Sunnudagur 12.08.2012 - 13:39 - FB ummæli ()

Evrópuumræðan – á valdi vitfirringar

Það er dapurlegt að fylgjast með Evrópuumræðunni og hefur lengi verið.

Ríkisstjórnin samþykkti að fara í aðildarviðræður til að fá niðurstöðu um það, hvað aðild gæti falið í sér. Fá staðreyndirnar upp á borðið. Síðan skyldi leyfa þjóðinni að taka afstöðu á grundvelli þeirra samningsdraga.

Þetta er auðvitað sú leið sem skynsamt fólk myndi fara í öllum álitamálum. Fá staðreyndirnar fram og taka svo afstöðu.

Ég vil gjarnan eiga þess kost að sjá niðurstöðu samninga við ESB og taka svo afstöðu til aðildar. Ég hef ekki mótað mér neina afgerandi afstöðu til aðildar enn sem komið er. Evrópumálið er þó óneitanlega mjög mikilvægt fyrir framtíðarstefnumótun okkar sem þjóðar.

Sjálfur hef ég lengi talið að íslenska þjóðin myndi fella jafnvel góðan aðildasamning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Það er t.d. of stutt síðan við fengum sjálfstæði og því auðvelt að gera aðild tortryggilega á grundvelli þjóðernisviðhorfa margs konar, hvort sem þau eiga við rök að styðjast eða ekki.

Umræðan hefur hins vegar orðið vitfirrtari eftir því sem málinu hefur fram undið. Kanski vegna þess að tímabundnir erfiðleikar í Evrópu gera allar efasemdir svo auðveldar.

Málflutningur andstæðinga ESB aðildar er sérstaklega ómerkilegur. Sumir þeirra skrifa 3 eða fleiri greinar á dag með upphrópunum og bulli um Evrópu. Þeir vilja hvorki fá staðreyndirnar fram né leyfa lýðræðislega kosningu um málið. Geta ekki talað um það af viti.

Þráðurinn í afstöðu margra ESB andstæðinga er þó augljóslega sá, að reyna að koma ríkisstjórninni illa. Reyna að kljúfa hana og koma henni frá. Það er greinilega höfuðmarkmið stjórnarandstæðinga með málflutningi sínum um Evrópumálin.

Sífellt eru settir út önglar með margvíslegum beitum og vonast eftir að einstakir VG menn bíti á. Nú síðast hefur Vigdís Hauksdóttir í Framsóknarflokknum sett út öngulinn með beitu um “aðlögunarferlið” og vonast eftir að Ögmundur, Svandís, Katrín o.fl. bíti á – og stjórnarsamstarfið lendi í uppnámi. Styrmir, Björn Bjarnason, eigendur Moggans og fleiri standa á bakkanum og ærast af spenningi!

Stjórnarandstaðan veit auðvitað að slíkt uppnám og deilur innan stjórnarflokkanna – eina ferðina enn –veikir ríkisstjórnina gagnvart kjósendum, jafnvel þó ekki takist að fella hana.

Stjórnarflokkarnir eru hins vegar í þeirri góðu stöðu að endurreisnarstarf þeirra er að skila miklum árangri, sem væntanlega kemur betur og betur í ljós alveg fram að kosningum á næsta ári. Þeirra augljósi hagur er því að klára verkin og skila öllu í hús. Standa saman. Njóta síðan ávaxtanna.

Ef ekki er hægt að klára samningaviðræðurnar vel fyrir kosningar ættu stjórnarflokkarnir í sameiningu að skoða alvarlega að fresta viðræðunum þar til staða mála í Evrópu og framtíðarskipan ESB er orðin ljósari. Í Brussel myndu menn skilja slíka afstöðu.

Frestun yrði súr fyrir suma Samfylkingarmenn, einkum þá sem þegar eru búnir að móta sér afstöðu án þess að samningar hafi verið kláraðir. Hinir, sem hafa þá skynsömu afstöðu að vilja sjá samninginn fyrst, ættu að geta beðið. Óvissan í Evrópu segir okkur að bið geti verið skynsamleg við þessar aðstæður.

Síðan væri einnig athyglisvert að setja kostina bið eða framhald viðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það gæti farið á hvorn veginn sem er. Aðrir valkostir kæmu einnig til greina. Kanski væri atkvæðagreiðsla besta leiðin fyrir stjórnarflokkana. Láta þjóðina leysa málið.

Það er líka athyglisvert við bæði atkvæðagreiðsluleiðina og biðleiðina að með báðum væru ansi mörg vopn slegin úr höndum stjórnarandstöðunnar.

Er ekki mikilvægast fyrir stjórnarflokkana að klára sitt íslenska endurreisnarstarf og leggja þann árangur sem þar næst, ásamt framtíðarsýn, í dóm kjósenda næsta vor?

Evrópumálin verða hvort eð er ekki endanlega útkljáð á þessu kjörtímabili. Á meðan erum við auðvitað með 70% aðild í gegnum EES!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar