Laugardagur 11.08.2012 - 11:16 - FB ummæli ()

Niðurskurður – Veik rök Illuga Gunnarssonar

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einn af fáum þar á bæ sem hægt er að taka alvarlega. Hann er oft vandaður og rökfastur í málflutningi.

Illugi skrifaði grein í Morgunblaðið um daginn þar sem hann varði róttæka niðurskurðarstefnu, sem er höfuðstefna Sjálfstæðisflokksins nú, sem og í gegnum alla kreppuna.

Illugi er hins vegar á villigötum í þessari grein og hefur veik rök fyrir málstað sínum og Sjálfstæðisflokksins.

Það er þó rétt hjá Illuga að skuldir ríkissjóðs eru orðnar afar miklar, vegna kostnaðar við frjálshyggjuhrunið og minni tekna í kreppunni. Að hluta eru þó eignir á móti þessum skuldum og nettóstaðan því mun skárri. Það er þó ástæða til að hafa áhyggjur af skuldastöðunni.

Hins vegar lýsir Illugi stefnu og árangri ríkisstjórnarinnar af talsverðri ónákvæmni og ósanngirni.

Stefna ríkisstjórnarinnar, í samstarfi við AGS og frændþjóðirnar á Norðurlöndum, fól í sér blandaða leið niðurskurðar og tekjuaukningar, með skattahækkunum á þá sem greiðslugetu hafa (einkum tekjuhærri heimilin og stóreignafólk; aðrir fengu skattalækkun). Tekjutilfærslur til heimila voru einnig auknar. Skattahækkanir á breiðu bökin minnkuðu þörfina á niðurskurði um helming.

Sú stefna er að skila ótrúlega góðum árangri, bæði í minnkun hallans á ríkisbúskapnum og í vörn gegn verstu áhrifum kreppunnar á kjör heimilanna. Ef stefnu Sjálfstæðisflokksins hefði verið fylgt hefði niðurskurðurinn orðið tvöfaldur.  Gáið að því!

Hver væru kjörin þá? Eða atvinnuleysið? Eða staðan í heilbrigðiskerfinu?

Nú vilja Sjálfstæðismenn gefa í og skera harkalega til viðbótar; í heilbrigðisþjónustu, skólum, almannatryggingum og öðru. Vill þjóðin það? Væri það gott fyrir þjóðina? Ég held ekki.

 

Tvær meginleiðir

Valið í dag er nokkurn veginn um þessar tvær meginleiðir: Róttækan niðurskurð opinberra útgjalda (sem er einkum niðurskurður í velferðarmálum, þar sem stærstu útgjöldin eru) eða velferðar- og örvunaraðgerðir (líkt og ríkisstjórnin framkvæmir nú).

Í raun er þetta val um frjálshyggjuleið (niðurskurð opinberra umsvifa) eða keynesíska hagstjórnarleið sem gafst vel í kreppunni á 4. áratugnum. Þær þjóðir sem hafa farið harkalega í niðurskurð eru nú í verstri stöðu, jafnvel enn á leiðinni niður. En Íslandi gengur betur en flestum kreppuþjóðum – svo eftir er tekið.

Illugi vísar til rannsóknar sem fræðimenn við Harvard háskóla í USA gerðu (Alesina o.fl. 2009), sem rökstuðning fyrir skynsemi niðurskurðarleiðarinnar. Boðskapurinn er sá, að niðurskurður geti stöðvað skuldasöfnun fyrr og styrkt forsendur hagvaxtar.

Þessar rannsóknir Harvard-manna hafa hins vegar verið harðlega gagnrýndar fyrir ófullnægjandi aðferðafræði og villandi niðurstöður, af mörgum sérfræðingum um málefnið (t.d. Romer, Wren-Louis, DeLong og Summers, Krugman o.fl.).

Sérfræðingar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins hafa einnig nýlega gagnrýnt aðferðafræði þessara rannsókna og gert sjálfir mun viðameiri rannsókn sem byggir á reynslu síðustu 30 ára og sýnir hið gagnstæða (Guajardo o.fl. 2011).

Niðurstöður AGS eru þær, að niðurskurður ríkisútgjalda um 1% af VLF leiðir að meðaltali til 0,6% samdráttar þjóðarframleiðslu, 0,3% aukningar atvinnuleysis og 0,8% samdráttar einkaneyslu og fjárfestingar innan tveggja ára. Samkvæmt þessu er ótvírætt að niðurskurður í kreppu eykur vandann. Einn af meðhöfundum Alesina (Perroti 2011) viðurkennir nú að aðferð AGS sé betri en aðferð Alesina og félaga.

 

Vítahringur niðurskurðar og samdráttar – eða örvun?

Aukinn samdráttur í miðri kreppu getur þannig leitt til vítahrings samdráttar og enn meiri niðurskurðar, sem magnar skuldavandann og þrengingarnar, í stað þess að leysa vandann. Keynesíska leiðin hins vegar hægir á niðurskurði til skemmri tíma og gefur í með örvunar- og velferðaraðgerðum. Lögð er  áhersla á að koma hagvexti af stað og minnka atvinnuleysi sem fyrst. Þá verður í framhaldinu auðveldara að greiða skuldirnar hraðar á uppsveiflunni, með þjóðartekjum sem eru orðnar meiri vegna vaxtarins.

Þá spyrja menn hvort hægt sé að laga kreppu í skuldugu samfélagi með enn meiri skuldum? Svar Paul Krugmans, í anda Keynes, er ! Það er hægt.

Ef hægt er að endurræsa hagvöxt og fækka atvinnulausum, styttist fljótt í stöðvun skuldasöfnunar og stækkun þjóðarkökunnar, sem léttir róðurinn. Niðurskurður dýpkar hins vegar kreppuna og seinkar tekjuaukningu ríkisins, sem getur magnað skuldavandann í stað þess að minnka hann, segir Krugman.

Við sjáum sýnikennslu í áhrifum þessara tveggja leiða nú, einkum í Evrópu. Þær þjóðir sem eru að skera duglega niður í djúpri kreppu fara í aðra kreppudýfu (double-dip recession). Þetta á til dæmis við um Spán, Grikkland, Írland og Bretland.

Ísland, sem er á keynesísku og norrænu velferðarleiðinni, er hins vegar með ágætan hagvöxt, minnkandi atvinnuleysi og jafnframt að stöðva skuldasöfnunina á næsta eða þarnæsta ári og hefja niðurgreiðslu skulda.

Valið er því auðvelt milli þessara leiða, eins og Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, sýnir í nýrri bók (End This Depression Now). Hér eru nokkrar heimildir fyrir lesendur til að glöggva sig frekar á þessari umræðu: Romer, rannsókn AGS, DeLong og Sumers, Krugman, Wren-Louis, Chowdhury.

Ef rök málsvara Sjálfstæðisflokksins eru ekki betri en þessi hjá Illuga, þeirra besta manni, þá er málefnastaða flokksins veik.

 

Niðurskurður: hagsmunir og hugmyndafræði

Niðurskurðarleiðin leggur að auki þyngstar byrðar á lægri og milli tekjuhópa en hlífir gjarnan hátekju- og stóreignafólki. Kanski það sé helsta ástæðan fyrir vilja Sjálfstæðisflokksins til að fara þá leið, þegar öllu er á botninn hvolft?

Svo er niðurskurðarleiðin auðvitað í takti við trúarbrögð frjálshyggjunnar, sem eru þau að ríkið beri að minnka, hvað sem það kostar.

Ekki síst velferðarríkið!

 

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar