Mánudagur 13.08.2012 - 21:55 - FB ummæli ()

Risastökk í nýsköpun hefst 2013

Í hinni snjöllu Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015, sem ríkisstjórnin samþykkti í vor með liðsinni Guðmundar Steingrímssonar, er boðuð bylting í íslenskum vísindum og tækniþróun – strax á árinu 2013.

Áætlunin byggir á fjármögnun með sölu eignahluta ríkisins í bönkunum og arðgreiðslum frá þeim, auk tekna af hinu nýja veiðigjaldi sem var samþykkt á Alþingi fyrir skömmu.

Þó slegið hafi verið af veiðigjaldinu á lokametrunum, til að friða pólitíska fulltrúa útvegsmanna (Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn), þá er fjármögnun nú að mestu tryggð.

Áformin gera ráð fyrir tvöföldun fjármagns í samkeppnissjóðum vísinda- og tæknisamfélagsins, Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði Rannís. TVÖFÖLDUN!

Í hvorn þessara sjóða verða lagðar aukalega 750 milljónir króna og að auki verða settar 500 milljónir í markáætlanir til skilgreindra átaksverkefna í nýsköpun. Alls 2 milljarðar á ári. Átakið hefst strax á næsta ári.

Ríkisstjórnin byggir þessi áform að hluta á stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs og er þetta hluti af aukinni áherslu ríkisstjórnarinnar á þekkingarhagkerfið. Auk þess er lagt mikið fé til samgöngumála, í sóknaráætlanir landshlutanna og önnur atvinnuskapandi verkefni.

Í Vísinda- og tækniráði hefur menn dreymt um að auka fé í samkeppnissjóðum um langt árabil. Enginn þar átti þó von á tvöföldun núna eða á næstunni!

Við höfum ekki séð jafn myndarlegt átak í þágu vísinda og tækni á Íslandi fyrr. Ekkert slíkt gerðist í “góðæri” bóluhagkerfisins. Þetta eru því mikil  tíðindi.

Nú er mikilvægt að vísinda-, tækni- og nýsköpunarsamfélagið taki fast í árarnar og leggi sitt af mörkum til öflugrar framþróunar þekkingarhagkerfisins á Íslandi.

Þessi stefnumörkun er í anda þess sem Svíar og Finnar gerðu eftir fjármálakreppur sínar upp úr 1990. Vonandi skilar þetta góðum árangri hér eins og var hjá þessum frændum okkar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag · Tölvur og tækni · Viðskipti og fjármál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar