Mánudagur 03.09.2012 - 11:27 - FB ummæli ()

Davíð og Jóhanna – samanburður leiðtoga

Það er fróðlegt að bera saman áhrif og árangur tveggja stjórnmálaleiðtoga okkar Íslendinga, Davíðs Oddssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Davíð er sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið á valdastóli. Hann var sterkur og áhrifamikill leiðtogi. Ríkur þáttur í styrkleika hans var góð ræðumennska og örugg framkoma, auk hnyttinna tilsvara á köflum.

Jóhanna hefur setið lengi á þingi, oftast í stjórnarandstöðu. Hún er ekki jafn góður ræðuflytjandi og Davíð og ekki fræg fyrir hnyttni í tilsvörum. Styrkleikar hennar liggja meira í vinnusemi, heiðarleika og einurð en í leikrænni framkomu.

Davíð tók við á samdráttartíma, bæði í heimsbúskapnum og þjóðarbúskap Íslendinga, upp úr 1990. Frá 1995 naut hann hins vegar almennrar uppsveiflu í heiminum sem skapaði Íslandi hagstæð ytri skilyrði, nema árin 2001-2, er smá samdráttar gætti á Vesturlöndum. Davíð hafði mikil tækifæri til að hafa áhrif.

Jóhanna varð forsætisráðherra eftir hrun, þegar þjóðarbúið hafði steytt á skeri. Þjóðin hafði orðið fyrir gríðarlegu fjárhagstjóni og miklir erfiðleikar blöstu við, mun meiri en nokkrum sinnum fyrr í sögu lýðveldisins. Möguleikar hennar til að hafa áhrif voru því mun takmarkaðri en möguleikar Davíðs.

En hvaða árangri skilaði stjórnartími þeirra, hvors um sig?

Árangur Davíðs

Davíð innleiddi frjálshyggjustefnuna í vaxandi mæli frá 1995. Það var mikil breyting í íslenskum stjórnmálum. Frjálshyggjunni fylgdi aukið frelsi, einkum fyrir atvinnurekendur og fjárfesta. Einnig veruleg skattfríðindi fyrir þessa sömu aðila. Frjálshyggjan færði almenningi hins vegar fátt sem máli skipti. Hún var og er hugmyndafræði yfirstéttarinnar.

Stjórnarstefna Davíðs og framkvæmd hennar mistókst hins vegar illa. Hann stýrði þjóðinni inn í stærsta bóluhagkerfi sögunnar. Síðan er hann settist í stól aðalbankastjóra Seðlabankans gerðist hann æðsti stjórnandi íslenska peningakerfisins. Þar átti hann, samkvæmt starfslýsingu, að vernda stöðugleika fjármálakerfisins.

Fjármálakerfið hrundi hins vegar á hans vakt, næstum til grunna. Það var vegna gengdarlausrar skuldasöfnunar banka og fyrirtækja, sem var afleiðing bóluhagkerfisins sem Davíð hafði stýrt okkur inní. Seðlabankinn sjálfur endaði í gjaldþroti. Davíð var sakaður um alvarlega vanrækslu í starfi af Rannsóknarnefnd Alþingis.

Stjórnartími Davíðs er þannig tengdur miklum mistökum sem kostuðu þjóðina gríðarlega fjármuni. Byrðar og skuldir hrunsins munu fylgja okkur um langa framtíð.

Árangur Jóhönnu

Jóhanna hefur alla tíð lagt mikla áherslu á velferðarstefnu, með það megin markmið að bæta hag þeirra sem verr standa í samfélaginu. Að draga úr fátækt og auka jöfnuð kynja og tækifæra hefur verið hennar aðalsmerki. Það er öndverð stefna við frjálshyggjuna sem Davíð aðhylltist.

Jóhanna og lið hennar tók við stjórnartaumum þegar gríðarlegur vandi var skollinn á og hætta á þjóðargjaldþroti blasti við. Ríkissjóður sjálfur var með halla upp á vel yfir 200 milljarða króna og ljóst að erfitt yrði að taka á vanda þjóðarinnar samhliða því að vinna bug á hallanum á ríkisbúskapnum. Kjaraskerðing heimila vegna hruns krónunnar árið 2008 var gríðarleg.

Nú rúmum þremur árum eftir valdatöku ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms er ljóst að mikið hefur áunnist, þrátt fyrir gríðarlegt mótlæti. Þjóðargjaldþroti var afstýrt, ríkisbúskapurinn er að verða sjálfbær á næstu misserum, hagvöxtur er öflugur, kaupmáttur batnandi, atvinnuleysi minnkandi og þjóðin almennt að rétta úr kútnum.

Í samanburði við aðrar þjóðir sem fóru illa út úr kreppunni er árangur Íslands áberandi betri, t.d. í samanburði við Írland, þjóðirnar við Eystrasalt og í Suður-Evrópu. Hér tókst að hlífa lægri og milli tekjuhópum við verstu afleiðingum kjaraskerðingarinnar. Það var í samræmi við langtíma áherslur Jóhönnu og samstarfsfólksins í ríkisstjórninni.

Samanburður

Að þessu leyti má segja að stefna og stjórnarathafnir hafi verið mun árangursríkari hjá Jóhönnu og stjórn hennar en hjá Davíð og liði hans, bæði í ríkisstjórn og Seðlabankanum.

Jóhanna er þannig með pálmann í höndunum, en Davíð er leiðtogi sem brást. Samt var hann sterkur persónuleiki og ágætlega listhneigður einstaklingur. Hann var hins vegar með slæma stefnu og slæma ráðgjafa. Hann leiddi þjóðina í ógöngur.

Í ljósi þessa er leiðinlegt að sjá hvernig Davíð Oddsson fjallar um menn og málefni almennt í nýju hlutverki sínu sem ritstjóri Morgunblaðsins, m.a. um eftirmenn sína í landsstjórninni. Þar ráða systurnar lágkúra og lítilmennska för. Stuðningsmanna sinna og þjóðarinnar vegna ætti Davíð hins vegar að rísa upp úr þeirri lægð sem hann nú er í.

Hann ætti að viðurkenna alvarleg mistök sín, biðja þjóðina afsökunar á þeim og leggja endurreisn þjóðarbúskaparins lið frekar en að rífa linnulaust niður það sem vel er gert.

Davíð yrði án efa vel tekið ef hann sýndi þá auðmýkt og heilindi sem honum væri sæmandi. Hann var jú þjóðarleiðtogi okkar um hríð.

Þó margt hafi misfarist á stjórnartíma Davíðs sveigðist þrátt fyrir allt sumt annað til betri vegar. Fólk mun örugglega vilja fyrirgefa honum mistökin, setja punkt við það liðna og horfa til framtíðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Stefán Ólafsson
Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.

Helsta áhugamál utan vinnu er listræn
ljósmyndun. Hér er gallerí mitt á netinu:

Nýrra ljósmyndagallerí á 500px

Reykvískar impressjónir – Ljósmyndagallerí

Rökræður við Milton Friedman

Samræður við Egil um ójöfnuð og þjóðmál

Nýrri samræður við Egil Helgason um Ójöfnuð á Íslandi

Ný bók: Ójöfnuður á Íslandi
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn

Fyrri pistlar