að teknu tilliti til kaupmáttarrýrnunar tekna, minna vinnumagns og aukinnar skuldabyrði) varð samtals um 29% 2009 og 2010. Batnaði svo aftur 2011.

Tapið er nokkurn veginn sú samanlagða aukning sem orðið hafði frá 2004 til 2007.

Þetta eru hins vegar meðaltöl.

Vegna þess að stjórnvöldum tóks að hluta að hlífa lægri tekjuhópum við kjaraskeringunni þá varð tap lágtekju- og millihópa minna, um leið og hæstu tekjuhópar töpuðu meiru, enda höfðu þeir notið miklu meiri kjarabóta en allir aðrir fyrir hrun.

Hátekju- og stóreignafólk stórgræddi raunar á froðu bóluhagkerfisins. Meira um það síðar.

Lágtekjufólk hrökk því skemur til baka í lífskjörum en hátekjufólk. En lágtekjufólk er líka viðkvæmara fyrir kjaraskerðingu en hátekjufólk, sem hefur meira aflögu. Atvinnulausir fóru hvað verst út úr kreppunni. Alvarlegast var þegar saman fór kjaraskerðing, atvinnueysi og mikill skuldavandi í sömu fjölskyldu.

Þess vegna er svo mikilvægt að hlífa lágtekjufólki í kreppu, eins og hér var gert.

Sú staðreynd að það tólkst að halda aftur af atvinnuleysi og halda uppi þokkalegri eftirspurn í hagkerfinu, ásamt dreifingar og velferðaraðgerðum stjórnvalda, gerði að verkum að afleiðingar hrunsins á lífskjörin urðu ekki eins miklar og ætla mátti.

Hrunið var skelfilegt en við erum að sleppa furðu vel frá því.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar