Fimmtudagur 19.07.2012 - 00:47 - FB ummæli ()

Skattbyrði ríka fólksins – fyrir og eftir hrun

Egill Helgason hefur eftir grískum vini sínum í gær, að Grikkland komist ekki út úr kreppunni fyrr en ríka fólkið fari líka að borga til samfélagsins.

Það er mikið til í þessu.

Þetta var einmitt gert á Íslandi. Ríka fólkið var látið greiða hærri skatta eftir hrun og við erum á leið út úr kreppunni.

Fjármagnstekjuskattur var hækkaður og upp var tekið fjölþrepa skattkerfi með hærri álagningu á hærri tekjur. Skattar á lágtekjufólk voru hins vegar lækkaðir.

Á myndinni má sjá hvernig raunverulegar skattgreiðslur ríkustu 10% fjölskyldnanna í landinu þróuðust frá 1993 til 2010.

Myndin sýnir beina skatta sem hlutfall af heildartekjum fyrir skatt, hjá þessum ríkasta hluta þjóðarinnar. Allar skattskyldar tekjur eru meðtaldar, einnig allar álögur og allir frádrættir (Heimild: Gögn Ríkisskattstjóra; hjón og sambúðarfólk).

Árin 1993 til 1995 greiddi ríkasta fólkið um 31% heildartekna sinna í skatta. Það lækkaði svo verulega í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, niður í 17% árið 2007.

Skattbyrði þeirra lækkaði sem sagt um hátt í helming. Það var einstakt á Vesturlöndum. Mun meira en hjá Bush-stjórninni í USA.

Ríka fólkið á Íslandi naut þannig gríðarlegra forréttinda á árunum fram að hruni.

Eftir hrun hækkaði skattbyrði þeirra umtalsvert á ný, eða úr 17% og aftur upp í 31% árið 2010.

Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð og margir hægri stjórnmálamenn hafa kvartað hástöfum undan þessu og kallað skattpíningu. Þessir aðilar réðu öllu fram að hruni og vilja endurheimta þessi forréttindi komist þeir aftur til valda.

Þeir vilja lækka skattbyrði ríka fólksins aftur.

Samt er skattbyrði hátekjufólksins eftir hækkunina bara sú sama og hafði verið áður en forréttindatími frjálshyggjunnar gekk í garð árið 1995. Um 31%.

Þetta hjálpaði við að koma Íslandi út úr kreppunni. Minna þurfti að skera niður.

Þetta er því eitt að því sem vel heppnaðist hjá stjórnvöldum.

Bara að Grikkir gætu líka beitt þessari leið…

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar