Forsætisráðherra og fjármálaráðherra kynntu nýlega að ríkisstjórnin hygðist hækka barnabætur umtalsvert í fjárlögum næsta árs.
Þetta eru stór og merkileg tíðindi.
Margar rannóknir á afleiðingum hrunsins á lífskjör heimilanna hafa einmitt sýnt að ungt barnafólk varð fyrir sérsaklega miklu áfalli, einkum ef það hafði keypt húsnæði á árunum 2004 til 2008 (sjá t.d. hér og hér).
Kaupverðið var uppsprengt í bólunni og skuldirnar því hærri en áður hefur tíðkast hjá ungu fjölskyldufólki. Þegar krónan hrundi á árinu 2008 magnaðist vandinn, meira hjá þessum hópi en mörgum öðrum.
Hækkun barnabóta gerir þrennt sem skiptir afar miklu máli í núverandi stöðu þjóðarinnar:
- Það er góð velferðarstefna sem léttir byrðum af stórum hópi sem varð sérstaklega illa úti í kreppunni
- Það er efnahagsleg örvunaraðgerð í anda John Maynard Keynes, sem dróg lærdóm af kreppunni miklu á 4. áratugnum og lagði áherslu á að efla þyrfti eftirspurn neytenda til að koma hjólum efnahagslífsins á ferð á ný. Barnafólkið setur barnabæturnar beint út í neysluna, sem er gagnlegt.
- Það jafnar lífskjaradreifinguna frekar, vegna þess að barnabæturnar fara mest til lægri og milli tekjuhópa. Einnig fer meira til þeirra sem eiga minna í húsnæði sínu og/eða eiga fleiri börn.
Ríkisstjórnin slær því margar flugur í einu höggi með þessari aðgerð. Hún bætir hag heimilanna, léttir byrðum vegna kreppunnar á réttlátan hátt og hjálpar til við að auka hagvöxtinn frekar og fjölga störfum.
Þá verður auðveldara að greiða niður skuldir í framhaldinu.
Hækkun barnabóta leggur þannig fleiri lóð á þær vogaskálar sem eru að koma okkur upp úr kreppunni. Ekki er ástæða til að hækka strax greiðsluþak í fæðingarorlofskerfinu. Leggja á sem mestan þunga á barnabæturnar sjálfar.
Úrtölumenn Sjálfstæðisflokksins eru hins vegar að tala um mikinn niðurskurð. Þeir vilja fara leiðir Spánar, Írlands og Bretlands, þar sem hægri sinnuð stjórnvöld eru að dýpka kreppuna með róttækum og óréttlátum niðurskurðaraðgerðum. Þessar þjóðir eru á niðurleið – í enn dýpri kreppu.
Hægri menn vilja gjarnan nota tækifærið í kreppunni til að skera velferðarkerfin niður og lækka skatta á hátekjufólk og fjárfesta.
Stjórnvöld hér á landi eru hins vegar á réttri leið – leiðinni upp!
Fyrri pistlar